17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3137 í B-deild Alþingistíðinda. (2831)

328. mál, náms- og kennslugögn

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Á þinginu 1983-1984 var lögð fram þáltill. um kennslugagnamiðstöðvar í öllum fræðsluumdæmum. Flm. hennar voru þm. úr öllum flokkum og samtökum á þingi. Till. var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta kanna hvernig best væri að haga samstarfi við samtök sveitarfélaga um að koma á fót kennslugagnamiðstöðvum í tengslum við fræðsluskrifstofur í öllum landshlutum. Kennslugagnamiðstöðvar hafi það meginverkefni að lána skólum námsgögn, kennslutæki og hjálpargögn þannig að öllum nemendum verði tryggður aðgangur að fjölbreyttum kennslugögnum hvar á landinu sem þeir búa.“

Ástæða fyrir flutningi till. var fyrst og fremst sá aðstöðumunur sem er á námi og kennslu barna hér á landi og tók till. á einum þætti þessa aðstöðumunar, þ.e. að jafna aðgang að námsgögnum, kennslutækjum og öðrum hjálpargögnum. Ætlað var að finna þessum gögnum samastað í tengslum við fræðsluskrifstofur í hverju fræðsluumdæmi þaðan sem þau yrðu lánuð til skóla í umdæminu. Er að þessu bæði mikill ávinningur en jafnframt beinn fjárhagslegur sparnaður.

Sú kennslumiðstöð sem rekin hefur verið í Reykjavík af Námsgagnastofnun hefur fyrir löngu sannað ágæti sitt og hefur starfsemi hennar mælst afar vel fyrir meðal kennara, en aðsókn mörg þúsund kennara á hverju ári hefur sannað að full þörf hefur verið fyrir þessa þjónustu. Í grunnskólalögunum er kveðið á um að safn bóka og námsgagna skuli vera við hvern skóla. Með tillöguflutningi þessum var alls ekki ætlunin að hverfa frá þessu markmiði, en miklu fremur að mæta knýjandi þörfum af raunsæi og jafnframt að stíga spor í rétta átt.

Þáltill. náðist ekki úr nefnd á þessu þingi og var því endurflutt óbreytt á þinginu 1984-1985. Á því þingi fékkst hún samþykkt með nokkrum breytingum eða svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta kanna í samstarfi við samtök sveitarfélaga og fræðsluskrifstofur í öllum landshlutum hvernig hagkvæmast sé að auðvelda skólum aðgang að námsgögnum, kennslutækjum og hjálpargögnum þannig að tryggt verði að allir nemendur hvar sem þeir búa á landinu geti hagnýtt sér fjölbreytt kennslugögn í námi.“

Þetta var 13. júní 1985. Þann 3. des. 1985 gerði ég fsp. til hæstv. menntmrh. um það hvað liði framkvæmd þessarar könnunar. Ráðherra sagði ráðuneytið hafa sent öllum fræðslustjórum, fræðsluráðum og stjórn Samtaka sveitarfélaga bréf um þetta efni. Nokkur svör höfðu þá borist með athyglisverðum tillögum, sagði ráðherra. Þó höfðu ekki allir svarað og því engin lokaafstaða tekin til málsins.

Nú hljóta allir að hafa löngu svarað, rúmu ári síðar og því spyr ég hæstv. menntmrh. á þskj. 571: „Hvað líður könnun á því hvernig hagkvæmast er að auðvelda öllum skólum aðgang að námsgögnum, kennslutækjum og hjálpargögnum eins og segir í þál. þeirri sem samþykkt var á Alþingi 13. júní 1985?"