17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3159 í B-deild Alþingistíðinda. (2868)

327. mál, Landhelgisgæslan

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka bæði hæstv. ráðh. svörin og öðrum ræðumönnum sem hér hafa tekið til máls og ég fagna þessari umræðu, að menn taki þá af skarið og ég vil ekki segja þori heldur taki á sig rögg og ræði mál Gæslunnar hér innan dyra.

Ég tek undir það sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði áðan. Það er þörf á Gæslunni og hana verður að efla. Til þess var þessi nefnd sett á laggirnar fyrir sex árum. Mér finnst það ekkert afreksverk þó að hún skili áfangaskýrslu á þriggja ára fresti. Ég hef enga trú á því að menn séu núna að lofa því til að standa við að skila af sér á næstu vikum í hönd farandi kosningum. Hverjum dettur það í hug þegar það er búið að taka sex ár að koma því af sem þegar er búið? Hafa menn trú á því? Ekki hef ég það. (GJG: Á milli framboðsfunda.) Ef hæstv. ráðh. gæti gefið yfirlýsingar um það hér að frv. yrði lagt fram þó ekki væri nema til skoðunar á þessu þingi væri það mikill fengur.

Einhver sagði áðan: Hér hafa komið þrír eða fjórir menn úr fjvn. og hv. síðasti ræðumaður, sá fimmti, sat áður í fjvn. Þetta er alveg rétt. Ég held að þm. almennt hafi ekki gert sér grein fyrir hversu Gæslan er þýðingarmikill þáttur í þjóðlífinu. Það er ekkert liðin tíð að hlúa að henni. Alþingi hefur ekki sinnt þeirri skyldu sinni að láta fjárveitingar og skipuleggja Gæsluna betur. Ég hef hugmynd um að Gæslan sé nánast að drabbast niður í höndum ríkisins. Ég er ekki með þessu að deila á stjórnendur Gæslunnar. Um það veit ég ekkert. En ég held að Alþingi eigi kannske stærstu sökina í því hvernig málum Gæslunnar er komið með því að svelta hana í fjárveitingum.

Ég sagði áðan og ég endurtek það: Ég er ekki að gera þetta mál að umræðuefni til að gagnrýna. Ég er fyrst og fremst að reyna að fá umræðu um málið til þess að þm. átti sig á, eins og ég held að þjóðin hafi áttað sig á, að Gæslan er nauðsynleg. Fyrir um ári var hér umræða um þann þátt Gæslunnar sem var flugvélin og þá voru ráðherra og forstöðumenn Gæslunnar gagnrýndir harðlega hér fyrir að leigja flugvélina til annarra nota, þann öryggisventil sem ég vil kalla flugvélina í gæslustarfinu. Ég gagnrýni þann hátt enn ef menn ætla að halda áfram að leigja þennan öryggisventil til annarra nota. Hún á hvergi betur heima og á að vera í þessu starfi og á að vera það allan ársins hring. Hún er hvergi betur komin og það er hvergi nauðsynlegra að hafa hana. Sama á við um varðskipin. Þarna verður að taka tak til þess að bæta úr og ég heiti á þá menn sem með þetta fara nú, ég heiti á formann nefndarinnar að hann dugi vel í lokahrinunni, þó erfitt sé á öðrum vígstöðvum að því er hann varðar, og skili þessu af sér.