17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3139 í B-deild Alþingistíðinda. (2834)

328. mál, náms- og kennslugögn

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég svara því játandi að það getur auðvitað ekki orðið til þess að tefja miklu frekar fyrir málinu þótt veigamiklir aðilar hafi ekki svarað ráðuneytinu um þetta mál af því líka sem svörin hjá öllum öðrum hníga öll í sömu átt þannig að út af fyrir sig ættum við að geta tekið um þetta ákvörðun og ég mun ekki láta á löngu líða áður en það verður gert og hafist handa.

Mér er kunnugt um að í Austurlandsumdæmi, Vesturlandsumdæmi og í Vestfjarðaumdæmi hafa fræðslustjórar hafið undirbúning að þessu að því leyti að gera sér grein fyrir hvað til þyrfti. T.d. á Vestfjörðum og Vesturlandi eru þeir að koma sér upp nýju húsnæði fyrir fræðsluskrifstofurnar. En þetta er samt mjög óverulegt þar sem frumkvæðið hlýtur og verður að koma frá menntmrn. ef menn eiga að fá nægjanlega fangs á viðfangsefninu. (GA: En kemur það þaðan?) Ég var að segja að ég mundi ekki láta líða á löngu þangað til ég mundi ýta úr vör með málið þótt, eins og ég segi, ekki hafi borist svör frá veigamiklum aðilum. Við getum ekki látið það ráða úrslitum.