17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3142 í B-deild Alþingistíðinda. (2837)

329. mál, Skriðuklaustur

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin og fagna því að þessi álitsgerð nefndarinnar liggur nú fyrir. Ég segi það ekki að mér þyki ekki fullmikil áhersla lögð þar á spurninguna um áframhald tilraunastöðvarinnar þótt það sé vitanlega í fullu samræmi við það sem skáldið lagði fyrir á sinni tíð og ekki amast ég við því út af fyrir sig.

Hitt atriðið er ekki síðra, sem reyndar var tekið inn í myndina af nefndinni, það áhersluatriði sem við hv. 2. fyrirspyrjandi Jón Kristjánsson vorum með í fyrra í okkar tillögu, þ.e. að gera Skriðuklaustur að fræða- og menningarsetri, griðastað skálda og listamanna, eins og hugur skáldsins stóð ótvírætt til einnig, og ekki síður en hvað snerti starfsemi í þágu landbúnaðarins þó að ég dragi ekkert úr því. Mér þykir því ágætt að það sé tekið inn í þessa ályktun líka og treysti því að svo verði gert. Mér líst út af fyrir sig vel á þá hugmynd, sem hæstv. ráðh. reifaði hér, að koma fyrir bókasafni Páls Gíslasonar sem er hið merkasta safn og þarf virkilega á góðri geymslu að halda og verðugri vegna þess hversu merkilegt það er. Ég hvet hins vegar hæstv. ráðh. til þess, hann sagði áðan að hann hefði ekki uppi sérstök áform um að minnast sérstaklega þess fæðingarafmælis sem hér er um rætt, 100 ára fæðingarafmælis Gunnars Gunnarssonar, og skora á hann að yfirgefa ekki sinn stól - það getur verið að hann setjist í hann aftur að vísu, ekki vil ég fortaka það - án þess að ganga þannig frá málum að þessa afmælis verði veglega og myndarlega minnst svo sem hann reyndar minnti á í lok sinnar ræðu. Tíminn styttist nefnilega óðum. Það er ótrúlega stutt í það að menn verði að hafa uppi einhver áform um það á hvern hátt þetta verði gert, bæði hér reyndar og eystra þó alveg sérstaklega, og ekkert held ég að væri brýnna en einmitt að taka á þessu máli í heild sinni og tengja það þeim áætlunum sem uppi eru um framtíðarhlutverk Skriðuklausturs.