17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3155 í B-deild Alþingistíðinda. (2859)

323. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka sjútvrh. svörin. Ég tel að það sé mjög brýnt að taka á málefnum Verðjöfnunarsjóðs og hugsanlega leggja hann niður. Ég tel að sé rétt að gera það. Margir sjóðir hafa verið lagðir niður og maður veltir því fyrir sér hvaða rök eru fyrir því að fella Aflatryggingasjóð niður en ekki Verðjöfnunarsjóð. Ég tel að nýir fiskmarkaðir komi til með að skekkja myndina enn meir og líka er sjóðurinn til þess að trufla markaðsleit manna. Fyrir utan það, sem er kjarni málsins, að nú á þetta aðeins við saltfisk og rækju og er það alveg óþolandi að safna svo miklu fé sem þar er gert án þess að það komi sjáanlega að gagni við þær aðstæður sem nú eru vegna þeirrar mismununar sem greinileg er í þessum málum.