17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3161 í B-deild Alþingistíðinda. (2870)

327. mál, Landhelgisgæslan

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Aðeins út af síðustu ræðu hæstv. ráðh. Það sýnir auðvitað í hvaða standi Gæslan er. Hún verður nánast að „praktísera“ með sínar eignir til þess að geta haldið lífi. Hún verður að leigja út frá sér fyrir peninga til að geta með einhverju móti haldið starfseminni áfram.

Ég tek út af fyrir sig undir það með hæstv. ráðh. að hann getur ekki gefið nefndinni fyrirskipanir, en getum við það ekki? Getur Alþingi ekki gert það? Er hún ekki kosin í umboði þess? Og er ekki Alþingi yfirmaður þessarar nefndar? Ég held að við verðum að gera kröfu til þess að þessi nefnd skili af sér sem allra fyrst. Við verðum að gera kröfur til þess.

Ég gagnrýni enn ef það á að vera svo áfram að Gæslan eigi að leigja vélina aftur í sumar og ef hæstv. ráðh. er að boða það vil ég gagnrýna það nú þegar og tel að það sé óhæfa að slíkt verði gert.