16.02.1987
Neðri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3128 í B-deild Alþingistíðinda. (2821)

336. mál, deilur menntamálaráðuneytisins og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra

Jón Baldvin Hannibalsson:

Tilefni þess að ég kem upp í þennan ræðustól er aðeins eitt, þau skilaboð sem hæstv. forsrh. flutti þingheimi áðan. Hæstv. forsrh. sagði, ef ég man rétt, að hann hefði skroppið fram og hringt í forseta Hæstaréttar og spurt forseta Hæstaréttar hvort það væri ekki mesta vitleysa að flytja svona mál á hv. Alþingi. Og hann flutti þau boð þingheimi, þeim handhöfum löggjafarvaldsins sem hér sitja, að hann mætti svo sem skila því til þingheims og hafa það eftir forseta Hæstaréttar að þetta væri hin mesta vitleysa. Þetta er lýsing á vinnubrögðum í stjórnsýslu lýðveldisins Íslands sem verðskulda að vakin sé rækilega athygli á.

Þetta mál virðist ætla að vefjast mjög fyrir þingheimi. Það eru komin fram fjögur þingmál, tvær þáltill., eitt frv. til l. og ein frávísunartill. Efnisatvik málsins eru svo þaulrædd að þar þarf engu við að bæta. Nú er umræðan um málsmeðferð. Það er um það sem ég ætla að víkja nokkrum orðum.

Má ég rifja upp að hæstv. menntmrh. hefur á öðrum vettvangi utan þings sagt: Ég tek ekki við neinum fyrirskipunum frá Norðlendingum í þessu máli. Mitt umboð kemur frá Alþingi. Ég beygi mig undir vilja þess. Engu að síður gerist það að hér er flutt till. til rökstuddrar dagskrár að vísa málinu frá Alþingi. Og hver eru rökin? Rökin eru þessi: Fyrrverandi fræðslustjóri hefur þegar vísað máli þessu til meðferðar dómstóla með stefnu. Málið er m.ö.o. komið úr höndum Alþingis, úr farvegi Alþingis til dómstóla. Til að árétta þetta hringir hæstv. forsrh. í forseta Hæstaréttar og segir að lagaskilningur hans sé alveg laukréttur.

Mín viðbrögð eru þessi: Hafi verið nokkrar efasemdir uppi meðal manna um að þetta mál verðskuldaði að fara til nefndar eru þær engar í mínum huga hér eftir því að svona lagaskýringum tek ég ekki úr ræðustól Alþingis og svona skilaboðum frá forseta Hæstaréttar ekki heldur. Það virðist alveg augljóst mál að úr því sem komið er er alveg nauðsynlegt að þetta mál fari til nefndar þannig að það fáist einhver botn í lagaþrætur manna og skýringar á því hvort það sé óviðurkvæmilegt, jafnvel stjórnarskrárbrot, að Alþingi gefi þessu máli þinglega meðferð. Spurningin er þessi: Er þetta mál sem slíkt komið fyrir dómstóla? Ég leyfi mér að efast um það. Sá þáttur þessa máls sem varðar hugsanlega valdsvið ráðherra kann að vera kominn til dómstóla. Ég þekki ekki forsendur fyrir stefnu hins brottrekna fræðslustjóra, en ég er alveg viss um að það er aðeins einn þáttur þessa máls sem yfirleitt mun fara fyrir dómstóla og hann snýst um valdsvið ráðherrans, það hvort ráðherrann hafi brotið lög.

En það er ekki málið allt. Og reyndar segir í grg. hv. þm. Ingvars Gíslasonar og annarra hv. þm., með leyfi forseta:„Ekki eru bornar brigður á að ráðherra hafi formlegt vald til að víkja manni úr stöðu.“ Ekki eru bornar brigður á. Um hvað eiga þá dómstólar að fjalla? Það eru ekki bornar brigður á valdsvið ráðherrans. Það eru aðrir þættir þessa máls sem dómstólar munu ekkert fjalla um þrátt fyrir skilaboð frá forseta Hæstaréttar. Hvernig væri að skila því til baka til forseta Hæstaréttar að það eru aðrir þættir þessa máls sem eru til umfjöllunar á hinu háa Alþingi? Hæstv. ráðh. menntamála segir: Mitt umboð kemur frá því og ég beygi mig undir vilja þess. Og hvaða aðrir þættir þessa máls eru það? Það er þetta sem menn hafa haldið um fimbulræður lon og don, samskiptaörðugleikar ráðuneytis og fræðsluyfirvalda norðan fjalla og framkvæmd grunnskólalaganna. Er það mál fyrir Hæstarétt? Er það eitthvert dómsmál? Er það ekki mál sem Alþingi getur látið sig varða? Er það ekki í hæsta máta eðlilegt að Alþingi fjalli um slík mál? Þetta eru stjórnsýslumálefni. Kemur það Hæstarétti eitthvað við? Er þetta eitthvert dómsmál? Ekki fæ ég séð það.

Hliðstæður út af þessari spurningu: Er það óviðurkvæmilegt og samkvæmt lögskýringum spekinga ótækt með öllu að Alþingi fjalli um aðra þætti máls ef einhver partur sama máls er kominn fyrir dómstóla? Menn spyrja um hliðstæður. Ég rifja upp. Í svokölluðu Hafskipsmáli, og nú tek ég fram að ég er ekki að tala um neinar efnislegar hliðstæður, ég er að tala um form, ég er að tala um lög og lagatúlkanir, var það niðurstaða meiri hluta Alþingis að flytja og fá samþykkt frv. til laga um skipun nefndar sem skipuð var af Hæstarétti utanþingsmönnum. Þegar það mál var flutt var skilmerkilega tekið fram að þessari nefnd, sem skipuð skyldi af Hæstarétti, væri ekki ætlað að fjalla um þá þætti málsins sem þegar væru í höndum annarra innan dómskerfisins, svo sem eins og skiptaráðenda og annarra, en það var talað um að það væru aðrir þættir þessa máls sem vörðuðu samskipti aðila, hugsanlega hagsmunaárekstra og stjórnarfarslega ábyrgð sem þessi nefnd átti að fjalla um. Það var spurt um hliðstæður. Er ekki hliðstæðan sú í þessu máli að á Alþingi hafa menn sett fram tillögur um að nefnd við ríkjandi kringumstæður, þegar Alþingi er að leysast upp í kosningabardaga, skipuð utanþingsmönnum fjalli um þá þætti þessa máls sem varða samskipti, samskiptaörðugleika og framkvæmd laga, stjórnsýsluleg málefni? Er eitthvað athugavert við það?

Niðurstaða mín er sú að ég tek ekki við lagaskýringum með skilaboðum frá hæstv. forsrh. eða í gegnum hæstv. forsrh. frá forseta Hæstaréttar. Ég tek ekki við þeim og treysti því að menn hafi a.m.k. þann metnað á hinu háa Alþingi að geta nokkurn veginn sameinast um að þakka fyrir þessi skilaboð og senda þau heim til föðurhúsanna. Mér sýnist m.ö.o. af þessu augljóst að hafi verið uppi einhverjar efasemdir um að þetta mál ætti að fá þinglega meðferð í þeim skilningi að það færi til nefndar sé algjörlega nauðsynlegt úr því sem komið er að þingnefnd fái ráðrúm til að kalla fyrir sig lögfræðinga, helst sem flesta því skoðanirnar verða þá sem flestar, og reyna að fá botn í hvort Alþingi Íslendinga hafi rétt til þess að fjalla um stjórnsýslulega þætti þessa máls þrátt fyrir skilaboð gegnum hæstv. forsrh. frá forseta Hæstaréttar.

Og að lokum herra forseti. Það er talað um traust eða vantraust. Hv. talsmenn Sjálfstfl. hafa lýst því yfir að fari svo að Alþingi samþykki þessa till. jafngildi það vantrausti á hæstv. menntmrh. Eitthvað hafa menn slegið úr og í um þá skoðun, en alla vega, taki menn það gott og gilt og ég vil gjarnan taka mark á mönnum í „kabinett“ spursmáli, taki menn mark á slíkum yfirlýsingum, jafngildir stuðningur við þessa frávísun traustsyfirlýsingu á hæstv. menntmrh. (Gripið fram í: Nei.) Jú, jú, samkvæmt gagnályktun að sjálfsögðu. Það er m.a. ein ástæðan fyrir því að ég treysti mér ekki til að styðja þessa frávísun ef hún kynni að vera misskilin sem traustsyfirlýsing á hæstv. menntmrh. En þeim misskilningi vil ég eyða.

Herra forseti. Niðurstaðan er sú að það er aldeilis bráðnauðsynlegt hér eftir að þetta mál fari til nefndar og reyndar málin öll til þess að Alþingi láti skera úr um hvort lagaskýringar, sem hér hafa verið fluttar með sendiboðum úr þessum ræðustól, séu einhlítar, hvort hliðstæðan sem ég nefndi og fordæmið frá Hafskipsmáli er ekki gilt og til þess að árétta að Alþingi tekur undir með hæstv. menntmrh. þegar hann sagði: Ég tek ekki við fyrirskipunum þeirra að norðan, en ég hef mitt umboð frá Alþingi og beygi mig undir vilja þess.