17.02.1987
Sameinað þing: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3166 í B-deild Alþingistíðinda. (2883)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 543 er skýrsla félmrh. um álit milliþinganefndar um húsnæðismál. Tildrög skipunar nefndarinnar var bréf sem félmrh. skrifaði þingflokkunum 4. júní 1985. Í upphafi bréfsins er vitnað til þess að í viðræðum fulltrúa stjórnarflokka og stjórnarandstöðuflokka á Alþingi hafi komið fram greinilegur vilji til samstöðu um stefnumótun í húsnæðismálum til framtíðar. Síðan segir í bréfinu með leyfi herra forseta:

„Þegar núgildandi húsnæðislög voru sett s.l. ár [þ.e. 1984] voru opnaðir ýmsir möguleikar til nýjunga í húsnæðismálum sem hafa verið að mótast hjá Húsnæðisstofnun. Hins vegar er ljóst að aðkallandi er að skapa sterkari grundvöll hvað varðar fjármögnun húsnæðislánakerfisins. Ýmsar nýjar hugmyndir hafa komið fram í umræðum og samþykktum allra stjórnmálaflokkanna í húsnæðismálum. Er hægt að draga þá ályktun að allir flokkar virðast sammála um að bæta húsnæðislánakerfið með það að meginmarkmiði að tryggja fólki húsnæði við hóflegu verði án þess að einstaklingar og fjölskyldur þurfi að leggja á sig varanlegt ok vinnu og skuldaklafa til að komast yfir húsnæði umfram það sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Með tilliti til þessa hef ég ákveðið með samþykki ríkisstjórnar að skipa nú þegar nefnd níu manna frá öllum stjórnmálaflokkum sem hafi það hlutverk að gera tillögur um nýtt húsnæðislánakerfi. Stefnt er að því að tillögur nefndarinnar liggi fyrir næsta haust.“

Bréfinu lýkur með því að óskað er eftir að hlutaðeigandi þingflokkur tilnefni fulltrúa í nefndina sem allra fyrst.

Þegar tilnefningar höfðu borist var nefndin, sem gengið hefur undir nafninu „milliþinganefnd um húsnæðismál“, formlega skipuð hinn 11. júlí 1985. Að fengnum tillögum þingflokkanna voru eftirtaldir skipaðir í nefndina:

Guðni Jóhannesson verkfræðingur, tilnefndur af þingflokki Alþb., Magnús H. Magnússon, fyrrverandi félmrh., tilnefndur af þingfiokki Alþfl., Guðlaugur Ellertsson viðskiptafræðingur, tilnefndur af þingflokki Bandalags jafnaðarmanna, Guðmundur Bjarnason alþm. og Jón Sveinsson lögfræðingur, tilnefndir af þingflokki Framsfl., Kristín Einarsdóttir lífeðlisfræðingur, tilnefnd af þingflokki Samtaka um kvennalista, Halldór Blöndal alþm., Björn Þórhallsson, varaforseti ASÍ, og Steingrímur Ari Arason hagfræðingur, tilnefndir af þingflokki Sjálfstfl.

Félmrh. skipaði Guðmund Bjarnason alþm. formann nefndarinnar og Gylfa Kristinsson, deildarstjóra í félmrn., ritara. Með nefndinni hefur unnið Ingi Valur Jóhannsson, starfsmaður Húsnæðisstofnunar ríkisins. Fulltrúi Bandalags jafnaðarmanna sagði sig úr nefndinni hinn 30. sept. 1985.

Eins og áður sagði var verkefni nefndarinnar skilgreint þannig í skipunarbréfi, dags. 11. júlí 1985, að hún setti fram tillögur um nýtt húsnæðislánakerfi. Í bréfi félmrh. til formanns nefndarinnar, dags. 10. sept. 1985, er þess óskað með tilvísun til greinargerðar með frv. til laga nr. 48/1985, um sérstaka fjáröflun vegna húsnæðismála á árunum 1985 og 1986, að nefndin geri einnig tillögur um ráðstöfun á því fé sem aflað verður á árinu 1986 með stoð í lögunum.

Í nál. kemur fram að nefndin lauk þessu verkefni sínu með sérstakri álitsgerð til félmrh. 7. des. 1985. Í 3. kafla álits milliþinganefndarinnar um húsnæðismál er fjallað um starfshætti hennar. Þar kemur fram að nefndarmenn voru sammála um að meginhlutverk nefndarinnar var að setja fram tillögur um nýskipan húsnæðismála sem gæti staðið um nokkra framtíð. Starfsáætlun nefndarinnar var miðuð við þetta og fór fram á hennar vegum umfangsmikil gagnaöflun um húsnæðismál hérlendis og erlendis. Haustið 1985 hafði hún aflað margvíslegra gagna um húsnæðismál. Á fundum hennar í sept. og okt. það ár var farið yfir þær upplýsingar sem höfðu borist og fyrstu drög að heildarskýrslu nefndarinnar tekin til umræðu.

Nefndin gerði hlé á störfum sínum eftir að hún sendi frá sér álitsgerðina 7. des. 1985 og kom aftur saman til fundar 9. jan. 1986 og voru drög að skýrslu nefndarinnar tekin til meðferðar. Um svipað leyti fóru fram á milli aðila vinnumarkaðarins samningaviðræður um kaup og kjör. Meðal þeirra atriða sem voru þar til umræðu í samningaviðræðunum var róttæk breyting á húsnæðislánakerfinu. Með tilliti til þessa þótti rétt að gera enn hlé á störfum nefndarinnar og sjá hvaða tillögur aðilar vinnumarkaðarins hefðu fram að færa í húsnæðismálum. Atvinnurekendur og samtök launafólks undirrituðu kjarasamninga 26. febr. 1986. Húsnæðismálin voru veigamikill þáttur í kjarasamningunum. Samkvæmt þeim var gert ráð fyrir gjörbreytingu á reglum um lánveitingar Byggingarsjóðs ríkisins, m.a. að lánveitingar yrðu tengdar aðild að lífeyrissjóði. Fjárstreymið frá lífeyrissjóðakerfinu til byggingarsjóðanna yrði stóraukið. Jafnframt yrðu lán Byggingarsjóðs ríkisins bæði til nýbygginga og kaupa á eldra húsnæði stórhækkuð og lánstími lengdur.

Eins og öllum er í fersku minni lýsti ríkisstjórnin yfir vilja sínum til að greiða fyrir því að samningar, sem hefðu það að markmiði að draga úr verðbólguhraðanum, gætu tekist á milli aðila vinnumarkaðarins. Þegar drög að kjarasamningi á milli aðila lágu fyrir var því lýst yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar í bréfi til Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna að hún gæti fyrir sitt leyti fallist á grundvallaratriði þeirra hugmynda sem fram koma í yfirlýsingu samningsaðila um húsnæðismál og væri tilbúin til þess að athuga þær vandlega í samráði við aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega útgjöld ríkisins í þessu sambandi. Ríkisstjórnin lýsti því enn fremur yfir að hún væri reiðubúin til að beita sér fyrir breytingum á lögum og reglum um húsnæðismál í samræmi við niðurstöður þeirrar athugunar. Nefnd, sem forsrh. skipaði 18. mars 1986, var falið að semja frv. til breytinga á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins byggt á samkomulagi aðila vinnumarkaðarins.

Segja má að kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins í febr. 1986 hafi valdið straumhvörfum í starfi milliþinganefndarinnar. Með kjarasamningunum var að verulegu leyti brostin forsenda fyrir umfjöllun hennar um það meginviðfangsefni sem henni var ætlað að fjalla um, þ.e. framtíðarskipan húsnæðislánakerfisins hér á landi. Frá þessum tíma snerust umræður innan nefndarinnar að verulegu leyti um vankanta sem menn þóttust sjá á þeirri skipan sem tekin var upp með lögum nr. 54/1986, um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Nefndarmenn í milliþinganefndinni voru ekki sammála um það hvort rétt væri á þessu stigi málsins að gera veigamiklar breytingar á hinu nýja lánakerfi. Þegar komið var fram í jan. 1987 var ljóst að nefndin gæti ekki sameinast um heildartillögur um breytingar á húsnæðislánakerfinu. Því var ákveðið að freista þess að ná samstöðu um að nefndin setti fram í nefndaráliti ýmsar ábendingar og kæmi á framfæri hugmyndum sem höfðu verið ræddar á fundum hennar. Jafnframt var ákveðið að einstakir nefndarmenn kæmu skoðunum sínum og tillögum á framfæri í sérálitum sem fylgdu nál. Líta verður á nál. þetta og þær tillögur og athugasemdir sem hér eru settar fram í ljósi þess sem að framan greinir.

Nefndin, sem forsrh. skipaði 18. mars 1986 á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við undirritun kjarasamninga, skilaði drögum að frv. til breytinga á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins 14. apríl 1986. Frv. var lagt fram á Alþingi 16. aprí1. Við umfjöllun frv. á Alþingi voru gerðar nokkrar minni háttar breytingar á frv. sem var samþykkt sem lög 23. apríl 1986.

Samkvæmt lögunum tók nýtt húsnæðislánakerfi gildi 1. sept. það ár. Auðvitað gerðu allir sér ljóst að ýmsir vankantar kæmu í ljós þegar jafnróttækar breytingar eru gerðar á húsnæðislánakerfinu á jafnskömmum tíma, breytingar sem sumir hafa kallað byltingu.

Upp á síðkastið hefur margt verið sagt og skrifað um nýja húsnæðislánakerfið og ekki allt á vitrænan hátt. Það er því ekki úr vegi að rifja upp í stuttu máli hver var megintilgangur með þeirri breytingu sem gerð var með lögunum nr. 54/1986.

Skortur á fjármagni hefur löngum verið þrándur í götu lánaafgreiðslu Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Takmarkað fjármagn var meginskýringin á lágu lánshlutfalli miðað við byggingarkostnað eða kaupverð íbúðar. Þetta var einnig skýringin á löngum biðtíma eftir láni og of stuttum lánstíma sem leiddi til þyngri greiðslubyrði en ella. Ríkisstjórnin hafði þó afrekað það að stórauka fjármagn byggingarsjóðanna þannig að lán hækkuðu um 50%, lánshlutfall hækkaði úr 14% í 30% og lánstími var lengdur.

Með nýju lögunum er útlánareglum Húsnæðisstofnunar ríkisins gjörbreytt. Lánsfjárhæðir eru lögfestar og þær breytast síðan í hátt við breytingu á vísitölu byggingarkostnaðar. Lán til þeirra sem ekki eiga íbúð fyrir eru stórhækkuð og geta nú orðið allt að 2,5 millj. kr. vegna byggingar eða kaupa á nýrri íbúð og um 1,7 millj . kr. vegna kaupa á notaðri íbúð. Lögin byggja á því að lífeyrissjóðirnir stórauki skuldabréfakaup sín af Húsnæðisstofnun ríkisins og er gert ráð fyrir að lánsréttur einstaklinga miðist við skuldabréfakaup lífeyrissjóðs hlutaðeigandi lánsumsækjanda. Þannig er hámarksréttur einstaklings bundinn því skilyrði að lífeyrissjóður hans kaupi skuldabréf hjá Húsnæðisstofnun fyrir a.m.k. 55% af ráðstöfunarfé sínu og einstaklingur hafi greitt í viðkomandi lífeyrissjóð samfellt s.l. 24 mánuði. Lánsréttur minnkar svo í hlutfalli við minnkandi skuldabréfakaup viðkomandi lífeyrissjóðs og verður að lokum enginn ef sjóðurinn kaupir skuldabréf fyrir minna en 20% af ráðstöfunarfé sínu.

Með setningu þessara nýju laga er lánstími nýbyggingarlána og lána vegna kaupa á notuðum íbúðum lengdur í 40 ár. Út frá því er gengið að lánin verði tengd breytingum á lánskjaravísitölu. Í 30. gr. laga um Húsnæðisstofnun þar sem kveðið er á um lánskjör segir að vextir skuli vera breytilegir og ákvarðast hverju sinni af ríkisstjórn Íslands. Núverandi ríkisstjórn ákvað að vextir af lánum úr Byggingarsjóði ríkisins verði ekki hærri en 3,5% út þetta kjörtímabil.

En mikilvægasta breytingin samkvæmt nýju lögunum felst í því að nú eru húsnæðismál hérlendis að nálgast sama stig og tíðkast í nágrannalöndum. Á það ekki aðeins við um það að húsnæðislán ríkisins nema nú 70% af samfelldum byggingarkostnaði og eða samþykktu kaupverði íbúðar, því einnig er mörkuð sú stefna að væntanlegir íbúðakaupendur og íbúðabyggjendur byrji jafnan á réttum enda, þ.e. sæki um húsnæðislán og tryggi sér örugga lánveitingu á fastákveðnum tíma áður en þeir hefjast handa að öðru leyti þannig að þeir viti nákvæmlega hvar þeir standa, til hverra skuldbindinga þeir geta stofnað og hvaða íbúðir þeir geta keypt.

Þessi stefnubreyting kallar að sjálfsögðu á grundvallarbreytingu á afstöðu manna og hefur þegar hlotið mjög víðtækan hljómgrunn og skilning, þar á meðal unga fólksins og þeirra sem hafa misjafna reynslu af gamla fyrirkomulaginu.

Samfara þessu hefur ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunarinnar fengið nýtt hlutverk sem felst í því að ráðleggja húsbyggjendum og íbúðakaupendum áður en þeir hefjast handa og upplýsa þá um greiðslubyrði lána. Á þennan hátt eiga allir að geta gengið úr skugga um raunsæi þeirra fyrirætlana áður en þeir ráðast í kaup eða byggingu íbúðarhúsnæðis. Með þessum hætti er að því stefnt að forðast að fólk fari í fjárfestingar sem það lendir með í blindgötu, erfiðleika sem það ræður alls ekki við.

Í 2. gr. laga nr. 54/1986 er kveðið skýrt á um þetta atriði. Þar er m.a. tekið fram að áður en gengið er frá lánssamningi skal kostnaður og greiðsluáætlun liggja fyrir og skal Húsnæðisstofnun kynna umsækjanda þá greiðslubyrði sem væntanleg lántaka hans hefur í för með sér. Telji stofnunin að augljóst sé að umsækjandi geti með engu móti staðið undir fjármögnun viðkomandi íbúðar skal skýra umsækjanda frá því. Húsnæðisstjórn er þá jafnframt heimilt að krefjast ríkari ábyrgðar á lánum eða að öðrum kosti synja um lánveitingu.

Í sambandi við vaxtakjör fjármagns sem byggingarsjóðirnir taka að láni er rétt að vekja athygli á því samkomulagi sem náðist á milli Húsnæðisstofnunar og lífeyrissjóðanna um kjör vegna kaupa á skuldabréfum á árunum 1987 og 1988. Mikilvægasta atriði samkomulagsins er það að skuldabréf keypt á árinu 1987 bera 6,25% ársvexti með mislöngum lánstíma að vali lífeyrissjóðanna. Skuldabréf keypt á árinu 1988 bera 5,9% ársvexti með mislöngum lánstíma að vali lífeyrissjóðanna. Innan skamms hefjast viðræður við lífeyrissjóðina um skuldabréfakaup á árunum 1989 og 1990, en allflestir lífeyrissjóðirnir hafa gengið frá sínum samningum varðandi árið 1987 og 1988.

Það skiptir hér meginmáli að munurinn á teknum lánum og veittum hjá Byggingarsjóði ríkisins fer minnkandi og engin ástæða er til að óttast framtíð Byggingarsjóðsins haldi sú þróun áfram. Í athugasemdum með frv. til laga nr. 54/1986 kemur fram að talsverð óvissa ríki um útlánaþörf Byggingarsjóðs ríkisins. Með hliðsjón af ákveðnum forsendum er reynt að meta þörfina og komist að þeirri niðurstöðu að hún geti numið 4,5-5,5 milljörðum kr. á næstu árum, en fari síðan minnkandi. Varað er við því að stefna strax að ýtrustu útlánum, heldur sé eðlilegt að útlánaeftirspurn verði næstu fjögur árin fullnægt með hliðsjón af vexti ráðstöfunarfjár lífeyrissjóðanna.

Þá kemur fram að æskilegt er að reynt sé að forðast stökkbreytingar í framboði íbúðalána vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem það hefði á íbúðaverð og fasteignaviðskipti, svo og efnahagslífið í heild sinni. Þannig segir í athugasemdum með frv. að rétt sé að gera ráð fyrir að útlánaeftirspurninni í upphafi verði sinnt á þann hátt að þeir sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn og eiga forgang fái lán sín afgreidd með eðlilegum hætti en eftirspurn hinna sem eiga íbúð fyrir verði jafnað yfir lengri tíma.

Í áðurnefndum athugasemdum er gert ráð fyrir því að Byggingarsjóður ríkisins hafi til umráða af lífeyrissjóðafé um 3,1 milljarð kr. á árinu 1987 en yfir 5,5 milljarða kr. árið 1990 og er það varlega áætlað. Þá er komist að þeirri niðurstöðu að verði um helmingi af þeim lánveitingum, sem reiknað er með í athugasemdunum til þeirra sem eiga íbúð fyrir, frestað um eitt ár verði fjárþörf Byggingarsjóðs ríkisins til lána vegna nýrra og notaðra íbúða um 3,5 milljarðar kr. á árinu 1987. Framlag ríkissjóðs mætti á þessum forsendum ekki vera lægra en 1 milljarður kr. á árinu 1987. Engin ástæða er til að ætla að framlag ríkisins muni ekki aukast verulega næstu tvö ár. Það er eðlileg þróun til að styrkja þetta nýja kerfi og útreikningar um þetta reiknilíkan munu liggja fyrir núna mjög fljótlega.

Í athugasemdum kemur skýrt fram að vegna mikillar aukningar ráðstöfunarfjár lífeyrissjóðanna næstu árin á ekki að skapast hætta á sífellt vaxandi biðröð þó lánunum sé frestað í upphafi. Tekið er fram að heppilegast virðist að útjöfnunar lánsfjáreftirspurnarinnar gæti fyrst og fremst á árunum1987 en eftir það ætti ekki að taka nema 2-3 ár að ná jafnvægi.

Ég hef hér vitnað til þeirra athugasemda sem fylgdu með frv. til laga um hið nýja húsnæðiskerfi eins og það kemur fram í þingskjölum. Miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir hefur Byggingarsjóður ríkisins meira fjármagn til ráðstöfunar á þessu ári en nokkru sinni áður eða 4 milljarða 482 millj. kr. Byggingarsjóður verkamanna hefur til ráðstöfunar þessu til viðbótar tæplega 1,2 milljarða þannig að heildarfjármagn byggingarsjóðanna á þessu ári er um 5,6 milljarðar kr. Þessu fjármagni Byggingarsjóðs ríkisins mun verða skipt sem hér segir miðað við þær frumaðgerðir sem þegar liggja fyrir, en það er rétt að taka fram að allt eru þetta tölur sem eru í vinnslu og eiga eftir að breytast þegar sýnt verður hverjar af þeim umsóknum sem til meðferðar eru eru gildar eða hvert þær leiða í sambandi við meðferð málsins.

Það eru nýbyggingar, fyrri og seinni hluta gamla kerfisins: 400 millj. Til þeirra sem flytjast milli kerfa og nýrra umsókna sem hafa komið eftir 1. sept. 1986 til 31. des. s.l.: 3 milljarðar 682 millj. Framkvæmdalán til leigu- og söluíbúða og dvalarheimila: 250 millj. og annarra lánaflokka: 150 millj. Eða samtals um 4 milljarðar 482 millj. kr. Þetta er mun hærra eins og áður sagði en gert var ráð fyrir í frv. þegar það var lagt fram og einnig hærra en fram kemur í lánsfjarlögum.

Ef athugað er hversu margar íbúðir koma til afgreiðslu 1987 samkvæmt þessu fjármagni kemur eftirfarandi í ljós:

Nýbyggingar vegna gamla kerfisins 200 íbúðir. Milli kerfa og vegna nýrra umsókna 1. sept. til 31. des. s.l. , nýbyggingar 907 íbúðir, eldri íbúðir 3245 íbúðir eða samtals 4152 íbúðir. Framkvæmdalán, nýir samningar til byggingar 200 íbúða og allir aðrir lánaflokkar 150 íbúðir eða samtals 4702 íbúðir.

Af framangreindum 4152 íbúðum eru 2325 íbúðir eða 56% vegna umsækjenda sem eru að eignast sína fyrstu íbúð. Öll lán nema framkvæmdalánin verða afgreidd í tveimur hlutum. Þeir sem eru að eignast sína fyrstu íbúð fá hærra lán en hinir og að auki afgreidd fyrr. Meðallán er um 1,6 millj. kr. miðað við verðlag á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Frá 1. sept. 1986 til ársloka bárust 4260 umsóknir vegna fjögurra lánaflokka og eru þá þeir sem fóru á milli kerfa ekki taldir með. Þessar umsóknir skiptast þannig:

Nýbyggingar 815 umsóknir. Eldri íbúðir 3225 umsóknir. Nýbyggingar eða eldri íbúðir 63 umsóknir. Viðbyggingar og endurbætur 120 umsóknir. Orkusparandi breytingar 37 umsóknir.

Þeir sem eru að eignast sína fyrstu íbúð eru 46% umsækjenda. Þegar þessum 4260 umsóknum er raðað niður á lánveitingadaga gerir stofnunin ráð fyrir um 15% afföllum í fyrstu umferð. Mörgum finnst þetta hlutfall sjálfsagt of lágt en álit Húsnæðisstofnunar er það að eðlilegt sé að fara varlega í byrjun. Rúmlega 60% umsækjenda hafa ekki upplýsingar um veðstað, þ.e. hafa ekki gert kaupsamning eða fengið lóð. Það eru því um 40% umsækjenda sem þegar hafa keypt eða fengið lóð og margir þeirra keypt og hafið framkvæmdir á s.l. ári án þess að hafa lánsloforð. Húsnæðisstofnun býst við meiri afföllum í framtíðinni þegar fólk gerir sér fulla grein fyrir því að það skuli fá lánsloforð áður en keypt er eða farið er út í framkvæmdir.

Ég vil freistast hér til að gefa einnig nokkrar upplýsingar um skiptingu þessara umsókna á milli kjördæma, en tek það fram eins og ég hafði áður sagt að þetta eru tölur sem kunna e.t.v. að breytast eitthvað þegar nánari yfirferð um lánin í heild hefur farið fram. En umsóknir innkomnar til nýbygginga og eldri íbúða frá 1. sept. til 31. des. 1986 eru: Í Reykjavík 1866 umsóknir eða 46,2%. Reykjaneskjördæmi 658 umsóknir eða 16,3%. Vesturlandskjördæmi 327 umsóknir eða 8,1%. Vestfjarðakjördæmi 208 umsóknir eða 5,1%. Norðurland vestra 116 umsóknir eða 2,9%. Norðurland eystra 436 umsóknir eða 10,8%. Austurlandskjördæmi 153 umsóknir eða 3,8% og Suðurlandskjördæmi 250 umsóknir eða 6,2%.

Umsóknir frá þeim sem fóru milli kerfa eru ekki meðtaldar í ofangreindum tölum.

Skili umsækjendur ekki ákveðnum gögnum þremur mánuðum fyrir lánveitingardag, sem er einn mánuður fram á mitt ár 1987, fá þeir frest í þrjá mánuði. Berist gögnin ekki heldur þá fara hlutaðeigandi umsækjendur aftast í röðina. Það er því engan veginn á þessu stigi máls hægt að segja til um það hvað margir umsækjendur falla á lánveitingu og fara aftast í röð ef sá háttur verður viðhafður.

Það er ljóst af því sem að framan greinir að sá áróður sem hafður er uppi um nýja húsnæðislánakerfið, að það sé brostið, hefur ekki við rök að styðjast en er til þess eins að skaða lánakerfið og veikja tiltrú fólks á jákvæða þróun þessara mála. Einn þeirra þm. sem hvað mest hefur látið í sér heyra um nýja húsnæðislánakerfið, bæði hér á Alþingi og annars staðar, er hv. 2. landsk. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Þm. virðist hafa frá upphafi verið andvíg kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins frá því í febrúar 1986 og afskiptum aðila vinnumarkaðarins af húsnæðislánakerfinu. Ég vil í þessu sambandi leggja áherslu á og fagna því að aðilar vinnumarkaðarins tengjast þessum málum. Þetta eru mál sem snerta alla landsmenn og eru ekki hvað síst háð kjarasamningum í okkar landi, eru kjarabót hvernig sem á þeim er haldið og þeim nýjungum sem þar koma fram.

Hv. 2. landsk. þm. skrifar grein í eitt dagblaðanna undir fyrirsögninni „Húsnæðiskerfið riðar til falls“. Þar eru settar fram dæmalausar fullyrðingar byggðar á tilgátum um tölur sem fæstar eiga sér stoð í raunveruleikanum. Þar er t.d. fullyrt að verðhækkun á fasteignum hafi orðið um 30% s.l. 5-6 mánuði. Þó liggja frammi upplýsingar um að meðaltalshækkun á fasteignum á þessu tímabili hefur verið um 1820% en um 11 % á föstu verðlagi. Engir útreikningar hafa verið gerðir á þessum málum síðan í nóvember 1986 hjá Fasteignamati ríkisins. Fullyrt er að verulega hafi verið ofmetin sú aukning á fjármagni sem áætlað er með nýju lögunum að kæmi til byggingarsjóðanna. Þó er í athugasemdum með frv. nr. 54 1986 sérstaklega bent á þá staðreynd að ráðstöfunarfjármagn lífeyrissjóðanna muni stóraukast á næstu árum í tengslum við þá breytingu að greitt skuli lífeyrissjóðsiðgjald af heildartekjum í stað dagvinnutekna eins og nú er. Og það hefur þegar komið fram hjá lífeyrissjóðunum sjálfum að þetta fjármagn mun aukast miklu hraðar en þeir sjálfir hafa gert áætlanir um, sem þýðir það að þess er að vænta að það verði stóraukning á ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna til húsnæðissjóðanna á árinu 1988 og áfram í þeim samningum.

Dregnar eru víðtækar ályktanir og fullyrðingar af fjölda umsókna sem bárust Húsnæðisstofnun ríkisins á fyrstu mánuðum eftir gildistöku nýju útlánareglnanna. Í áðurgreindum athugasemdum með lögum um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er beinlínis gert ráð fyrir því að eftirspurn eftir lánum verði mikil næstu 2-3 árin og að þeirri eftirspurn megi mæta tímabundið með lengri afgreiðslufresti lána. Þá er einnig augljóst að á næstu mánuðum muni eftirspurnin jafnast út. Þetta viðurkenna allir sem nálægt þessum málum koma.

Einnig býsnaðist þessi hv. þm. mikið yfir löngum biðtíma eftir afgreiðslu lána. Það kom fram í umræðum fyrir nokkrum dögum hér á hv. Alþingi. Í lögunum er ekkert minnst á biðtíma eftir afgreiðslu lána en hins vegar er skýrt kveðið á um það að Húsnæðisstofnun skuli svara innan tveggja mánaða hvenær lán er til reiðu. Þetta gerir viðkomandi kleift að haga undirbúningi framkvæmda eða kaupum í samræmi við útborgun láns og tryggir þannig öryggi fólks sem ætlar í íbúðakaup eða byggingarframkvæmdir. Einnig er kveðið á um verðtryggingu lánsloforðs og lánshluta í lögunum sem tryggir enn fremur hag lántaka umfram það sem áður hefur þekkst.

Ég er þeirrar skoðunar að hv. þm. og aðrir sem vilja tala hátt um þessi mál eigi að geyma stóru orðin og fullyrðingar þangað til nýja útlánakerfið er búið að sýna sig og menn átta sig betur á kostum þess og göllum. Við skulum hafa það í huga að kerfið er einungis búið að vera við lýði í sex mánuði og þarf einmitt nú á því að halda að allir snúi bökum saman og verji það gegn áföllum. Húsnæðisstofnun vinnur nú að því að ná samstarfi við banka og sparisjóði og fasteignasala um að vinna markvisst að því að treysta þetta kerfi. Það er vissulega verðugt verkefni.

Herra forseti. Ég hef ekki komist hjá því að fjalla um fleiri þætti húsnæðismála en þá sem beinlínis snerta það þskj. sem hér er til umræðu og hefur að geyma álit milliþinganefndar um húsnæðismál. Ég er þeirrar skoðunar að kjarni starfs nefndarinnar komi fram í bókun meiri hluta hennar sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í inngangi nál. kemur fram að félmrh. skipaði sumarið 1985 nefnd fulltrúa allra þingflokka til að fjalla um húsnæðismál. Nokkru áður, eða í maí 1985, hafði samstarfshópur stjórnmálaflokkanna skilað ríkisstjórninni verkefnaskrá í húsnæðismálum. Í henni eru sett fram öll þau meginmarkmið sem ríkisstjórnarflokkarnir vildu stefna að í húsnæðismálum á kjörtímabilinu. Í umræðum sem fram fóru á Alþingi um þetta leyti létu fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna sem þeir hefðu einnig heildstæða stefnu í húsnæðismálum og lausnir á vanda sem við var að glíma á þessu sviði, einkum varðandi greiðsluerfiðleika íbúðareigenda. Það varð því að samkomulagi að félmrh. skipaði nefnd sem í ættu sæti fulltrúar allra þingflokka. Hlutverk nefndarinnar yrði að setja fram tillögur um framtíðarskipan húsnæðismálanna. Með þessum hætti vildi ríkisstjórnin láta á það reyna hvaða tillögur stjórnarandstaðan hefði um breytingar á þessum mikilvæga málaflokki og freista þess að ná víðtækri samstöðu um endurskipulagningu húsnæðislánakerfisins.

Á fundum nefndarinnar voru lagðar fram fjölmargar skýrslur og álit nefnda sem skipaðar höfðu verið af félmrh. til að fjalla um húsnæðismál. Verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum var meðal fyrstu skjalanna sem lögð voru fram á fundum nefndarinnar. Stefna ríkisstjórnarinnar og þeirra flokka sem skipa meiri hlutann á Alþingi í húsnæðismálum hefur því legið fyrir allan starfstíma nefndarinnar.

Fulltrúar stjórnarflokkanna í nefndinni vilja vekja á því athygli að framlag ríkissjóðs til húsnæðislána á yfirstandandi kjörtímabili hefur hækkað stórlega miðað við raungildi. Á árunum 1985 og 1986 lagði ríkissjóður byggingarsjóðunum til meira fjármagn en nokkru sinni. Einnig má minna á að verulegu fjármagni, rúmlega milljarði króna, hefur verið varið úr sjóðunum til aðstoðar íbúðareigendum í greiðsluerfiðleikum.

Fulltrúar stjórnarflokkanna vilja leggja sérstaka áherslu á ný lög um útlán úr Byggingarsjóði ríkisins sem voru sett í apríl 1986. Þau voru sett í framhaldi af kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins sem undirritaðir voru í febrúar 1986. Nýjar útlánareglur tóku gildi 1. sept. 1986. Með gildistöku þeirra rýmkar lánsréttur fólks og lán til bygginga eða kaupa á íbúðarhúsnæði stórhækkar.

Það er skoðun fulltrúa stjórnarflokkanna að rétt sé að fá nokkra reynslu af nýju lánakerfi áður en lagt er til að því verði breytt í veigamiklum atriðum.“

Herra forseti. Auðvitað hefði ég kosið að fulltrúar stjórnmálaflokkanna hefðu komið sér saman um framtíðarstefnu t.d. hvað varðar hinn félagslega þátt húsnæðismálanna. Ég verð að segja að ýmsir þættir þessara málaflokka eru þess eðlis að ég tel að í milliþinganefnd hefði getað orðið betri árangur. Menn hafa haft þar það miklar upplýsingar að þeir hefðu átt að geta áttað sig betur á því hvert bæri að stefna. En af því varð ekki og er ekkert um það að segja. En allt að einu þá er það ljóst að í gegnum starf nefndarinnar hefur orðið til mikill upplýsingabanki og menn hafa skipst á skoðunum og þannig eru þeir færari um að takast á við þessi mál en ella hefði verið og margt liggur þar sem stjórnmálamenn geta haft gagn af við ákvörðun um framtíðina.

Ég vil hér með flytja milliþinganefndinni, nefndarmönnum, bestu þakkir fyrir mikið og gott starf. Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til á þessu stigi máls að hafa lengra mál um þetta efni en vænti þess að þessi skýrsla verði til þess að menn átti sig betur á þessum málum en ella.