16.02.1987
Neðri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3105 í B-deild Alþingistíðinda. (2811)

336. mál, deilur menntamálaráðuneytisins og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Í því sem ég segi hér mun ég ekki taka efnislega afstöðu til þess máls sem er til umræðu, brottvikningar fræðslustjóra Norðurlandsumdæmis eystra. Hins vegar sýnist mér að þeir hlutir hafi gerst nýlega sem kunna að leiða til þess að samþykkt svona frv. orki tvímælis og vísa ég þá til þess að fyrrv. fræðslustjóri mun 12. þ.m. hafa kært málið til dómstólanna. Það er því þegar komið í þeirra hendur. Ég vil, með leyfi forseta, vísa til hinnar merku bókar Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson. Þar segir:

„Tiltekin störf eru dómstörf eðli sínu samkvæmt. Þau störf falla undir hugtakið dómsvald í 2. gr. stjórnarskrár. Með það vald fara dómendur og verður það almennt eigi af þeim tekið nema með stjórnarskrárbreytingu. Verkahringur dómstóla skv. 2. gr. stjórnarskrár setur því valdsviði löggjafans tiltekin takmörk. Löggjafanum er almennt óheimilt að ganga inn á svið dómstólanna og setja lög um ákveðið ágreiningsefni sem dómstólum einum ber að úrskurða um. Ef löggjafi færi að kveða á um það hvernig einstöku dómsmáli skyldi til lykta ráðið, svo sem að ákveðinn maður skyldi sekur fundinn um refsivert athæfi, að bú tiltekins aðila skyldi tekið til gjaldþrotaskipta o.s.frv., í stað þess að láta dómstóla kveða á um það í dómi eða úrskurða á venjulegan hátt, þá fengi slíkt ekki staðist.“

Nú er þetta mál óumdeilanlega orðið dómsmál. Það mun fara til Hæstaréttar. Er þá eðlilegt að löggjafinn fyrirskipi Hæstarétti að setja rannsóknarnefnd í mál sem er á leiðinni til Hæstaréttar? Mér þætti ekkert undarlegt þótt Hæstiréttur hafnaði þessu og teldi það ekki standast. Ég veit að þarna er breyting á orðin frá því að frv. var lagt fram og ég vil leyfa mér að spyrja hv. 1. flm. hvort hann hafi rætt þá stöðu sem er orðin t.d. við forseta Hæstaréttar og kannað hvort hann telur þetta almennt koma til greina. Ég sé á því mjög stóra vankanta vægast sagt.