28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

68. mál, skólamálaráð Reykjavíkur

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Nýkjörin borgarstjórn Reykjavíkur stofnaði að afloknum síðustu sveitarstjórnarkosningum svonefnt skólamálaráð og samþykkti reglur um skipan og verkefni ráðsins, svonefnda „Samþykkt fyrir skólamálaráð Reykjavíkurborgar“ sem gilt hefur frá 15. júní 1986. Olli stofnun þessa nýja ráðs nokkurri undrun þar sem fræðsluráð hefur ekki verið lagt niður, svo að ekki er um að ræða sameiningu ráða. Í hinu nýja skólamálaráði sitja allir sömu fulltrúar og í fræðsluráði og ég bið hv. þm. að taka eftir því. Þá hefur borgarstjórn sett reglur um fulltrúa kennara og fækkað þeim um einn, svo að í skólamálaráði eru aðeins tveir kennarar en þrír í fræðsluráði eins og vera ber skv. ákvæðum grunnskólalaga. Fræðslustjóra hefur verið meinað að sitja fundi skólamálaráðs og fundir í fræðsluráði eru vart haldnir lengur. Hafa verið haldnir tveir fundir frá kosningum, en reglulegur fundartími fræðsluráðs, sem er venjulega vikulega, verið tekinn í fundi skólamálaráðs.

Allt er þetta hinn fáránlegasti skrípaleikur og ekki síst með tilliti til þess að skýringin á tilurð þessa nýja ráðs er 18. gr. grunnskólalaga þar sem segir að skólanefndir skuli skipaðar þar sem 900 íbúar eða fleiri eru í kaupstöðum eða kauptúnum, en það segir í d-lið sömu greinar, með leyfi forseta: „Í Reykjavík fer fræðsluráð með hlutverk skólanefndar. Þar skulu kennarafulltrúar vera þrír. A.m.k. þrisvar á skólaári heldur fræðsluráð fundi með skólastjórum á grunnskólastigi í Reykjavík.“

En mönnum til upplýsingar á þessi leikur sér þá forsögu að síðan hæstv. þáverandi menntmrh. Ingvar Gíslason skipaði Áslaugu Brynjólfsdóttur kennara til fræðslustjóraembættisins í Reykjavík hefur allt verið reynt til að gera embættið áhrifalaust. Árið 1984, nánar til tekið 16. maí, ákváðu þau hæstv. þáverandi menntmrh. Ragnhildur Helgadóttir og borgarstjórinn í Reykjavík Davíð Oddsson að stofna svonefnda skólaskrifstofu Reykjavíkur, sem Björn L. Halldórsson lögfræðingur var ráðinn til að veita forstöðu, og skyldi sú skrifstofa að meira eða minna leyti taka yfir verkefni fræðsluskrifstofunnar og þar með verkefni fræðslustjóra. Síðan hafa mál verið að flækjast milli þessara tveggja skrifstofa með ærnum tilkostnaði fyrir borgarbúa og vandræðum fyrir þá sem að fræðslumálum vinna. Er það með hreinum endemum að boðið skuli vera upp á slík vinnubrögð. Það skal tekið fram að forstöðumaður fræðsluskrifstofu hefur ekki inn í skólastofu komið til kennslu og þar af leiðandi ekki með réttindi hvorki til kennslu né skólastjórnar.

Öllum þeim málum sem fræðsluráði berast er einfaldlega vísað til skólamálaráðs og þar tekur sama fólkið við þeim að öðru leyti en því að fræðslustjórinn í Reykjavík situr ekki fundi skólamálaráðs og fulltrúar kennara eru tveir í stað þriggja. Dæmi um vandræði sem af þessu stafa er mál það sem kom upp í Fellaskóla fyrir ári eða svo þegar grunur var uppi um að of mikil asbestmengun væri í skólanum. Enn er málið að þvælast hjá skólamálaráði og svo langt hefur gengið að heilbrigðisráð borgarinnar hefur kvartað.

Ég hef þess vegna, herra forseti, beint fsp. til hæstv. menntmrh. ásamt hv. þm. Ingvari Gíslasyni og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur sem hljóðar svo:

„1. Telur ráðherra að stofnun skólamálaráðs Reykjavíkur samrýmist 12. gr. laga um grunnskóla nr. 63/1974?

2. Telji ráðherra svo vera, hver er þá verkefnaskipting milli fræðsluráðs og skólamálaráðs?

3. Hefur staða fræðslustjórans í Reykjavík breyst við þessa nýskipan fræðslumála í borginni?

4. Telur ráðherra að fræðslustjórinn í Reykjavík, sem er fulltrúi menntmrn. og Reykjavíkurborgar, eigi að hafa seturétt á fundum skólamálaráðs?

5. Telur ráðherra að nauðsyn hafi knúið á um stofnun skólamálaráðs og þá hver var hún?"