16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3083 í B-deild Alþingistíðinda. (2788)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Vegna fullyrðingar hæstv. fjmrh. hér áðan þegar hann vitnaði til þeirra ummæla formanns Alþfl. að hann hefði rætt þessi mál við embættismenn í kerfinu, þá lýsti hæstv. fjmrh. því yfir klárt og kvitt að það væri ekki rétt, formaður Alþfl. hefði ekki gert það. Ég mótmæli mjög harkalega þessari yfirlýsingu hæstv. fjmrh. Hann veit ekki við hverja formaður Alþfl. á trúnaðarsamtöl um þessi mál og hefur þess vegna ekki aðstöðu til að tala eins og hann gerði áðan. Ég fullyrði og geri það með góðri samvisku af bestu vitund að formaður Alþfl. ræddi þessi mál við ýmsa aðila og leyfi mér því enn einu sinni að mótmæla og lýsa furðu á þeim málflutningi hæstv. fjmrh. þegar hann í rauninni kemur í ræðustól og lýsir formann Alþfl. ósannindamann.