16.02.1987
Neðri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3120 í B-deild Alþingistíðinda. (2817)

336. mál, deilur menntamálaráðuneytisins og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra

Páll Pétursson:

Frú forseti. Það hefur margt verið rætt og ritað í kjölfar brottvikningar Sturlu Kristjánssonar og margt af því hefur verið heldur til óþurftar og til þess eins að herða rembihnútinn. Því miður verð ég að líta svo á að það frv. sem hér er til umræðu sé ekki skref til lausnar þeirri deilu sem yfir stendur. En þessa deilu verður að leysa. Ekki vegna Sverris hæstv. ráðh. eða fyrrv. fræðslustjóra Sturlu Kristjánssonar, ekki vegna ríkisstjórnarinnar eða fræðsluráðsins heldur vegna þeirra sem þessi deila bitnar á, þ.e. nemenda í grunnskólum á Norðurlandi eystra.

Það er alveg ljóst að hæstv. menntmrh. hefur vald til þess að reka menn, enda veit hann af því sjálfur. Það er ljóst að samskiptaörðugleikar hafa verið á milli ráðuneytisins og fræðslustjóra og fræðsluráðs. Fræðslustjóri er, eins og margoft hefur verið bent á, ekki bara starfsmaður menntmrn. Hann er einnig starfsmaður heimaaðila og löngum hefur gengið illa að þjóna tveimur herrum.

Það veldur sjaldan einn þá tveir deila. Fræðsluráð og fræðslustjóri eiga vafalaust hluta sakar. En sök getur líka verið hjá starfsmönnum í ráðuneytinu og hugsanlega hefði ráðherra átt að rýma til hjá sér í ráðuneytinu úr því að hann var kominn í útkastaragallann. Ég sýkna a.m.k. ekki óséð allt starfslið ráðuneytisins að það beri ekki hluta sakar af því hvernig komið er.

Grundvallaratriði þessa máls er að öllum nemendum séu sköpuð sömu skilyrði til manndóms og þroska af hálfu hins opinbera hvar sem þeir eru búsettir. Og það má ekki - ég endurtek: má ekki láta börn sem þurfa á sérkennslu að halda líða fyrir það að þau séu búsett úti á landi. Það er alveg óforsvaranlegt. Ríkisvaldinu ber að skapa þegnunum sem jafnasta lífsaðstöðu hvar sem þeir búa og það er skylda ráðuneytisins að sjá til þess að fjármunum sé réttlátlega skipt á milli fræðsluumdæma. Það er skylda fræðslustjóra og fræðsluráða að útdeila því fé sem þeim er fengið í hendur réttlátlega. Þetta finnst mér vera kjarni þessa máls. Það hefur orðið misbrestur á þessu og þess vegna þarf að finna heppilegt framtíðarform á þessum samskiptum á grundvelli fenginnar reynslu, líka með hliðsjón af þeim mistökum sem gerð hafa verið og þeirri dapurlegu reynslu sem aflað hefur verið.

Það er óhjákvæmilegt að gera sér grein fyrir því hvað úrskeiðis hefur farið til þess að unnt sé að finna viðhlítandi leið fyrir frambúðarsamskipti. Menntmrh. hefur haft uppi tilburði í þá átt með því að leggja til að málið fari í könnun tveggja manna. Fræðsluráðið hefur ekki sætt sig við þá tilhögun. Ég tel að það hafi verið misráðið af fræðsluráði, en samkomulagsgrundvöll um könnun og úrbótatillögur verður að finna og það er skylda menntmrh. að hafa forgöngu um það og sýna bæði ráðsnilld og þolinmæði, finna þá lausn, það form sem fræðsluráðið telur sig geta fallist á og ráðuneytið. Ég hef enga trú á að ráðsnilld og þolinmæði hæstv. menntmrh. sé fullreynd í þessu máli og þess vegna tel ég ekki tímabært að blanda Hæstarétti í málið. Ég þekki ráðherrann og ber til hans hið besta traust þó að auðvitað geti hann gert mistök ekki síður en aðrir dauðlegir. Það er krafa mín til ráðherrans að hann hafi forgöngu um að finna hentuga leið til lausnar á deilunni og leysa deiluna.

Ég get hugsað mér að frambúðarskipun mála yrði sú að ráðuneytið gerði tillögur um hlutfallslega jafna skiptingu fjármuna, þ.e. að sjálfsögðu með tilliti til breytilegra aðstæðna. Síðar fái fræðsluráðin frjálsari hendur til ráðstöfunar í umdæmunum og frelsi fræðsluráða yrði aukið frá því sem nú er. Valddreifing er heppileg og sjálfsögð, enda hafa heimamenn yfirleitt betri aðstæður til að taka réttar ákvarðanir en embættismenn í Reykjavík.

Það er komin fram frávísunartill. við þetta frv. Það finnast mér óþarflega harkaleg viðbrögð og óvenjuleg í þingsögu síðari tíma og ástæðulaus einnig þar sem í frv. felst alls ekki vantraust á menntmrh. Ráðherrann nýtur trausts þingflokks framsóknarmanna. Ég tel yfirleitt heppilegt að þeirri reglu sé fylgt að þingmál fái þinglega meðferð. Ég vara líka við því að menn taki skjótar ákvarðanir. Ég tel að það eigi að gefa ráðherra tóm til að leysa málið eins og honum ber skylda til og hann hefur alla burði til að gera.

Hvað varðar afgreiðslu málsins í dag geri ég engar athugasemdir við það að umræðu verði lokið, en ég óska eftir því að atkvæðagreiðslu verði frestað, að hún fari ekki fram í dag, m.a. af þeirri ástæðu að það þarf að gefast tóm til að kanna nokkur formsatriði málsins áður en atkvæði eru greidd, t.d. eins og það hvort Hæstarétti sé gerlegt að skipa nefnd í máli sem kemur til dóms síðar. Það er sem sagt ósk mín, forseti, að atkvæðagreiðsla um málið fari ekki fram í dag.