17.02.1987
Sameinað þing: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3195 í B-deild Alþingistíðinda. (2886)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er óþarft að rifja upp forsögu þessa máls, hefur enda verið gert og mun sjálfsagt oft verða gert. Ég var ein af þeim sem bundu miklar vonir við það samstarf og það sameiginlega átak sem stefnt var að með stofnun milliþinganefndar um húsnæðismál í júlí 1985. Vonbrigðin eru því mikil þegar við stöndum hér með afrakstur þess samstarfs í höndunum.

Það vor, þ.e. 1985, stóð þing út júní og einkenndist m.a. af heitum umræðum um þann vanda sem húsbyggjendur og húsnæðiskaupendur voru settir í þegar kaupvísitalan var tekin úr sambandi og lánskjaravísitalan fékk hins vegar að halda sínu striki óheft. Þingflokkar stjórnarandstöðunnar vildu ekki ljúka svo þingi það vor að ekki yrði tekið á þessum vanda og ekki aðeins með skammtímalausnum heldur til frambúðar. Samkomulag tókst um það að skipa nefnd fulltrúa allra þingflokkanna til þess að vinna þetta verk og við Kvennalistakonur bundum miklar vonir við störf þessarar nefndar því að vilji virtist fyrir hendi.

Með nokkru yfirlæti er vísað til þessa í séráliti fulltrúa stjórnarflokkanna í milliþinganefndinni. Ég furða mig eiginlega á þeim hroka sem þar kemur fram. Það var meiningin að allir tækju sameiginlega á vandanum á grundvelli upplýsinga og skoðunar á málinu en þau orð sem ég er að vísa til standa í sérálitinu, með leyfi forseta:

„Í umræðum sem fram fóru á Alþingi um þetta leyti létu fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna sem þeir hefðu einnig heildstæða stefnu í húsnæðismálum og lausnir á vanda sem við var að glíma á þessu sviði, einkum varðandi greiðsluerfiðleika íbúðaeigenda.“ Það leynir sér nú ekki hvað þeim sem skrifa undir þetta finnst um það.

Vissulega hefur ýmislegt gripið inn í störf nefndarinnar og þá fyrst og fremst samkomulag launafólks og atvinnurekenda um úrbætur í húsnæðismálum í tengslum við kjarasamningana fyrir réttu ári, í febrúar 1986. Það samkomulag leiddi til núgildandi laga um Húsnæðisstofnun ríkisins og hv. þm. er vafalaust enn í fersku minni þegar unnið var að setningu þeirra laga í afleitum tímaskorti undir miklu vinnuálagi þar sem mörg önnur mikilvæg mál kröfðust einnig tíma og orku þm. Við þær aðstæður var ógerningur að vinna með fullnægjandi hætti að þeirri lagasetningu. Það hefur margsinnis komið fram að við Kvennalistakonur vorum ekki sáttar við afgreiðslu núgildandi laga um Húsnæðisstofnun og settum þau skilyrði fyrir stuðningi við afgreiðslu málsins úr nefnd að milliþinganefnd yrði falið að halda áfram störfum og skila tillögum til ríkisstjórnarinnar nægilega snemma til þess að hægt yrði að leggja fram frv. á haustþingi. Mörg atriði voru þar með látin óleyst en vísað með mjög ákveðnum hætti til milliþinganefndarinnar. Það vildi svo til að ég mætti á fyrsta fund þeirrar nefndar eftir setningu laganna í forföllum fulltrúa okkar, Kristínar Einarsdóttur. Ég benti sérstaklega á þetta og lagði áherslu á að staðið yrði við það sem lofað var enda, eins og ég sagði áðan, var það skilyrði fyrir stuðningi okkar við það að málið fengi þá afgreiðslu sem það fékk.

Svo sem fram kemur í þeirri skýrslu sem hér er nú til umræðu hefur nefndin vissulega fjallað um þessi atriði og að sumu leyti unnið gott starf sem er byggjandi á þótt ekki væri það skv. þeim vonum sem við Kvennalistakonur höfðum gert okkur. Fulltrúi okkar í nefndinni, Kristín Einarsdóttir, hefur unnið af heilindum að þessu verkefni og lagt sitt af mörkum til þess að starf nefndarinnar bæri þann árangur sem til var ætlast. Hún var ekki alltaf ánægð með hvernig haldið var á málum og þegar dró að þingbyrjun á s.l. hausti var henni orðið ljóst að litlar líkur væru á því að störf nefndarinnar leiddu til þeirra breytinga á húsnæðislöggjöfinni sem við teljum nauðsynlegar. Þá var það að hún ritaði hæstv. félmrh. bréf sem mig langar til að lesa, með leyfi forseta. Það er dags. 10. okt. og er stílað á hæstv. félmrh. og hljóðar svo:

„Í framhaldi af samkomulagi þingflokkanna í júní 1985 var skipuð nefnd sem hafði það hlutverk að gera tillögur um nýtt húsnæðislánakerfi. Jafnframt skyldi nefndin setja fram tillögur um ráðstöfun, á því fjármagni sem aflað var á árinu 1985 með stoð í lögum nr. 48/1985 um sérstaka fjáröflun vegna húsnæðismála. Undirrituð var skipuð í þessa nefnd eftir tilnefningu þingflokks Kvennalistans.

Nefndin hefur haldið fjölmarga fundi, aflað sér gagna um húsnæðismál og skilað hluta af því verkefni sem henni var ætlað. Við umfjöllun Nd. Alþingis um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 54/1986, kom fram í nál. félmn. deildarinnar að samkomulag hefði orðið í nefndinni um það að milliþinganefndin skyldi halda áfram störfum eftir að þingi lyki og „skila tillögum til ríkisstjórnarinnar nægilega snemma til þess að hægt verði að leggja frv. fram á haustþinginu.“

Það sem m.a. var talið þurfa að athuga var fjármögnun húsnæðislánakerfisins til frambúðar, leiguhúsnæði, húsnæðissamvinnufélög, kaupleiguíbúðir, áhrif nýja kerfisins á félagslegar íbúðabyggingar, íbúðir fyrir aldraða og öryrkja svo að eitthvað sé nefnt. Kvennalistinn taldi nauðsynlegt að taka á öllum þeim þáttum sem tilgreindir eru í nál. og var það raunar forsenda fyrir því að þm. Kvennalistans settu sig ekki á móti þessu frv. sem tekur einungis mið af því að fólk vilji og geti eignast íbúðarhúsnæði. Ekki er miðað við að fólk hafi þar um neitt að velja. Það blasir einnig við að fjármögnun húsnæðislánakerfisins til frambúðar er langt frá því að vera trygg og stefnir í algjört óefni ef ekkert verður að gert. Það lítur út fyrir að margir hafi ekki gert sér grein fyrir þessari staðreynd.

Ekki er hægt að segja að nefndarmönnum hafi verið ofboðið með fundarsetum í sumar og ekki er heldur hægt að segja að þeir fundir sem haldnir hafa verið um þetta verkefni hafi verið mjög árangursríkir. Þó blasir við að verkefnin eru næg.

Þrátt fyrir skuldbindandi samþykkt fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna í félmn. Nd. Alþingis liggja enn ekki fyrir neinar tillögur frá nefndinni sem gætu orðið grunnur að tillögum að lagabreytingum. Litlar horfur eru á að svo geti orðið þar sem einstakir nefndarmenn virðast alls ekki hafa vilja til að takast á við verkefnin. Eigi sá árangur að nást sem heitið hefur verið er fulljóst að gjörbreyting þarf að verða á starfsháttum nefndarinnar.

Ég undirrituð, fulltrúi Kvennalistans, er reiðubúin til að stuðla að því að svo geti orðið, en allt veltur þó eðlilega á viðbrögðum fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna í nefndinni.

Með bréfi þessu vil ég gera yður sem félmrh. grein fyrir þessari stöðu mála og óska eftir að fá hið fyrsta vitneskju um hvort vænta megi þess að fulltrúar stjórnarflokkanna fái nauðsynlegt veganesti frá stjórnvöldum til að vænta megi raunverulegs árangurs.“

Undir þetta ritar Kristín Einarsdóttir. Afrit var sent Guðmundi Bjarnasyni alþm. sem eins og komið hefur fram var formaður milliþinganefndar.

Bréf þetta er vitanlega sönnun þess hvernig nefndin hefur starfað að okkar dómi. Það var ítrekað hálfum mánuði síðar en svar hefur ekkert borist. Ég vænti að hæstv. félmrh. hafi engu að síður kynnt sér efni bréfsins og þess vegna verið mætavel ljóst að Kvennalistakonur höfðu áhyggjur af í hvað stefndi með störf nefndarinnar. Vitanlega má segja að svarið sé að finna í þessari skýrslu sem hér er til umræðu og í þeirri staðreynd að ríkisstjórnin hefur ekki fengið fulltrúum sínum í nefndinni það veganesti sem þeir þurftu. Þeim er kannske vorkunn þótt þeir reyni að láta líta svo út í séráliti sínu sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafi ekki haft neitt fram að færa.

Um þá skýrslu sem hér liggur fyrir má auðvitað mjög margt segja. Þar er að finna ýmsar upplýsingar og þær þó merkastar að nefndarmenn eru í raun sammála um allmörg atriði sem breyta þurfi til betri vegar. Í öllum þessum atriðum virðist um ágætt samkomulag nefndarmanna að ræða og maður hlýtur að undrast og spyrja: Hvers vegna í ósköpunum lauk þá ekki nefndin því verki sem henni var falið og lagði þessi samkomulagsatriði fram í formi frv.? Hefur hæstv. félmrh. svör við þeirri spurningu? Er ástæðan e.t.v. sú að hæstv. ráðh. er ekki sammála þessum atriðum? Vill ráðherra sjálfur ekki gera þær breytingar til bóta sem hér er bent á? Ég bendi t.d. á það sem sagt er um lánsrétt námsmanna, að kveða þurfi skýrar á um lánsrétt námsmanna. Ég tel ekki að í því frv. sem hér hefur komið fram nýlega sé tekið á því með slíkum hætti að viðunandi sé, langt frá því.

Í b-lið þess kafla sem ég er að fjalla um segir, með leyfi forseta: „Nefndin er sammála um að lánskjörum félagasamtaka þurfi að breyta til samræmis við þau kjör sem einstaklingum er nú boðið upp á.“ Og í d-lið segir: „Kveða þarf skýrt á um rétt aðfluttra sem greitt hafa iðgjald til lífeyrissjóða erlendis.“ Nefndin virðist aldeilis sammála um það. Í e-lið stendur: „Nefndin er sammála því að næsta umsókn frá umsækjanda, sem hafi fengið lán sem er lægra en 70% af hámarksláni vegna þess að keypt var lítil og ódýr íbúð, skuli hljóta sömu meðferð og frá þeim sem eru að kaupa eða byggja í fyrsta skipti, þó ekki varðandi forgangsröð í tíma.“ Þetta virðist nefndin sammála um og þetta er nokkurn veginn samhljóða brtt. Kvennalistans við afgreiðslu núgildandi laga um Húsnæðisstofnun.

Nefndin telur nauðsynlegt að vekja athygli á heimildarákvæði um skerðingu á lánsrétti. Nefndin telur nauðsynlegt að samræma betur núverandi ákvæði um lánsrétt elli- og örorkulífeyrisþega í 12. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins. Nefndin er sammála um þetta og ýmis atriði önnur. Síðan er langur kafli um félagslegan hluta íbúðalánakerfisins, en þrátt fyrir mjög augljósa og viðurkennda þörf fyrir breytingu á þeim þætti laganna eru engar beinar tillögur um þau efni. Það er auðvitað gjörsamlega óviðunandi niðurstaða og krefst miklu nánari og betri skýringa af hálfu hæstv. ráðh. og þeirra fulltrúa stjórnarflokkanna sem áttu sæti í nefndinnni og eru viðstaddir þessa umræðu og ég vænti að muni taka hér til máls. Þetta er að mínu mati uppgjöf og ekkert annað en uppgjöf. Þetta ásamt fjármögnun húsnæðislánakerfisins til frambúðar, sem hér hefur raunar töluvert verið rætt um, voru meginverkefni milliþinganefndarinnar og í þessu efni hefur hún gjörsamlega brugðist hlutverki sínu og brugðist þeim fjölda fólks sem berst við þennan vanda og bíður þess að stjórnvöld leysi hann. Það er auðvitað fyrst og fremst veganesti ríkisstjórnarinnar sem ræður því, eins og segir í séráliti fulltrúa Alþb., Kvennalista og Alþfl., að ríkisstjórnin hefur í blóra við kjarasamninga lækkað framlög til Byggingarsjóðs verkamanna og gert sjóðnum erfitt fyrir að standa við gefin lánsloforð og gefur þá auga leið að ekkert svigrúm er til þess að mæta þörfum fyrir aukið framboð og aukna fjölbreytni í hinu félagslega íbúðakerfi. Þetta er staðreyndin þrátt fyrir eindregnar viljayfirlýsingar í samkomulaginu um það að aukið yrði fjármagn til félagslega íbúðalánakerfisins.

Rétt er líka að benda á að það er töluverður hópur fólks sem fellur eiginlega niður á milli kerfa, hefur sem sagt of litlar tekjur til þess að fá lánað úr Byggingarsjóði ríkisins en of miklar tekjur til þess að fá lánað úr Byggingarsjóði verkamanna miðað við það fjármagn sem fyrir er. Kannast ekki hæstv. ráðh. eitthvað við þann vanda?

Það eina sem hefur verið staðið við í þessum efnum er að Húsnæðisstofnun ríkisins var falið að gera könnun á þörf fyrir leiguhúsnæði í landinu og niðurstöður þeirrar könnunar liggja nú fyrir. Þar kemur fram að þörf fyrir almennt leiguhúsnæði er mjög mikil í landinu. Þetta á þó sérstaklega við utan höfuðborgarsvæðisins en einnig á því. Á höfuðborgarsvæðinu er reyndar mest þörf fyrir leiguhúsnæði fyrir svokallaða sérhópa. Á mörgum stöðum úti á landi telja þeir sem svara könnuninni að vöntun á leiguhúsnæði sé svo mikil að það sé hemill á eðlilega atvinnustarfsemi, standi eðlilegu atvinnuástandi fyrir þrifum, að fólk komi ekki á staðinn vegna þess en gerði það frekar ef leiguhúsnæði væri fyrir hendi. Það vantar leiguhúsnæði fyrir kennara, fiskvinnslufólk og fleiri sem vilja ekki binda sig um of án þess að kynnast staðnum fyrst. Á þessum stöðum er minna talað um að þörf sé á leiguhúsnæði fyrir svokallaða sérhópa, þ.e. aldraða, öryrkja og fleiri, en þó er alltaf einhver þörf. En nú ber að hafa í huga að þegar gerðar eru kannanir sem þessar er mjög erfitt í raun og veru að meta leiguíbúðaþörfina vegna þess að það hlýtur öðrum þræði að vera háð pólitísku mati. Sem dæmi má nefna að í Keflavík er talin þörf fyrir þrjár íbúðir en í Grindavík fyrir 20. Spurningin er því hvort um sé að ræða ofmat á öðrum staðnum eða vanmat á hinum. Þetta tel ég að hefði þurft að skoða betur. Slíkar vangaveltur breyta því þó ekki á nokkurn hátt að niðurstöður könnunarinnar gefa okkur skýr skilaboð um það hvar þarf að taka til hendinni í húsnæðismálum. Það þarf að auka leiguhúsnæði í landinu.

Í umræðum um skýrslu hæstv. félmrh. um jafnréttismál s.l. þriðjudag varð nokkur umræða um gildi kannana og virðast sumir hv. þm., þar á meðal hæstv. ráðh., hafa kosið að skilja okkur Kvennalistakonur svo sem við værum á móti könnunum svona yfirleitt. Það er auðvitað rangtúlkun hin mesta og sýnir aðeins hversu lágt er hægt að leggjast í pólitískum umræðum þegar málstaðurinn er vondur. Kannanir eru auðvitað nauðsynlegar til að varpa ljósi á stöðuna og tryggja markvissar aðgerðir til úrbóta. Þær eru hins vegar til lítils gagns í sjálfu sér ef þær eru ekki nýttar til breytinga og bóta. Sé ástandið ljóst og þarfnist breytinga er auðvitað óviðunandi að tefja úrbætur undir því yfirskini að enn þurfi að kanna.

Hér höfum við enn eitt dæmið í höndunum um það að ráðamenn halda að nóg sé að kanna og gefa út skýrslur, fylla allt af pappír og telja saman hvað hafi verið haldnir margir fundir og þetta og hitt sé talið og álitið og jafnvel deginum ljósara o.s.frv. Það finnst okkur Kvennalistakonum ekki nóg. Við erum fylgjandi því að jarðvegurinn sé kannaður en svo þarf að sá og uppskera, hæstv. ráðh.

Við höfum frá upphafi gert okkur ljósa grein fyrir því að hér á landi vantar leiguhúsnæði og við höfum haft það á stefnuskrá og flutt um það tillögur hér á þinginu. Stjórnarflokkarnir virðast hins vegar halda að nóg sé að gera könnun og viðurkenna að það vanti leiguhúsnæði. Ef þeir fá að ráða áfram verður líklega gerð önnur könnun og fleiri kannanir og fleiri skýrslur.

Það er hins vegar ýmislegt sem hæstv. félmrh. hefði átt að láta kanna og reikna út og gera nákvæmar áætlanir um, og það er hvernig þetta kerfi fjármögnunar húsnæðislána komi til með að þróast. Kvennalistinn hefur margsinnis lýst áhyggjum yfir því að þetta kerfi geti ekki staðist, það hvíli á afar veikum og óraunhæfum forsendum. Það var líka eitt af því sem milliþinganefndinni var falið að gera, þ.e. að gera tillögur um fjármögnun til frambúðar. Ég hef ekki reiknað það nákvæmlega út en mér sýnist á öllu miðað við þær tölur sem við höfum gefnar í þessu dæmi, þ.e. tölur úr fjárlögum og tölur frá Húsnæðisstofnun, að þetta kerfi sé í raun og veru sprungið. Og það er auðvitað aldeilis hrikaleg niðurstaða og langalvarlegasta niðurstaðan.

Hæstv. ráðh. neitaði fullyrðingum um þetta efni í ræðu sinni áðan. Hann sagði að slíkar fullyrðingar hefðu ekki við rök að styðjast og tölur sem nefndar hefðu verið um þau efni ættu sér fæstar nokkra stoð. Betur að satt væri, hæstv. ráðh., en um það er rétt að spyrja betur og krefjast svara og það mun ég gera síðar í mínu máli. Ég er satt að segja undrandi á því hvað hæstv. ráðh. virðist sannfærður um að ástandið sé í allra besta lagi. Ég er ekki á sömu skoðun. Mín skoðun er að fólk hafi verið blekkt. Það er ekki hægt að segja annað. Eins og atburðarásin hefur verið þá lítur þetta þannig út fyrir venjulegu fólki að fulltrúar almenns launafólks í landinu og fulltrúar vinnuveitenda hafi dottið niður á ljómandi góða lausn á húsnæðisvanda landsmanna og örugga leið til fjármögnunar húsnæðislánakerfisins. Landsfeður gripu hugmyndina fegins hendi og unnu að framkvæmd hennar í snarhasti og vitna auðvitað í sífellu til þess, eins og hæstv. ráðh. gerði í ræðu sinni hér áðan, að allt sé nú gert í samráði og samræmi við hugmyndir og vilja aðila vinnumarkaðarins eins og það er orðað. Og er nú engin furða þótt almenningur láti blekkjast af öllum fullyrðingunum og trúi því að allt sé í besta lagi. (Gripið fram í: Hver er blekkingin?) Að þetta kerfi sé svo ljómandi gott, hv. þm.

Gagnrýni stjórnarandstæðinga á þingi er afgreidd sem venjulegt pólitískt nöldur og ábendingar fáeinna þolenda kerfisins eða ábyrgra manna í kerfinu láta menn sem vind um eyrun þjóta, enda ákaflega erfitt að botna í þessum málum nema kafa rækilega ofan í þann grautarpott. Almenningur hefur sem sagt haldið að nú væru þessi mál komin í ágætt horf, og ef ekki nú þegar, þá a.m.k. á leiðinni að verða svo. En það er nú aldeilis ekki. Fjármögnun húsnæðislánakerfisins stenst ekki. Ástandið er að mati Kvennalistans verra og horfurnar ískyggilegri en okkur grunaði og við höfum látið í ljós í umræðum og umfjöllun um þessi mál. Ástandið er í stuttu máli þannig, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, að verði ekki veitt stórauknu fé til húsnæðislánakerfisins þá verður að koma hreinskilnislega fram við almenning og láta vita að annaðhvort verður að hætta að taka við umsóknum um húsnæðislán um alllangan tíma og vísa mönnum í bankafrumskóginn eða að biðtíminn mun lengjast jafnt og þétt.

Ég held að það sé sama hvernig menn reikna og reikna og hversu varkárir sem menn eru í spádómum, kerfið stenst ekki eins og það er. Þeir sem eru að sækja um húsnæðislán þessa dagana eiga ekki von um skjóta úrlausn. Þeir sem t.d. sækja í maí geta samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef vænst þess að fá fyrri hluta láns afgreiddan í janúar 1989. Það er eftir tæp tvö ár. Hver getur sagt okkur hvað húsnæðismálastjórn hefur til ráðstöfunar í janúar 1989? Samningar við lífeyrissjóðina eru til ársloka 1988. Ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Hvað telur ráðherra að Húsnæðisstofnun geti lofað langt fram í tímann? Hvað má biðtíminn eftir lánunum verða langur að mati ráðherra? Eru það tvö ár eins og nú stefnir í eða enn þá lengri tími?

„Það er ekkert minnst á biðtíma í lögunum“, sagði hæstv. ráðh. í ræðu sinni hér áðan, „en öryggi lántakenda er tryggt með lagaákvæði um það að svar skuli hafa borist innan ákveðins tíma.“ Þetta er kannske ekki orðrétt eins og hæstv. ráðh. sagði það en nokkurn veginn.

Það er alveg hárrétt, hæstv. ráðh., að það er ekki minnst á biðtíma í lögunum og það er líka rétt að í lögunum er aðeins ákvæði um það að svar skuli hafa borist umsækjendum innan ákveðins tíma. Það er gott svo langt sem það nær en ætli það sé nú mikið öryggi í raun og veru fólgið í því að fá svar um það að láns sé að vænta eftir tvö eða þrjú eða fjögur ár? Er hv. 7. þm. Reykv. ánægður með það fyrir hönd sinna umbjóðenda? Hvað á lánsumsækjandi að aðhafast á meðan? Eða telur hæstv. ráðh. og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson leigumarkaðinn svo ágætan að það sé viðunandi lausn að vísa mönnum þangað? Er það sú afgreiðsla og er það sú lausn sem stefnt var að eða höfðu menn það ekkert á hreinu að hverju var stefnt og er það e.t.v. ekki ljóst enn þá? Hvert er álit hæstv. ráðh. á þessu atriði? Nú hefur það komið fram í fjárlögum að gæslumenn ríkissjóðs hafa ekki hugsað sér aukin framlög beint úr ríkissjóði á komandi árum. Þeir stefna að minnkun þess framlags og það þarf enga hagfræðinga og enga sérstaka reiknimeistara til að sjá hver afleiðingin verður. Hæstv. félmrh., sem ber ábyrgð á þessum málaflokki, hlýtur að hafa gert sér einhverjar hugmyndir um hvert framhaldið á að verða, annað væri fullkomið ábyrgðarleysi.

Herra forseti. Það er alltaf vafamál hvort á að vera að lappa upp á kerfi eins og þetta húsnæðislánakerfi sem hefur svo marga galla að best væri að byrja alveg frá grunni. Stefnumörkun í húsnæðismálum hefur verið mjög óljós á undanförnum árum og ekki hefur stefna núv. ríkisstjórnar verið neitt til að hrópa húrra fyrir. Hún greip fegins hendi tillögur aðila vinnumarkaðarins um lausn á þeim málum án þess að gera sér nokkra grein fyrir að hverju er stefnt með tillögunum. Ráðamenn virðast ekki hafa gert sér grein fyrir hvenær allir sem vilja geta fengið 70% af kaupverði íbúðar að láni hjá Húsnæðisstofnun. Á það markmið að nást árið 1990 eða árið 2000 eða einhvern tímann á næstu öld? Hve lengi á fólk að bíða frá því að það sækir um lán og þangað til það fær lánin? Eru það mánuðir eða ár sem um er að ræða? Hve langur tími er áætlað að líði þangað til jafnvægi verði komið á í kerfinu? Hve mikla fjármuni áætlar ríkisstjórnin að setja þurfi í byggingarsjóðinn til að biðraðir eftir lánum lengist ekki stöðugt? Við þessu hljótum við að verða að fá svör. Var e.t.v. ekki hugsað fyrir framtíðinni í þessum málum frekar en öðrum?

Eftir að hafa séð framlag ríkissjóðs í fjárlögum þessa árs, séð það að ríkisstjórnin ætlar enn að draga úr framlögum til húsnæðismála, beinum framlögum úr ríkissjóði sem og til margra annarra mikilvægra mála, þá virðist alveg ljóst að ekki var nein alvara á bak við þær yfirlýsingar að leysa ætti húsnæðisvandann. Nú er stefnt að því að draga svo úr fjárveitingum til Húsnæðisstofnunar að það hlýtur að stefna í algert öngþveiti fljótlega. Ef þetta á að vera stefnan þá er algjörlega óhjákvæmilegt að biðraðir munu lengjast og lengjast. Það er engu líkara en menn hafi gleymt því að þó fengist hafi lán úr lífeyrissjóðnum þarf að borga þau aftur til baka. Ríkissjóður verður að koma með drjúgt framlag fyrstu árin ef sjóðurinn á að geta byggst upp. Það hlýtur öllum að vera ljóst að ekki er hægt að taka lán með 6,25% ársvöxtum eins og nú er gert og lána það síðan með 3,5% vöxtum án þess að til þurfi að koma framlag einhvers staðar frá. Núverandi landsfeður halda e.t.v. að þeir hafi fundið upp eilífðarvélina.

Herra forseti. Það má ljóst vera af orðum mínum að Kvennalistinn hefur þungar áhyggjur af húsnæðismálum og þeirri þróun sem orðin er og virðist eiga að fá að halda áfram. Við höfum gagnrýnt ýmsa þætti þess og teljum okkur hafa unnið af heilindum í samstarfi við aðra þingflokka að því að finna varanlegri lausnir. Við höfum orðið fyrir miklum vonbrigðum með árangur þessa starfs. Við teljum út af fyrir sig gerlegt að bæta þetta kerfi með lagfæringum hér og þar í stíl við það sem kemur fram í þessari skýrslu og þá sérstaklega á þann veg að gera þetta kerfi hagstæðara fjölskyldu- og barnafólki. Ég hika ekki við að fullyrða að það er andstætt fjölskyldufólki og sennilega er Ísland eitt fárra landa í þessum heimshluta, sem tekur ekki tillit til fjölskyldustærðar í húsnæðislánakerfi sínu. Í raun og veru er vafamál hvort borgar sig að lappa upp á þetta kerfi. Það þarf að smíða nýtt. En hæstv. félmrh. virðist ekki þeirrar skoðunar. Hann fullyrti hér áðan að þetta kerfi bæri að verja, um það skyldum við standa vörð þangað til það væri búið að sýna sig. Það getur orðið mörgum dýrkeypt, hæstv. ráðh.