17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3147 í B-deild Alþingistíðinda. (2848)

267. mál, lausafjárkaup

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svörin. Það er auðvitað ljóst að þau lög sem eru í gildi um neytendamál, hvort sem það eru lögin um lausafjárkaup eða önnur lög, eru afar frumstæð. Lögin um lausafjárkaup eru 60 ára gömul, samsvara á engan hátt því viðskiptalífi sem síðan hefur þróast hér á landi, og ég held að það geti í raun og veru verið mjög hættulegt að láta lög eldast svo mjög sem raun ber vitni um í þessu tilviki án þess að taka þau til rækilegrar endurskoðunar.

Ég hygg þó að miðað við þær aðstæður, að við höfum tekið mið af norrænni löggjöf á mörgum sviðum, megi segja að það sé eðlilegt að hinkra eitthvað örlítið enn eftir niðurstöðu norrænu nefndarinnar, en ég tel þó að það megi ekki dragast mikið lengur að við fáum hér ný lög um lausafjárkaup og almennt um neytendavernd, en slík löggjöf er svo að segja ekki til hér.

Þó er það aldrei brýnna en nú að slík lög verði sett með skýrum hætti, þegar verslunin og þeir sem að henni standa hafa fengið aukið olnbogarými, frelsi er það stundum kallað. Það frelsi má ekki þróast með þeim hætti að það verði á kostnað neytandans og þess almennings sem þarf að skipta við þá sem selja vörur eða þjónustu á hverjum tíma. Því er bagalegt, sérstaklega á þeim tímum sem við lifum nú, að ekki skuli vera til ný neytendalöggjöf og lög um lausafjárkaup hér á landi. Ég hygg þó að sú niðurstaða sem ráðuneytið hefur komist að í þessum efnum sé í rauninni eðlileg, það sé ekkert annað að gera en að hinkra, en það má ekki dragast allt of lengi að þjóðin eignist hér almennileg ný lög um lausafjárkaup.