16.02.1987
Neðri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3098 í B-deild Alþingistíðinda. (2809)

336. mál, deilur menntamálaráðuneytisins og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra

Flm. (Ingvar Gíslason):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um skipun nefndar utanþingsmanna sem hafi það verkefni að rannsaka deilur menntmrn. og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra, en þessar deilur náðu hámarki þegar hæstv. menntmrh. vék fræðslustjóranum í Norðurlandsumdæmi eystra úr starfi fyrirvaralaust, auk þess sem deila þessi komst á nýtt stig, ef svo má segja, því nú er þungamiðja deilunnar sú hvort hæstv. ráðh. hafði næga ástæðu til að víkja fræðslustjóranum úr starfi, þ.e. hvort fræðslustjórinn hafi gerst sekur um háttsemi sem réttlæti brottvikningu.

Við flm. þessa frv. höfum þá skoðun að hæstv. ráðh. hafi ekki haft næga ástæðu til að víkja fræðslustjóranum úr embætti sínu. Við fáum ekki séð að þessi embættismaður hafi brotið neitt það af sér í starfi sem réttlætir það að hann sé settur af með svo harkalegum hætti sem raun ber vitni.

Um það er kannske ekki deilt í þessu máli að ráðherra hafi formlegt vald til að víkja manni úr embætti. Slíkt vald hefur ráðherra að mínum dómi. Hins vegar getur ráðherra ekki firrt sig ábyrgð á verkum sínum, slíkum stjórnvaldsaðgerðum. Hann getur ekki firrt sig ábyrgð á slíkum stjórnvaldsaðgerðum gagnvart alþm. eða öðrum þeim sem taka þátt í þjóðmálaumræðu, t.d. blöðunum og yfirleitt öllum frjálsbornum þegnum þessa lands. Ráðherra verður að þola gagnrýni og það að um verk hans sé talað og hann á engan rétt til þess að þeir sem óánægðir eru með verk hans þegi yfir því.

Í þessu tilfelli er það hæstv. menntmrh. sem um er að ræða. Hann á engan rétt til þess að við Guðmundur Bjarnason, hv. 6. þm. Norðurl. e., þegjum yfir því að við séum óánægðir með hvernig hæstv. ráðh. hefur beitt valdi sínu, jafnvel þó við séum stuðningsmenn þeirrar ríkisstjórnar sem hæstv. ráðh. situr í. Hæstv. ráðh. eða forustumenn Sjálfstfl. geta ekki vitnað til þess að flokkur okkar Guðmundar Bjarnasonar sé í stjórnarsamstarfi með Sjálfstfl. og við báðir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar sem við sannarlega erum.

Mér finnst þess hafa gætt í málflutningi sjálfstæðismanna, þar á meðal hæstv. menntmrh., að við Guðmundur Bjarnason, hv. 6. þm. Norðurl. e., séum að gera tilraun til þess að rjúfa stjórnarsamstarfið þó við segjum skoðun okkar á einu embættisverki eins einasta manns. Er þetta sæmandi lýðræðislega hugsandi mönnum? Er það virkilega svo að sjálfstæðismenn telji að það varði alþm. sviptingu málfrelsis að vera í stjórn með þeim? Á maður að kaupa þá náð að vera í samvinnu við Sjálfstfl. því verði að afsala sér réttinum til að segja meiningu sína á embættisverkum ráðherra ef manni þykir mikið við liggja? Slíkt afsal mannréttinda kemur ekki til greina. Síst af öllu geta alþm. tekið á sig slíka kvöð því að þeir eiga að vera merkisberar málfrelsisins en ekki ónytjumælginnar og undansláttarins í málflutningi sínum. Sá alþm. sem þegir yfir því sem honum finnst skipta höfuðmáli og varðar kannske grundvallaratriði þeirrar stefnu sem hann aðhyllist, að ekki sé minnst á undirstöðu lýðræðis og mannréttinda og hvernig valdsmenn fara með vald sitt, slíkur alþm. er að bregðast skyldu sinni sem frjálsborinn maður og málsvari þess sem hann telur vera rétt. Því er það ljóst að við hv. 6. þm. Norðurl. e. erum í fullum rétti til þess að gagnrýna verk ráðherranna þegar okkur býður svo við að horfa, hvort sem það eru menn úr okkar eigin flokki, Framsfl., eða menn úr Sjálfstfl. eða hverjum öðrum flokki sem við kynnum að vera í stjórnarsamstarfi við.

Þótt við séum stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar í löggjafarmálum - og ég legg á það mikla áherslu að menn veiti þessum orðum eftirtekt - höfum við ekki afsalað okkur réttinum til að gagnrýna ráðherra þá sem í stjórninni sitja, síst af öllu þegar um er að ræða ómengaðar valdsmannsaðgerðir en koma löggjafarmálum ekkert við, svo sem eins og það að embættismanni er vikið úr starfi eða ráðherra tekur einhverja aðra stjórnvaldsákvörðun sem orkar tvímælis eða er röng og því gagnrýnisverð. Sú skylda sem ég hef tekið á mig gagnvart núverandi ríkisstjórn er að verja hana vantrausti og vinna skipulega á vettvangi þingflokks míns að undirbúningi lagafrumvarpa og annarra þingmála og styðja slík mál þegar þau koma til afgreiðslu í þinginu. Hins vegar hef ég ekki afsalað mér réttinum til að gagnrýna embættisverk ráðherranna þar fyrir utan. Ég er ekki hirðmaður eða lendur maður neins ráðherranna og hef engum þeirra svarið hollustueið um fylgispekt við þá í embættisverkum. Ég styð þessa ríkisstjórn í löggjafarstarfi sem fær eðlilegan undirbúning og lýðræðislega málsmeðferð og ég ver þessa ríkisstjórn og ráðherra hennar vantrausti.

Það er á þann hátt sem þm. styðja ríkisstjórnir í þingræðislandi. Þeir afsala sér ekki réttinum til að gagnrýna einstök embættisverk ráðherra. Það er mikill munur á vantrausti og gagnrýni. Ég ætla að hlífa hv. þingdeildarmönnum við að útskýra þann mun í orðum því allir sem sæti eiga í þessum sal þekkja muninn. Það er enginn alþm. svo fávís um rétt sinn og orðaskýringar og lögfræðileg hugtök að þeir þekki ekki muninn á vantrausti annars vegar og gagnrýni á embættisverk ráðherra hins vegar.

Virðulegi forseti. Efni þessa frv. er að Hæstiréttur skipi fimm manna nefnd utanþingsmanna til að rannsaka í heild deilur menntmrn. og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra. Enn fremur ber að kanna og ekki síður hvort menntmrh. hafi haft fullgildar ástæður til að víkja fræðslustjóra umdæmisins úr starfi, þ.e. hvort fræðslustjórinn hafi brotið eitthvað það af sér sem réttlæti brottvikningu. Þá er einnig gert ráð fyrir að nefndin athugi hvernig háttað er aðstöðu einstakra fræðsluumdæma til að framfylgja ákvæðum laga og reglugerða um framkvæmd sérkennslu og önnur atriði er snerta framkvæmd skólamálastefnu eftir því sem við verður komið.

Verkefni nefndarinnar er vissulega umfangsmikið og ekki vandalaust. Ég hlýt t.d. að viðurkenna að það er ævinlega vandaverk að komast til botns í deilum milli manna, gera sér grein fyrir upphafi deilnanna og innihaldi þeirra, því sjaldan veldur einn þá tveir deila. Þó ég segi þetta almennt um deilumál milli manna hef ég þá skoðun að hlutlæg rannsókn á samskiptum menntmrn. og fræðsluráðsins geti leitt ýmislegt gagnlegt í ljós til að skilja þetta mál. Skilja innihald þessa máls, upphaf þess og hvernig það hefur þróast.

Þetta tiltekna mál er ekkert ákaflega flókið og það er ekki óragamalt. En eins og komið er er nauðsynlegt að kanna þetta mál hlutlaust og hlutlægt, átta sig á aðdraganda þess og hvernig það hefur verið að þróast. Þessar deilur á milli fræðsluyfirvalda á Norðurlandi og ráðuneytismanna, fleiri eða færri, náðu hámarki við brottvikningu fræðslustjórans sem gerður er að syndahafri og fórnardýri í þessum skrifstofuýfingum í menntmrn. sem mér sýnist þarna vera á ferð. Og þá hlaut svo að fara að þessar deilur fá nýtt innihald, komast á annað stig, ef svo má segja, og það er einmitt í þessum punkti sem mér persónulega finnst að hæstv. ráðh. hafi síst getað réttlætt gerðir sínar. Hann fremur þarna embættisverk sem er óvenjuharkalegt, auk þess sem það er fátítt að skipuðum embættismanni sé vikið úr starfi yfirleitt, síst með þeim aðförum sem hæstv. menntmrh. beitti í þessu tilfelli.

Hæstv. ráðh. er út af fyrir sig ekki skyldugur til þess að gera gælur við undirmenn sína, en þó svo sé ber honum skylda til að fara að lögum. Ég er þeirrar skoðunar að hæstv. ráðh. hafi ekki farið að lögum, ekki farið formlega rétt að þegar hann vék Sturlu Kristjánssyni úr embætti. Af þeirri ástæðu einni er aðförin að Sturlu harkaleg hvað sem líða kann misgerðum hans í starfi sínu sem fræðslustjóri sem ég tel persónulega að Sturla sé ekki sekur um.

Það sem er sérstaklega aðfinnsluvert við embættisverk hæstv. menntmrh. í Sturlumáli er það að hann sniðgekk lögbundnar reglur. Hæstv. ráðh. fór blátt áfram rangt að. Hann fór ekki eftir réttum reglum. Hann braut beinlínis rétt á Sturlu Kristjánssyni, fór harkalega að honum, og þó eru til settar lagareglur sem ætlað er að vernda opinbera starfsmenn fyrir gerræðisverkum yfirboðara sinna. Þessar reglur er að finna í lögum nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Enginn vafi er á því að Sturla Kristjánsson í stöðu fræðslustjóra féll og fellur undir þessi lög. Honum ber réttur samkvæmt þessum lögum. Hann var skipaður í stöðu sína, hafði hlotið gilt skipunarbréf og fullnægði skilyrðum laga um að hljóta slíkt skipunarbréf. 4. gr. laga nr. 38/1954 segir að maður sem skipaður er í stöðu hjá ríkinu skuli halda henni þar til eitthvert tiltekinna atriða komi til og þessi atriði eru talin upp í sjö töluliðum:

1. Að hann brjóti svo af sér í starfi að honum beri að víkja frá.

2. Að hann fullnægi ekki embættisskilyrðum.

3. Að hann fái lausn samkvæmt eigin ósk.

4. Að hann hafi náð hámarksaldri.

5. Að hann flytjist í aðra stöðu hjá ríkinu.

6. Að skipunartími renni út ef skipun er tímabundin.

7. Að staðan sé lögð niður.

Af þessum lestri er ljóst að aðeins eitt atriði getur komið til greina sem brottvikningarsök í máli Sturlu Kristjánssonar og það er að hann hafi brotið svo af sér í starfi að honum beri að víkja frá. Ég leyfi mér ekki aðeins að draga í efa að Sturla hafi brotið svo af sér í starfinu að honum beri að víkja frá, ég fullyrði að hann hefur ekki gert sig sekan um neinn þann verknað sem réttlætir brottvikningu á þeirri forsendu að hann hafi brotið af sér í starfi. Sturla Kristjánsson hefur engin afbrot framið því að hvað er afbrot í þessari merkingu? Það getur ekkert merkt annað en refsiverða háttsemi. Ef Sturla Kristjánsson hefði gert sig sekan um refsiverða háttsemi, misfarið með fé sem honum var trúað fyrir, sóað því eða eytt því í sjálfan sig var hann rækur úr starfi fyrirvaralaust en annars ekki. Hæstv. ráðh. fór ólöglega að í máli Sturlu Kristjánssonar. Uppi verður hann að sitja með það.

Sama niðurstaða verður ef litið er á 7. gr. laga nr. 38/1954, en þar er gert ráð fyrir að stjórnvald, sem er ráðherra eða forseti Íslands, sem veitir stöðuna eða skipar í stöðu, geti veitt lausn frá henni um stundarsakir, eins og það er orðað, vikið manni úr stöðunni. M.ö.o.: það er opnuð leið fyrir ráðherra að víkja manni úr stöðu um stundarsakir. Þarna er vissulega gert ráð fyrir að ráðherra geti hróflað við manni í stöðu sinni, en hann verður þó að hafa nokkurn hemil á sér, hæstv. ráðh. Ráðherra getur sem sagt ekki rekið mann fyrirvaralaust nema um ærnar sakir sé að ræða, þ.e. refsiverð afbrot, eitthvað sem heyrir undir hegningarlögin. 7. gr. laga nr. 38/1954 hefur að geyma þessi hamlandi ákvæði á gerðir ráðherra. Þar segir vissulega að ráðherra geti vikið starfsmanni úr embætti eða „veitt lausn“, eins og það er orðað í greininni, um stundarsakir. Og það eru taldar upp ástæður fyrir því að svo megi gera. Þar eru nefndar þessar ástæður helstar:

1. Óstundvísi eða önnur slík vanræksla.

2. Óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns.

3. Vankunnátta eða óvandvirkni.

4. Ölvun eða ósæmilegur hegðunarmáti.

5. Óreiða í bókhaldi og hvers kyns fjármálaóreiða.

Nú er alveg ljóst að Sturla hefur ekki gerst sekur um óstundvísi og vanrækslu í því að halda fræðsluskrifstofunni gangandi. Hann er hvorki kunnur að vankunnáttu né óvandvirkni. Hann er ekki drykkfelldur og hann kann mannasiði. Hann er ekki sekur um fjármálaóreiðu eða skort á reglu í bókhaldi. (Menntmrh.: Hvað skeði á Þelamörk?)

Ekkert af þessu kemur til greina. Ef eitthvað væri er það sú ástæða að hann hafi gert sig sekan um óhlýðni við yfirboðara sinn, hæstv. menntmrh. Og setjum nú svo að Sturla hafi óhlýðnast ráðherranum, þótt hann hafi engu stolið frá honum eða legið í fylliríi, þá ganga lögin ekki lengra en það að ráðherra var aðeins heimilt að víkja manninum frá um stundarsakir. Ráðherra vék í þessu tilfelli manninum ekki frá um stundarsakir. Hann rak hann fyrirvaralaust. Og ekki nóg það: Ráðherra braut þann rétt á starfsmanninum að hann eigi rétt til hálfra launa tiltekinn tíma vegna brottvikningarinnar. Og það sem verst var: Ráðherra sinnti ekki fyrirmælum 8. gr. laga nr. 38/1954 að mál hins brottvikna starfsmanns yrði þegar í stað rannsakað af kunnáttumönnum eða fyrir dómi til þess að komast að niðurstöðu um hvort rétt hafi verið að veita honum lausn að fullu eða láta hann aftur taka við starfi sínu.

Aðfinnslur mínar í sambandi við þessa embættisfærslu hæstv. ráðh. eru framar öðru þær að ráðherrann virðir ekki rétt starfsmannsins eins og hann er ákveðinn í lögum. Ráðherrann gengur of fast fram og gætir ekki að réttri málsmeðferð. Eins og málum er nú komið er því ekkert undarfæri með það að þetta mál verði rannsakað í heild af hlutlausri nefnd utanþingsmanna.

Hæstv. menntmrh. hefur sífellt verið að hamra á því og borið það fyrir sig að Sturlu Kristjánssyni sé opin leið samkvæmt 11. gr. laga nr. 38/1954 að bera mál þetta undir dómstóla, þ.e. að fara í skaðabótamál við ríkissjóð. Auðvitað er þessi leið til. En það er rangt, sem hæstv. ráðh. gefur í skyn, að þessi leið geti komið í staðinn fyrir ákvæði 8. gr. laganna um að mál hins brottvikna manns sé rannsakað af kunnáttumönnum, hvað þá að 11. gr. leysi ráðherra undan þeirri skyldu, sem á hann er lögð samkvæmt 7. gr. laganna, að áður en til fullrar lausnar komi skuli starfsmanni veitt lausn um stundarsakir.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að mæla fyrir frv. í öllu lengra máli. Ég tel mig hafa greint frá meginatriðum þess að þetta frv. er flutt. Ekki leyni ég því að í þessu frv. kemur fram gagnrýni á gerðir hæstv. menntmrh. í tilteknu og afmörkuðu máli. Í afstöðu minni felst ekki vantraust á ráðherra, enda hefur vantraust sína sérstöku merkingu sem óþarfi er að útskýra fyrir hv. alþm. eins og þeir væru börn í lögum og lagaskýringum og þekki ekki rétt sinn sem frjálsbornir menn og ímyndi sér e.t.v. að þeir geti orðið einhvers konar hirðmenn eða svarabræður ráðherranna og sviptir réttinum til að gagnrýna ráðstafanir þeirra í stjórnarráðinu. Sú eina skylda sem ég hef tekið á mig í þessu stjórnarsamstarfi er að verja ríkisstjórnina og ráðherrana vantrausti og vinna samkvæmt þingræðisvenjum að því að undirbúa og samþykkja frv. og önnur þingmál sem samstaða er um milli stjórnarflokkanna. Þessa pólitísku skyldu mína hef ég rækt og það hefur ekki síður gert hv. 6. þm. Norðurl. e., en við frábiðjum okkur þá pólitísku firru að við höfum svarið einhverjum einstökum ráðherrum hollustueiða og séum sviptir réttinum til að finna að verkum þeirra.

Virðulegi forseti. Ég mun ekki hafa þessi orð mín fleiri, en ég geri það að tillögu minni að þegar þessari umræðu er lokið verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.