17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3161 í B-deild Alþingistíðinda. (2871)

335. mál, iðnráðgjöf í landshlutunum

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Í síðustu viku lagði ég fram fsp. til hæstv. iðnrh. um framtíðarskipan iðnráðgjafar í landshlutunum. Fsp. er svohljóðandi:

„Hvað líður undirbúningi að nýjum lögum „um framtíðarskipan iðnráðgjafar í landshlutunum“ sem ríkisstjórnin gerði ráð fyrir að leggja fyrir Alþingi í október 1986?"

Hluti af þessum orðum er innan tilvitnunarmerkja vegna þess að þar er vitnað beint í greinargerð með frv. um framlengingu laga um iðnráðgjafa frá 31. des. 1981, en sú framlenging var samþykkt í desember 1985 um eitt ár, en frá síðustu áramótum hafa engin lög lengur verið í gildi um þessa starfsemi.

Það þarf ekki að kvarta undan því að hæstv. iðnrh. hefur í rauninni brugðist fljótt við í sambandi við efni þessarar fsp. því að á borð okkar þm. barst frv. frá hæstv. ráðh. 2-3 dögum eftir að fsp. var hér fram lögð. Þetta frv. liggur fyrir hv. Ed. og verður þar væntanlega til meðferðar.

Ég get hins vegar ekki látið hjá líða hér, herra forseti, að lýsa verulegum áhyggjum mínum yfir þeirri stefnu sem þetta mál virðist vera að taka hjá framkvæmdavaldinu frá því sem ráðgert hafði verið m.a. þegar lögin voru framlengd 1985, en þá lágu fyrir tillögur nefndar sem hæstv. fyrrv. iðnrh. Sverrir Hermannsson skipaði til endurskoðunar á þessum lögum, en þegar þau voru sett var gert ráð fyrir að þau yrðu endurskoðuð fyrir árslok 1985 í ljósi fenginnar reynslu.

Það kemur fram þegar litið er til þessara frumvarpa að hér er allt annað uppi á teningnum hjá hæstv. núv. iðnrh. en fram hafði komið sem álit þeirrar nefndar sem fyrrv. hæstv. iðnrh. Sverrir Hermannsson hafði skipað um þessi efni. Ég ætla ekki að ræða þetta hér efnislega, herra forseti, en lýsi yfir miklum áhyggjum yfir hvaða stefnu þetta mál virðist vera að taka og ég veit um það að áhyggjur um þetta efni eru ég held nær hvarvetna þar sem þessi starfsemi hefur farið fram og hjá þeim aðilum sem hafa notið þess stuðnings sem fyrrverandi lög tryggðu, en nú er sem sagt brugðið á annað ráð. Við heyrum kannske frá hæstv. ráðh. eitthvað um þetta efnislega án þess að ég ætli að inna eftir því sérstaklega.