17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3143 í B-deild Alþingistíðinda. (2839)

343. mál, kennsla í útvegsfræðum við Háskóla Íslands

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Í desemberbyrjun 1985 bar ég fram fsp. til hæstv. menntmrh. um það hvort hann hygðist beita sér fyrir því að kennsla í útvegsfræðum verði hafin við Háskóla Íslands á næsta ári. Ástæður fyrir þessari fsp. voru í fyrsta lagi samþykkt þáltill. árið 1981 þar sem menntmrh. var falið að skipa nefnd til að undirbúa og skipuleggja kennslu í útvegsfræðum við Háskóla Íslands. Sú nefnd var skipuð í apríl 1982 og skilaði áliti og greinargerð um málið í nóv. 1983.

Nefndin lagði til að kjörsviði í sjávarútvegsfræðum, sem svaraði einu ári, yrði bætt við þriggja ára grunnnám í viðskiptafræði, vélaverkfræði og rafmagnsverkfræði.

Í öðru lagi er okkur Íslendingum hrein og bein lífsnauðsyn að leggja traustan menntunargrunn að þessum aðalatvinnuvegi okkar. Síharðnandi samkeppni og breyttar óskir á erlendum mörkuðum gera vaxandi kröfur til sveigjanleika og framsýni til þess að geta aðlagast breyttum aðstæðum og stýrt þeirri þróun eins og kostur er ekki síður en til þekkingar og vöruvöndunar. Fræðslan er nefnilega undirstaða framfaranna í dag. Okkur er nauðsyn að búa þannig að sjávarútvegi og fiskvinnslu að þangað leiti áfram úrvalsfólk sem starfi af þekkingu og metnaði. Það á að sjálfsögðu kröfu á mannsæmandi launum fyrir sín störf, en það hlýtur einnig að vera krafa þess og jafnframt hagur okkar allra að það sé vel menntað og undirbúið til að starfa í þeim mikilvæga matvælaiðnaði sem sjávarútvegur er.

Í svari sínu sagði ráðherra að engar fjárveitingar væru á fjárlögum ársins 1986 til nýrra kennarastarfa sem bundin verða kennslu í útvegsfræðum en hins vegar væri þar fjárlús fyrir einni nýrri prófessorsstöðu í viðskiptadeild í markaðsmálum. Enn fremur voru í sigtinu fimm tímabundnar kennarastöður sem ráðstafa átti til brýnustu þarfa að máli stjórnenda Háskólans. Ráðherra þótti þá eðlilegt að kannað yrði hvort nýta mætti þessar stöðuheimildir að einhverju marki til að hrinda af stað kennslu í útvegsfræðum þegar um haustið 1986.

Nú er kominn miður febrúar og senn komið vor. Því vil ég ítreka fsp. um þetta efni til hæstv. ráðh. á þskj. 599:

„1. Er kennsla í útvegsfræðum hafin við Háskóla Íslands?

2. Ef ekki, hvað líður undirbúningi hennar?"