17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3151 í B-deild Alþingistíðinda. (2853)

322. mál, viðskiptahagsmunir Íslendinga gagnvart Evrópubandalaginu

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eflaust hafa þeir einnig áhuga á einhvers konar rammasamningi um samstarf á sviði fiskiverndar og fiskveiða sem opna muni bandalaginu möguleika til árlegra viðræðna um nánar tiltekin fiskveiðiréttindi. Íslensk stjórnvöld hafa ekki léð máls á tengslum milli fiskveiðiréttinda og viðskiptafríðinda. Norðmenn hafa í orði kveðnu einnig sömu stefnu, en í reyndinni hafa þeir þó fallist á slík tengsl og hlotið nokkra umbun fyrir í formi sérréttinda á sviði saltfisktolla. Þess ber þó að geta að Norðmenn eru á engan hátt háðir fiskveiðum í líkingu við Íslendinga. Þá hafa Kanadamenn lýst því yfir að þeir hyggist ekki fylgja sömu stefnu gagnvart EBE og áður, þ.e. að fara fram á aukin viðskiptafríðindi fyrir sjávarafurðir í staðinn fyrir fiskveiðiréttindi í kanadískri fiskveiðilögsögu.

Horfurnar á auknum viðskiptafríðindum á mörkuðum EBE-landanna eru ekki bjartar að svo stöddu, en réttast virðist að doka nú við og vera e.t.v. hóflega bjartsýnn um að fulltrúar EBE muni, þótt síðar verði, öðlast meiri skilning á sérstöðu okkar sem þjóðar sem á mjög mikið undir fiskveiðum og útflutningi sjávarafurða komið. Þessi sérstaða naut skilnings á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og er viðurkennd í hafréttarsamningum og hún nýtur t.d. stuðnings á vettvangi Fríverslunarbandalags Evrópu, EFTA, sem hefur skorað á EBE að taka tillit til hinna sérstöku útflutningshagsmuna Íslendinga. Binda má þó vonir við að nánara samstarf við bandalagið á ýmsum sviðum leiði til þess að skilningur á sérstöðu Íslendinga glæðist öllum aðilum til hagsbóta.

Í stuttu máli er svar við fyrri spurningunni að margar viðræður hafa farið fram við Evrópubandalagið eftir síðustu stækkun þess til að tryggja viðskiptahagsmuni okkar og verður þeim haldið áfram.

Varðandi seinni spurninguna vil ég taka fram að ríkisstjórnin vill efla vinsamleg samskipti við Evrópubandalagið og eru í gangi viðræður milli Íslands og annarra EFTA-landa við bandalagið um víðtækt samstarf á mörgum sviðum á grundvelli samþykkta ráðherra EFTA-landa og Evrópubandalagsins í Lúxemborg í apríl 1984. T.d. er nú unnið að gerð samnings um samstarf á sviði rannsókna og iðnþróunar.