17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3145 í B-deild Alþingistíðinda. (2841)

343. mál, kennsla í útvegsfræðum við Háskóla Íslands

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ekki eru nú mikil tíðindi á einu ári í þessum efnum og gefur hæstv. ráðh. mér svör sem hann fær úr hendi annarra. En ég vildi nú inna hann eftir hver er hans eigin stefna í þessum efnum og við hlið hans og ekki langt frá honum situr hæstv. sjútvrh. Hefur hann einhverja stefnu í þessum efnum? Hefur þessi ríkisstjórn einhverja stefnu í þeim efnum? Hvernig hefur hún og þessir tveir ráðherrar hugsað þessum aðalatvinnuvegi okkar að mæta framtíðinni?

Það er gott og blessað með þær rannsóknir sem gerðar hafa verið og ég veit það vegna þess að ég sit í Framkvæmdanefnd rannsóknaráðs að úr Rannsóknasjóði hefur farið fé til að styðja við rannsóknir í sjávarútvegi og það er mjög gott. Hins vegar verður að mennta það fólk sem á að starfa í þessum atvinnuvegi og hvernig hafa ráðherrarnir hugsað sér að taka ábyrgð á því? Mig langar að inna þá eftir því. Þetta er mjög mikið grundvallaratriði. Þeir vita það eins vel og ég að án fræðslu verðum við frumstæð þjóð á hjara veraldar sem seljum óunnið hráefni í hendurnar á öðrum þróuðum þjóðum.