16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3084 í B-deild Alþingistíðinda. (2789)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu, en fyrst vegna þeirrar umfjöllunar sem hér hefur orðið um formann Alþfl. og þær athugasemdir sem hann gerði. Ég staðhæfði að hann hefði ekki haft samband við þá sérfræðinga og embættismenn sem unnu að gerð frv. né heldur embættismenn í skattkerfinu. Ríkisskattstjóri hefur staðfest að svo sé, enda hefur komið á daginn að allar hrakspárnar sem þar voru bornar fram rættust ekki. Málin voru einfaldlega komin miklu lengra á veg en þar var lýst. Þar var búið að leysa þau viðfangsefni og álitaefni sem sögð voru óleyst sem best sést á því að frv. eru nú þegar komin hér til umræðu á hinu háa Alþingi. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum að þessu. Það er aukaatriði og ég fagna miklu fremur að Alþfl. skuli heils hugar, eins og hér hefur komið fram, ætla að beita sér fyrir framgangi málsins.

Varðandi fsp. hv. 11. þm. Reykv. um fjármagnstekjurnar, þá hafði ég þegar í ræðu minni í athugasemdum við ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. gert grein fyrir að þetta frv. gerir ekki ráð fyrir breytingum að svo stöddu á skattlagningu á fjármagnstekjur og sú nefnd sem unnið hefur að þessum frv. hefur það verkefni áfram að vinna að endurskoðun á skattlagningu þeirra. Því eru ekki á þessu stigi gerðar tillögur um breytingar þar um, en þetta tók ég skýrt fram í svari mínu við ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. Að svo miklu leyti sem þörf er á biðst ég afsökunar á því að ég skyldi ekki hafa endurtekið það svar aftur í ræðu minni, en ýmsir af ræðumönnum viku að sömu efnisatriðunum.

Varðandi viðmiðun hv. þm. við skattleysismörk fjögurra manna fjölskyldu við útgjöld vísitölufjölskyldunnar, þá hygg ég að ýmsum kunni að sýnast sem svo að einmitt útgjöld vísitölufjölskyldunnar séu ekki óeðlilegur mælikvarði á almennar launatekjur í þjóðfélaginu.