28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

47. mál, almenningsbókasöfn

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég skal hafa fulla samúð með núverandi hæstv. menntmrh. vegna þess að síðari nefndin var skipuð gjörsamlega að þarflausu. Fyrir lágu tillögur sem velflestir hefðu getað komið sér saman um og hin síðari nefnd varð eingöngu til þess að rugla málið. Ég vil því biðja hæstv. menntmrh. að snúa sér að þeim tillögum og því mikla verki sem þar var unnið og þá er ég viss um að hann getur lagt fram gott og vandað frv. til laga um almenningsbókasöfn.