17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (2863)

327. mál, Landhelgisgæslan

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það var vitað mál að Landhelgisgæslan og málefni hennar mundu standa á vegamótum eftir að þorskastríðum lauk. Þess vegna var m.a. nefndin skipuð í maí 1981, sem ekki hefur skilað áliti enn þá.

Það er svo um Gæsluna að segja að hún hefur rækt starf sitt vel. Ég vil geta þess að landhelgisgæslumenn hafa aldrei haft verkfallsrétt meðan sjálfsagt hefur þótt að aðrar stéttir nytu þess réttar. En ég vil vekja sérstaka athygli á því að það er dálítið undarlegt með þjóð sem þarf engu að kosta til landvarna hvað hún er sparsöm á fjárveitingar til þeirra einu öryggisvarða sem hún hefur til að reiða sig á, löggæslu til lands og sjávar.