17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3159 í B-deild Alþingistíðinda. (2867)

327. mál, Landhelgisgæslan

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég skal gera örstutta athugasemd. Þegar hæstv. ráðh. nefndi daginn sem þessi till. var samþykkt datt mér í hug að við máttum þakka fyrir að það var ekki 1. apríl heldur 2. apríl 1981 þar sem þessi till. hljóðaði um að efla Landhelgisgæslu Íslands.

Nú hafa staðið upp nokkrir þm. og fjórir eða fimm þeirra eiga sæti í fjvn. Allir þessir menn halda því fram að það þurfi að efla Landhelgisgæslu Íslands. Við skulum rétt vona að nú meini menn að þeir vilji efla hana því að þess er virkilega þörf. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að þessi mál hafa verið allt of viðkvæm. Sú nefnd sem setið hefur að störfum má fara að taka á honum stóra sínum. Ég vildi að ráðherra svaraði því ef hann getur það: Verður frv., sem drög eru til að, lagt fyrir þing sem nú situr þó að það væri ekki nema bara til umfjöllunar?