17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3145 í B-deild Alþingistíðinda. (2842)

343. mál, kennsla í útvegsfræðum við Háskóla Íslands

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd vegna þessara ummæla. Ég vil benda hv. fyrirspyrjanda á að það er ekki mikilvægast að mínu mati að stórauka kennslu í Háskóla Íslands í þessum efnum. Það vantar kennslu meðal fiskvinnslufólksins sjálfs og í grunnskólum í landinu og í fjölbrautaskólum landsins og að því er unnið mjög vel. Við menntmrh. erum sammála um það og í því hefur verið starfandi sérstök nefnd. Þar að auki vil ég benda hv. fyrirspyrjanda á það að 3-4 þús. manns munu sækja námskeið í fiskvinnslu nú um þessar mundir, þ.e. á árinu 1986 og 1987.