17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3139 í B-deild Alþingistíðinda. (2833)

328. mál, náms- og kennslugögn

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans og ég hlýt að lýsa yfir undrun minni að enn hafi ekki borist svör frá þó þetta mörgum aðilum og vona að þar ráði ekki áhugaleysi á málefninu, en einhverjar aðrar ástæður.

Hins vegar sagði ráðherra að þær umsagnir sem þegar hefðu borist frá öðrum aðilum hefðu nær allar verið á einn veg og tel ég það vera mjög jákvætt. Hann sagði líka að undirbúningur væri þegar hafinn að slíkum gagnasöfnum og vil ég spyrja hann í hverju sá undirbúningur er fólginn. Ég vil líka spyrja hann hvort hann telur ekki að hann hafi í raun nægar upplýsingar nú þegar til þess að setja kraft í málið og sinna þörfum dreifbýlisins sem eru aðrar en þarfir höfuðborgarsvæðisins hvað sem fræðsluráð Reykjavíkur segir. Reyndar gæti kennslumiðstöð Námsgagnastofnunar aldrei, með þeim fjárhag sem henni er skammtaður, sinnt þörfum dreifbýlisins sem skyldi. Það hlýtur að þurfa aðra þjónustu heima í héraði og nærtækari en að fá gögn frá Reykjavík, jafnvel þó að upplýsingaskipti, miðlun og sendingar séu orðnar greiðari en áður.

En ég vildi spyrja ráðherra í hverju þessi undirbúningur væri í raun fólginn, hvort tryggð væri fjármögnun þess arna. Ég vildi spyrja hann hvort hann teldi sig ekki hafa nógar upplýsingar til þess að hefjast handa nú þegar og hvað væri þegar búið að gera í málinu.