16.02.1987
Neðri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3130 í B-deild Alþingistíðinda. (2822)

336. mál, deilur menntamálaráðuneytisins og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra

Steingrímur J. Sigfússon:

Virðulegur forseti. Það eru nokkur orð sem lúta að orðaskiptum og deilum um form og málsmeðferð fyrst. Reyndar liggur við, virðulegur forseti, að mig langi til að gera tillögu um það fyrst af öllu að hæstv. menntmrh. leiti á náðir menntakerfisins og fái sér tilsögn, það er komið fram á varir mínar að segja, virðulegur forseti, með leyfi þínu, í mannasiðum, en ég ætla ekki að gera það. Í góðum siðum þyrfti hæstv. menntmrh. að fá litla tilsögn. Ég hef reynt að forðast, og það hafa held ég flestir sem þessu máli hafa tengst á undanförnum vikum, að persónugera það meira en orðið var og óhjákvæmilegt var. Sömuleiðis hafa menn yfirleitt reynt að forðast að draga óskylda hluti inn í þessa deilu, óskyld efnisatriði, enda er hún orðin ærin að vöxtum og ærin pappírsflóðin sem henni tengjast þó að það komi ekki til.

Engu að síður reynir hæstv. ráðh., jafnvel með frammíköllum, að draga atriði langt aftan úr fortíð manna inn í þetta mál sem að mínu viti eiga alls ekkert erindi í þessa umræðu. Eins og hvort tiltekinn maður einhvern tímann í fyrndinni í öðru starfi gerði eitthvað af sér eður ei. (Menntmrh.: Um hvað er ræðumaður að tala?) Ég er m.a. að tala um tilraunir hæstv. menntmrh. til að draga fram Þelamerkurmál (Menntmrh.: Hvaða mál var það?) og samskipti manna langt aftur í tímanum inn í efnisatriði þessarar deilu (Menntmrh.: Hvaða mál var það? Segðu frá.) sem að mínu viti koma því ekkert við, hæstv. menntmrh. Ég get með sömu vinnubrögðum og hæstv. ráðh. reynir hér að tíðka með litlu af góðum siðum farið ofurlítið yfir fortíð hæstv. menntmrh. í Framkvæmdastofnun, rætt svolítið um afrek hans í iðnrn. (Menntmrh.: Lát heyra.) Já, það væri alveg þess virði að láta heyra svolítið af því. En, virðulegur forseti, mér finnst það neðan við mína virðingu þegar við erum að reyna að ræða efnislega um tiltekið mál að fara að draga alls óskylda hluti inn í það. (Menntmrh.: Það getur ekki verið fyrir neðan virðingu ræðumanns. Það er óhugsandi.) Auðvitað hefur hæstv. menntmrh. sína fortíð eins og aðrir. Ég hef mína fortíð. (Menntmrh.: Nú verður hann að láta heyra. Hér eru dylgjur sem hann verður að skýra frá.) (Forseti: Má ég benda hæstv. ráðh. á að hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur orðið.) (Menntmrh.: Hvað gerir forseti við mann sem fer með dylgjur? Hvað gerir forseti samkvæmt þingsköpum við ræðumann sem fer með dylgjur eins og þessar? Hann áminnir hann um að gæta orða sinna.) (Forseti: Vill ekki hæstv. ráðh. biðja um orðið. Ég skal setja hann á mælendaskrá.) Ég vísa til upphafsorða minna, virðulegur forseti, um nauðsyn þess fyrir hæstv. menntmrh. að afla sér tilsagnar á ákveðnu sviði.

Það er eins og ég segi ekki samboðið virðingu Alþingis þegar reynt er, a.m.k. af flestum þátttakendum í umræðum, að ræða efnislega um hlutina að draga alls óskylda hluti þar inn. Þess vegna skulum við öll sömul hjálpast að við að reyna að halda umræðunni við það sem hér er á dagskrá. Jafnskemmtilegt og það gæti verið að ræða bæði fortíð mína og fortíð hæstv. menntmrh. held ég að það þjóni ekki sérstaklega málinu að gera svo.

Í fyrsta lagi vil ég undirstrika, hafi það farið fram hjá einhverjum, að frv. okkar, 336. mál Nd., gerir ráð fyrir að Hæstiréttur hafi ekki önnur afskipti af þessu máli en að taka að sér samkvæmt óskum Alþingis að tilnefna menn í nefnd. Að öðru leyti kemur Hæstiréttur ekki að þessu máli. Nefndin er í störfum sínum Hæstarétti óviðkomandi. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að menn hafi í huga, m.a. vegna þeirra deilna um formlegheit málsins sem hér hafa farið fram. Þá er og rétt að á þskj. 613, till. til rökstuddrar dagskrár, er sagt að dómstólar eigi einir úrskurðarvald um það hvort frávikning fyrrv. fræðslustjóra o.s.frv. Hér er að sjálfsögðu notað orðið „úrskurðarvald“. Í frv. okkar er eingöngu gert ráð fyrir að starfsnefnd þessi, sem Hæstiréttur tilnefni, rannsaki deiluna og kanni málið og dragi fram efnisatriðin, upplýsingarnar sem ekki liggja á lausu, ekki liggja fyrir. Þetta ætti ekki að þurfa að ruglast saman, virðulegur forseti, ef menn gefa sér tíma til að glöggva sig á þessu. Þess vegna held ég að það væri hægt að stytta mikið deilur um hvort þetta sé eðlileg málsmeðferð eða ekki. Ég get ekki séð að Hæstiréttur hafi stjórnskipulega stöðu til að koma í veg fyrir og allra síst með tilmælum í gegnum símann að Alþingi láti kanna, athuga og rannsaka þau mál sem því sýnist. Að sjálfsögðu hefur Alþingi þann rétt. Það hefur hann í fyrsta lagi samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar og það hlýtur enn fremur að geta sett á fót starfsnefndir til að gera þessa hluti eins og ýmislegt annað. Það er alsiða að Alþingi komi á fót nefndum eða feli ríkisstjórninni að setja á fót nefnd til að vinna hin ólíklegustu störf og hér er í raun og veru eingöngu um vinnu af því tagi að ræða.

Hv. skrifari, 2. þm. Norðurl. e., mun ekki vera á fundi, en hann bar mikið lof á hæstv. menntmrh. fyrir dugnað í sambandi við skólamál á hinum æðri stigum norðan fjalla og það má vel vera rétt hjá hv. skrifara að hæstv. menntmrh. eigi lof skilið. Ég verð þó að segja að það er mín tilfinning og margra fleiri vænti ég að fyrst þurfi að koma málum grunnskólans í sæmilegt horf og hafa sæmilegan frið um það starf áður en við getum farið að ræða að gagni um framhaldsmenntun, ég tala nú ekki um háskólamenntun.

Síðan eru það að lokum örfá orð um sérkennsluna einu sinni enn, virðulegur forseti. Nefndur ræðumaður, hv. 2. þm. Norðurl. e., talaði um að á mig hefði verið borið lof fyrir frammistöðu mína í sérkennslumálum. Ég tek ekkert allt of glaður við því lofi því satt best að segja skammast ég mín fyrir mína frammistöðu í þeim efnum og skal svo fúslega viðurkenna það héðan úr þessum ræðustól að ég tel að ég hafi sem þm. míns umdæmis ekki staðið mig í stykkinu og verið of sofandi á verðinum fyrir því misrétti sem landsbyggðin greinilega býr við í þessum efnum. Ég vil ekki vera borinn lofi sem ég á ekki skilið í þeim efnum. Ég var, eins og við höfum sjálfsagt verið fleiri, hv. þm., allt of illa á verði um það í hversu bágu horfi þessi mál voru. Ég get reynt að færa það fram mér til málsbótar að upplýsingar um stöðu þessara mála hafa ekki legið á lausu og liggja reyndar ekki á lausu og það er næsta ótrúlegt en satt að þegar ég lagði fram hér á Alþingi einfalda fsp. um stöðu þessara mála í hinum mismunandi fræðsluumdæmum tók það mánuði að afla svarsins í menntmrn. og þegar það loksins kom var það svo mjög í skötulíki að það stendur naumast undir nafni sem slíkt og eins og ég sagði í fyrri ræðu minni mun ég ekki sjá mér annað fært en að gera við það athugasemdir. Auðvitað á þetta ekki að vera svo. Auðvitað eiga þessar upplýsingar að liggja fyrir í aðgengilegu formi. Og það er næsta skelfilegt til þess að vita ef um árabil hefur verið verulegt misræmi í þessum efnum án þess að menn hafi áttað sig á. Eigi ég einhvern hlut að þessu sem er nokkurs virði er það þó helst það að reyna að draga fram upplýsingar um stöðuna.

Varðandi það hvers vegna ég og aðrir þm. sem reynt hafa að beita sér fyrir auknu fjármagni til sérkennslunnar úti um landið höfum ekki flutt brtt. við fjárlög og gerðum það ekki að þessu sinni get ég eingöngu vísað til þess að alla síðustu dagana og síðustu vikurnar áður en fjárlög voru afgreidd var í gangi þrýstingur á fjvn. og hæstv. ráðh. að fá aukningu á þessu fé og okkur var síðan tjáð að það yrði um viðbótarupphæð að ræða sem sett yrði inn í brtt. meiri hlutans eða brtt. fjvn. Þá er það þingleg venja, eins og menn kannast sjálfsagt við, að náist nokkur árangur af því tagi falla menn gjarnan frá því að flytja brtt. eða kalla brtt. áður fram komnar til baka eins og til að sýna því nokkra viðurkenningu að komið sé til móts við óskir þeirra sem vilja aukin framlög á einhverjum sviðum. Þetta hljóta menn allir að kannast við og ég trúi ekki að menn fari að gera mikið mál úr því. Ég vísa t. d. í samkomulag sem tókst um fjölmarga fjárlagaliði við síðustu afgreiðslu, eins og K-byggingu Landspítalans þar sem menn féllu frá áður framlögðum brtt. og áður boðuðum brtt. vegna þess að samkomulag náðist þar um niðurstöðu, um nokkra aukningu. (GJG: Ég hef aldrei heyrt þm. tala um sérkennslu fyrr en þetta mál kom upp.) (Menntmrh.: Var þetta flokksbróðir ræðumannsins sem talaði? Það getur nú ekki verið.)

Ég skal, eins og ég hef þegar sagt, viðurkenna það og það má gjarnan undirstrikast að ég hefði gjarnan mátt sinna þessum sérkennslumálum betur og vita fyrr meira um í hversu bágu standi þau voru út um landið, en ég skal lofa þeim hv. þm. sem hér eru inni og fleirum sem kynnu mál mitt að heyra eða lesa að ég mun reyna að fylgjast betur með því í framtíðinni hvernig þessum málum reiðir af. Það er greinilega ekki vanþörf á því og ég mun taka með mikilli varúð þeim upplýsingum sem um þetta koma nema þær séu ítarlega og vandlega unnar vegna þeirra misvísandi upplýsinga sem bornar hafa verið á borð fyrir alþm. og fleiri um stöðu þessara mála að undanförnu.

Ég vil svo mótmæla því, sem kom fram í ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals, til þess að það liggi ljóst fyrir, að ég er ekki með aðild minni að þessum tillöguflutningi sérstaklega að ráðast á eða gagnrýna uppbyggingu fræðsluskrifstofanna og grunnskólalögin. Það kann vel að vera að rétt sé að huga þar að endurskoðun, en tillöguflutningurinn af minni hálfu a.m.k. gengur ekki út á það að vegna þess að þetta sé svo illa upp byggt eða þetta sé svo rangt hannað, þetta fyrirkomulag, sé sérstök ástæða til rannsóknar og með því að fara fram á rannsókn sem er í raun til að setja fram einhverja tiltekna gagnrýni. Svo er ekki. Það kemur e.t.v. í ljós ef þessi mál verða vandlega könnuð að það sé betra og heppilegra að hafa þetta fyrirkomulag, þetta samstarf sveitarfélaganna og menntmrn. og yfirvalda menntamála öðruvísi, en það skýrist þá þegar þar að kemur. Það er mín skoðun að uppbygging fræðsluskrifstofanna og fræðsluráðin séu einhver merkasta tilraun sem gerð hafi verið að mörgu leyti til að reyna að flytja vissa ábyrgð og vissa starfsemi út í landshlutana. Það væri mjög miður ef menn notuðu þetta mál eða önnur af slíku tagi sem tilefni til að ganga til baka í þeim efnum. Ég hefði talið öllu nær að hugleiða hvort þetta sé ekki einmitt vísbending um að við eigum að taka skrefið til fulls og færa að fullu ábyrgðina á framkvæmd þessara mála út til þeirra sem eiga að njóta hennar í landshlutunum.

Það er svo þannig, virðulegur forseti, að þó að þetta mál fái sína þinglegu meðferð og gangi til skoðunar í nefnd, eins og ég treysti á að það geri, liggur það fyrir í þingsköpum að mál er hægt að kalla til baka á hvaða stigi sem er. Þau þingmál önnur sem þessa deilu snerta og fá vonandi einnig sína þinglegu meðferð hvar sem þau eru stödd á vegferð sinni í gegnum þingið er á hvaða stigi sem er hægt að stöðva eða kalla til baka ef svo vel tekst til, sem ég enn vona, að menn nái að átta sig og nái samkomulagi utan veggja þingsins um að setja þessi mál í ákveðna gerð, í ákveðinn farveg þar sem deilan verður rannsökuð og eðlilegar málsbætur koma þeim til handa sem slíkt eiga skilið. Þá yrði ég því allra manna fegnastur að þetta frv. þyrfti aldrei að verða að lögum og þessi deila mætti leysast fyrr og með öðrum hætti. Í raun held ég að sé sameiginleg skoðun okkar flm. allra að það sé ekki af sérstökum áhuga fyrir því að þetta þingmál nái fram að ganga að við leggjum það fram, heldur hinu, að ef ekki næst með öðru móti niðurstaða í þetta mál og friður um skólahaldið og einhvers konar rannsókn sem menn geta unað við verður Alþingi að taka það til sinna kasta. Það var okkar sameiginleg niðurstaða og því er þetta mál hér lagt af stað í vegferð gegnum hv. Alþingi hvernig sem hún svo verður.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.