18.02.1987
Efri deild: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3213 í B-deild Alþingistíðinda. (2897)

348. mál, iðnráðgjöf

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Hæstvirtur forseti. Ég flyt frv. til laga um iðnráðgjöf á þskj. 609. Frv. til laga um iðnráðgjafa var samþykkt á Alþingi árið 1981 og eru lögin nr. 86 það ár.

Hér var um nýmæli að ræða og því var mælt svo fyrir að lögin skyldu gilda til ársloka 1985 og var þá gert ráð fyrir endurskoðun að fenginni reynslu. Þeirri endurskoðun lauk ekki á því ári og var gildistími framlengdur til ársloka 1986. Endurskoðun fór svo fram á s.l. ári og var nýtt frv. tilbúið í öllum meginatriðum nokkru fyrir þinghlé í desember. Ástæðulaust þótti að leggja það þá fram vegna mikilla anna á þingi fyrir jól. Nú er það hins vegar lagt fram og þess vænst að Alþingi afgreiði frv. sem allra fyrst.

Nauðsynlegt er að iðnráðgjöfin hafi ákveðin lög til að styðjast við. Það fer ekki á milli mála að það er mjög æskilegt ef ekki nauðsynlegt að veitt sé ráðgjöf og upplýsingar látnar í té um hvaðeina sem stuðlað getur að vexti og viðgangi iðnaðar í landinu og þá ekki síst á landsbyggðinni.

Vegna samdráttar í hefðbundnum atvinnugreinum allvíða um landið er meiri ástæða en nokkru sinni fyrr til að hlúa sem best að þeim iðnaði sem fyrir er og þá ekki síður að koma fótum undir ný atvinnutækifæri á sviði iðnaðar. Menn geta ekki búist við að árangur verði mikill ef þessi fyrirtæki eiga að standa á spóaleggjum eins og oft hefur orðið raun á, jafnvel allt of oft. Hér þarf að renna gildum stoðum undir. Við höfum nú þegar allt of sára reynslu af því að rokið hefur verið af stað með alls konar atvinnurekstur án þess að fullnægjandi athugun og undirbúningur hafi farið fram. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Einstaklingar, sveitarfélög og ríkissjóður hafa margan skellinn hlotið vegna ófara hjá fyrirtækjum sem stofnað hafði verið til af of lítilli eða engri fyrirhyggju. Hugmyndin sjálf hefur kannske verið góðra gjalda verð, en að undirbúningi og rekstri hefur ekki verið staðið sem skyldi. Það eru nefnilega sígild sannindi hið fornkveðna: Varðar mest til allra orða að undirstaðan sé réttlega fundin.

Markmiðið með því frv. sem hér liggur fyrir er einmitt að stuðla að traustri undirstöðu iðnrekstrar í landinu með ráðgjöf og hvers konar miðlun upplýsinga sem að gagni megi koma. Frv. er byggt á þeirri reynslu sem fengist hefur af framkvæmd laganna frá 1981 og að ýmsu leyti á tillögum sem Iðntæknistofnun Íslands hefur sent ráðuneytinu. Sú stofnun hefur af hálfu ríkisvaldsins einkum haft umsjón með framkvæmdinni. Ráðuneytið er þeirrar skoðunar að stefnt hafi verið í rétta átt með lögunum 1981, enda hér verið að ræða ráðgjafarþjónustu sem á sér hliðstæður bæði í Danmörku og Noregi og hefur notið þar opinbers stuðnings og þótt gefast vel.

Ekki þykir í þessum efnum fremur en öðrum ástæða til að þræða nákvæmlega fyrirmyndir þaðan í einstökum atriðum þótt byggt hafi verið á meginsjónarmiðum. Það er meginatriði þessa frv. að í því er ekki gert ráð fyrir að hið sjálfvirka fjárstreymi, sem verið hefur frá upphafi samkvæmt ákvæðum laganna frá 1981 til landshlutasamtaka og iðnþróunarfélaga, haldist heldur verði reynt að stýra því fé sem til ráðstöfunar er þannig að það komi að sem mestu gagni. Þá er það og nýmæli að lagt er til að fjárveitingar verði ekki einskorðaðar við landshlutasamtök og iðnþróunarfélög heldur geti ýmiss konar félög og jafnvel einstaklingar komið til álita þegar fé til iðnráðgjafar er ráðstafað.

Að því er stefnt að iðnráðgjöfin verði markvissari og árangursríkari en verið hefur. Í stað þess að hafa sjálfvirk styrkjakerfi, eins og nú er, þykir vænlegra til árangurs að styrkja þá aðila sem sýna frumkvæði og hafa vilja og getu til athafna á því sviði sem lögin taka til. Þar með er talin upplýsingaþjónusta um iðnaðarmál, fræðslustarfsemi, fundarhöld og ferðakostnaður.

Ætlunin með frv. er að einungis njóti stuðnings skilgreind verkefni og þá að jafnaði með mótframlagi umsækjanda. Með þessu er að því stefnt að beina athygli manna að verkefnum sem þeir telja verulegar líkur á að skili árangri.

Nauðsynlegt er að fjárveiting til iðnráðgjafar verði aukin nokkuð úr því sem nú er, en eðlilegt þykir að fjárveiting verði ákveðin af fjárveitingavaldinu hverju sinni. Fjárveiting skv. fjárlögum 1987 er nokkuð innan við 7 millj. kr., en æskilegt að hún hefði orðið a.m.k. 10 millj. kr.

Sú hugmynd hefur komið fram að rétt væri að ákveðið grundvallarframlag eða grunnframlag yrði greitt til landshlutasamtaka og iðnþróunarfélaga með svipuðum hætti og nú er, en því fé sem umfram yrði verði ráðstafað skv. frv. Slíkt fyrirkomulag mundi aðeins stuðla að því að viðhalda sjálfvirka kerfinu og þar með brjóta í bága við meginmarkmið þessa frv. Þetta er því talið óráðlegt.

Lagt er til að heiti laganna verði breytt, þau heiti „Lög um iðnráðgjöf“ en ekki „Lög um iðnráðgjafa“. Um einstakar greinar má segja þetta:

Í 1. gr. er gerð grein fyrir markmiði laganna sem er að draga úr því misvægi sem er á aðstöðu aðila úti á landi til að njóta ráðgjafar og aðstoðar á sviði iðnaðar og aðstöðu fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Eins og málum er nú háttað eiga aðilar þar greiðari aðgang að þjónustu- og fræðslustofnunum iðnaðarins, en með þessum lögum er reynt að jafna metin. Ekki þykir rétt að einskorða aðstoð við sveitarfélög og samtök þeirra og iðnþróunarfélög eins og gert er í 1. gr. núgildandi laga. Eðlilegt virðist að sem flestir geti átt kost á aðstoð. Það yrði á valdi sjóðstjórnar skv. 6. gr. að meta hvaða verkefni væru líklegust til að skila árangri.

Í skilgreiningu hugtaksins iðnráðgjöf í 2. gr. eru tekin upp þau verkefni sem iðnráðgjafar hafa einkum starfað að frá því að lögin um iðnráðgjafa voru sett, sbr. 3. gr. þeirra. Hér er um að ræða mjög fjölbreytileg verkefni. Ekki er gert ráð fyrir að verið sé að seilast inn á tíðkanlegt verksvið iðnráðgjafastofa né þeirra aðila sem nú starfa að fræðslumálum á sviði iðnaðar. Eins og orðalagið bendir til er hér um að ræða fyrstu skrefin, en síðar kæmu aðrir á eftir.

Í 3. gr. er lagt til að stofnaður verði sérstakur ráðgjafarsjóður iðnaðarins er styrki ráðgjöf sem um ræðir í 4. gr. frv. Einhver kynni að telja að ástæðulaust væri að fjölga opinberum sjóðum, fremur ætti að fækka þeim, en hér er raunverulega um það að ræða að í stað þess að ríkisframlag renni sjálfkrafa til viðtakanda eins og verið hefur yrði stjórn á því hvernig framlaginu er varið. Því er lagt til að það form verði haft á sem í greininni segir.

Í 2. mgr. 1. gr. laganna frá 1981 segir svo um ríkisframlag til iðnráðgjafar: „Framlagið miðast við launakostnað vegna starfa eins manns á starfssvæði hlutaðeigandi samtaka.“ Þessi viðmiðun er óljós að ekki sé talað um að bæta ætti við þátttöku í skrifstofu- og ferðakostnaði samkvæmt mati og nánari ákvörðun ráðuneytis eins og tillaga hefur komið fram um. Það væri vissulega æskilegt að geta haft ákveðna viðmiðun til að tryggja tiltekið framlag, en sú skipun fékk ekki byr.

Í frv. er gert ráð fyrir að árleg fjárveiting verði ákveðin í fjárlögum hverju sinni, en í fjárlögum fyrir 1987 eru í þessu skyni áætlaðar 6 millj. 830 þús. kr. eins og áður er getið. Í því sambandi má benda á að fjárveiting vegna starfa fagráðunauta á sviði landbúnaðar hjá Búnaðarfélagi Íslands og samkvæmt jarðræktarlögum mun vera um 40 millj. kr. samkvæmt fjárlögum 1987. Eins og áður hefur verið sagt hefði verið æskilegt að fjárveiting yrði hækkuð verulega og verður að vona að iðnráðgjöfin fái mjög aukna fjárveitingu á komandi tíð.

Í 5. gr. eru taldir upp þeir sem hugsanlega geta notið styrks úr ráðgjafarsjóði. Hér eru fyrst nefnd sveitarfélög og samtök þeirra svo og iðnþróunarfélög, en aukið er við öðrum aðilum og er þess áður getið. Nú er mikið ósamræmi í því hvernig greiðslu fyrir þjónustu og framlögum viðtakanda styrks er háttað, eins og fram hefur komið í grg. Iðntæknistofnunarinnar sem fylgir frv. Í sjálfu sér getur það farið mjög eftir atvikum hvernig með skuli fara. Þykir eðlilegra að það verði metið af sjóðstjórn hve há framlög eigi til að koma og hvenær greiða á fyrir þjónustu í stað þess að hafa hið sjálfvirka kerfi. Hlýtur stjórn að hafa til viðmiðunar eðli og umfang verkefnisins sem um er að ræða og út frá þeim sjónarmiðum sem koma fram við 1. gr. um markmið laganna.

Þar sem iðnráðgjöf heyrir undir iðnrh. þykir eðlilegt að hann skipi formann í stjórn ráðgjafarsjóðs. Æskilegt er að traust tengsl séu við Iðntæknistofnun og því er eðlilegt að hún tilnefni annan stjórnarmann en Byggðastofnun hinn þriðja, sbr. ákvæði 1. gr.

Þar sem mörg verkefni sem lögin taka til eru þess eðlis að þau geta tekið yfir nokkuð langt tímabil þykir rétt að skapa möguleika á því að veitt verði fyrirheit fram í tímann og þótti hæfilegt að miða við tvö ár. Að þeim tíma loknum má ætla að verkefni séu komin út fyrir verksvið ráðgjafarsjóðs og farin að heyra undir verksvið hinna hefðbundnu sjóða iðnaðarins. Hér gæti einnig komið til greina fyrirheit til að tryggja starfskrafta ákveðins starfsmanns, en staða iðnráðgjafa er mjög ótraust samkvæmt gildandi lögum.

Áður var vikið stuttlega að mótframlögum. Tilgangur með ákvæðum 8. gr. er m.a. sá að sýnt sé að umsækjandi hafi bæði vilja og getu til að leggja eitthvað á móti. Þessi mótframlög geta orðið mjög mismunandi eftir eðli þess viðfangsefnis sem um er að ræða. Nauðsynlegt þykir að hafa heimild til að falla frá skilyrðum um mótframlög þegar sérstakar ástæður mæla með.

Í lok grg. með frv. er að finna útdrátt úr skýrslu Iðntæknistofnunar um framkvæmd laganna frá 1981 fyrir tímabilið frá september 1984 til september 1986. Ég ætla að þar sé að finna drjúg rök til þeirrar endurskoðunar sem fram hefur farið og frv. ber vitni um.

Það er alltaf álitamál hversu ítarleg ákvæði laga eiga að vera. Ég held að það sé þó nokkuð eðlileg regla að hrein framkvæmdaratriði séu ákveðin í reglugerð fremur en þau séu fest í lög og því sett ákvæði um slíkt. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að ætlunin er að reynt verði í reglugerð að móta stöðu iðnráðgjafa sem hafa haft og munu væntanlega hafa mikla þýðingu á komandi árum. Það er hæpið að binda slíkt í lögum á þessu stigi. Hér er um að ræða mjög unga og fámenna starfsstétt sem hefur verið skipuð mönnum með ólíka menntun. Ég held því að ekki sé ráðlegt að binda neitt um hana í lögum enn sem komið er, reglugerð sé rétta leiðin á þessu stigi.

Á fundi iðnráðgjafa í landshlutum og iðnþróunarfélaga, sem haldinn var á Akureyri 16. jan. 1987, var kynnt frv. sem hér liggur fyrir og mér hafa borist eftirfarandi ábendingar, en þar er lagt til:

1. Að fjárveitingar úr ríkissjóði verði ákveðnar að fengnum tillögum iðnþróunarfélaga og landshlutasamtaka. Þetta er ósköp meinlaust en ég held varla að ástæða sé að lögbjóða slíkt.

2. Að felldur verði niður möguleiki annarra en landshlutasamtaka sveitarfélaga og iðnþróunarfélaga til að fá framlög úr ráðgjafarsjóði. Þessu er ég algjörlega andvígur og tel einmitt að fleiri eigi að koma til, bæði ýmiss konar félög svo sem einstök sveitarfélög og jafnvel einstaklingar.

3. Í stað þess að Byggðastofnun tilnefni menn í stjórn sjóðsins komi samtök aðila um iðnráðgjöf í landshlutum. Ég veit ekki með vissu hvort búið er að stofna þessi samtök. Ég tel það fyrirkomulag eðlilegt sem um ræðir í frv., en hef þó ekkert við það að athuga að því yrði hagað á annan veg. Ég tek þó skýrt fram að ég tel alveg ástæðulaust að hafa stjórnarmenn í þessari ráðgjafarnefnd fleiri en þrjá og iðnrn. verði að eiga þar formann.

Hæstvirtur forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta mál fleiri orð að sinni, en legg til að frv. verði að lokinni umræðu hér og nú vísað til 2. umr. og hv. iðnn.