28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

68. mál, skólamálaráð Reykjavíkur

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Þetta mál geldur þess að lítill tími er til umræðna og nær ógerningur að skýra fyrir þeim sem ekki eru gerkunnugir málinu það sem hér er um að ræða. Hæstv. menntmrh. veit líka ofurvel að það er ekki haus eða hali á því sem hann var að segja þó ég þakki honum að sjálfsögðu fyrir svörin.

Ég er með í höndunum svokallaða „Samþykkt fyrir skólamálaráð Reykjavíkurborgar“. Hún er að mestu leyti efnislega samhljóða því sem sagt er um verkefni fræðsluráðs. Ég sat fjögur ár í borgarstjórn Reykjavíkur og ég varð aldrei vör við það og ég held enginn félaga minna þar að fræðsluráð Reykjavíkur réði ekki við þau störf sem því voru ætluð. Hæstv. ráðherra minntist á að bætt hefði verið á skólamálaráð eftirliti með framhaldsskólum sem borg og ríki réðu. Það er hreinlega heimild fyrir því í grunnskólalögum að fræðsluráð megi annast það líka. Það hefði ekki þurft að valda neinum vanda.

Sannleikurinn er ósköp einfaldlega sá að hér er á ferð miklu alvarlegra mál en þm. almennt gera sér ljóst. Hér er einfaldlega um að ræða pólitískar ofsóknir á hendur embættismanni ríkis og Reykjavíkurborgar. Allur sá fjáraustur sem hefur farið í að ónýta störf þessa embættismanns er fyrir neðan allar hellur. Fólk veit ekki lengur hvert það á að senda erindi sem varða kennslumál í bænum vegna þess að skólamálaráð er alveg tvímælalaust gersamlega ólöglegt fyrirbæri. Ég öfunda ekki hæstv. ráðherra og skal ekkert vera að níðast á honum hér að þurfa að svara þessu, enda á hann svo sem ekki mikla sök á þessu. En ég held að alþm. ættu að vera vakandi fyrir yfirgangi sem þessum og það sætir næstum furðu að Alþingi skuli ekki fyrir löngu hafa mótmælt hvernig hér er staðið að verki.

Herra forseti. Ég hlýt að ljúka máli mínu. Ég sé að tími minn er þrotinn, því miður.