17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3165 í B-deild Alþingistíðinda. (2876)

333. mál, löggæslumál á Reyðarfirði

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil leggja örfá orð inn í þessa umræðu vegna þess að hér er um mjög brýnt mál að ræða að löggæslumaður verði ráðinn með búsetu á Reyðarfirði.

Það vildi nú svo til að núna rétt fyrir síðustu helgi lenti ég í því sjálfur persónulega að þurfa að leita til löggæslu á Reyðarfirði vegna bílslyss sem ég kom að og þess vegna get ég staðfest að þetta ástand er mjög alvarlegt. Ef í þessu tilviki hefði verið um manntjón eða stórmeiðsli að ræða, sem var nú ekki sem betur fer, þá hefði sá aðdragandi sem þarna var getað verið mjög alvarlegur. Þess vegna vil ég taka undir það að hér verði úr bætt með einhverjum ráðum hið allra fyrsta.