18.02.1987
Efri deild: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3217 í B-deild Alþingistíðinda. (2898)

348. mál, iðnráðgjöf

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég fæ þetta mál til athugunar í nefnd þannig að ég þarf ekki að hafa mörg orð hér um í upphafi. Hér er um þýðingarmikið og þarft mál að ræða sem nauðsynlegt er að fái afgreiðslu hér. Reynslan af starfi þeirra manna sem hér er um fjallað, iðnráðgjafanna í landshlutunum, er mjög góð og nauðsynlegt að festa það enn betur í lögum um starfssvið þeirra og möguleika til að greiða úr málum fyrir menn. Í landshlutunum er almenn ánægja með störf þeirra. Það eitt skortir kannske á, eins og hæstv. iðnrh. kom inn á áðan, að enn þá eru þessi mál á fullmiklum spóaleggjum þannig að menn hafa ekki afl á bak við sig til að fara út í ýmislegt af því sem þeir vildu gjarnan fara í, allra síst á hinum smærri stöðum þar sem ýmsir möguleikar eru þó fyrir hendi ef afl þess sem gera skal, þ.e. fjármagnið, væri til staðar.

Ég held að það sé því mjög þarft að skoða þetta mál vel og flýta afgreiðslu þess. Ég sé að í áliti þeirrar nefndar sem hæstv. fyrrv. iðnrh. skipaði til að endurskoða þessi lög og í áttu sæti Gunnar Guttormsson frá iðnrn., Sigurður Guðmundsson frá Byggðastofnun og Theódór Blöndal framkvæmdastjóri á Seyðisfirði, eru tillögur um breytingar á núgildandi lögum sem fara um margt í annan farveg en það frv. sem hæstv. ráðh. var að mæla fyrir áðan.

Það er auðvitað nauðsynlegt að kynna sér þann mismun sem þar er á. Ég ætla ekki að fara efnislega út í það hér og nú.

Ég heyrði að hæstv. iðnrh. kom inn á að það væru að vissu leyti deildar meiningar meðal iðnráðgjafa og eins annarra aðila um þetta o væri sjálfsagt að taka ýmislegt þar til athugunar. Ég hef undir höndum bréf frá iðnráðgjöfunum um viss óánægjuatriði, þó kannske ekki veigamikil, en ákveðin óánægjuatriði og atriði sem þeir vildu hafa á annan veg. Ekki segi ég að við eigum að fara eftir ábendingum þeirra starfsmanna, en nauðsynlegt er fyrir nefndina að kalla fulltrúa þeirra á sinn fund og kynnast þeim sjónarmiðum sem efst eru á baugi hjá þeim einnig.

Ég fagna því að frv. skuli fram komið og við getum farið að skoða það, en ætla ekki á þessu stigi að taka efnislega afstöðu til ýmissa þátta þess, m.a. þeirra þar sem nokkur mismunur er á því nál. sem þessir þrír ágætu menn skiluðu frá sér á sínum tíma og þeirrar frumvarpsgerðar sem hér liggur fyrir.