18.02.1987
Efri deild: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3218 í B-deild Alþingistíðinda. (2902)

352. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Frú forseti. Skv. 10. tölul. í ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 109/1984, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, áður lög nr. 50/1981 með sama heiti, skal endurskoðun laga þessara lokið fimm árum eftir gildistöku þeirra, þ.e. eigi síðar en 1. ágúst næstkomandi. Til að vinna að þessari lögskipuðu endurskoðun skipaði ég með bréfi 28. júlí s.l. sérstaka nefnd sem í áttu sæti þeir Ingimar Sigurðsson yfirlögfræðingur, formaður, Sigurgeir Sigurðsson bæjarstjóri, tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga, Guðmundur Sigurðsson heilsugæslulæknir, tilnefndur af landlækni, og Valdimar Brynjólfsson heilbrigðisfulltrúi, tilnefndur af Heilbrigðisfulltrúafélagi Íslands. Ritari og sérstakur starfsmaður nefndarinnar var skipaður Þórhallur Halldórsson forstöðumaður.

Rétt er að vekja athygli á því að lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, þ.e. lögin nr. 50/1981, hafa í reynd tvisvar hlotið endurskoðun frá gildistöku þeirra sem var 1. ágúst 1982, annars vegar með lögum nr. 92/1984 sem felld voru saman við fyrri lögin og gefin út svo breytt með lögum 109/1984 og hins vegar með setningu laga nr. 117/1985, um geislavarnir. Fyrri breytingin snertir fyrst og fremst heimild sveitarfélaganna og Hollustuverndar ríkisins til gjaldtöku vegna þjónustu sinnar, heilbrigðiseftirlits og rannsóknastarfa. Með síðari breytingunni var geislavarnarstarfsemin vegna sérstaks eðlis síns tekin frá Hollustuvernd ríkisins og sett undir sérstaka stofnun, Geislavarnir ríkisins. Hefur því eitt af verkefnum nefndarinnar verið að fella þessar breytingar inn í frv. það sem hér liggur frammi.

Með setningu nýrra laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit á árinu 1981 var fyrst og fremst stefnt að þremur markmiðum: Að koma á heilsteyptu og samræmdu heilbrigðiseftirliti og mengunarvarnaeftirliti á landinu öllu. Felldar voru undir eina stofnun, Hollustuvernd ríkisins, þrjár stofnanir á vegum heilbr.- og trmrn. sem störfuðu á þessum vettvangi, þ.e. Heilbrigðiseftirlit ríkisins, Matvælarannsóknir ríkisins og Geislavarnir ríkisins. Sett var á fót sérstök mengunarvarnadeild innan Hollustuverndar ríkisins og þar með í fyrsta skipti kveðið á um mengandi atvinnurekstur á heildstæðan hátt í íslenskri löggjöf.

Það voru fyrst og fremst þessi atriði sem komu til umfjöllunar í endurskoðunarnefnd laganna auk ýmissa smærri atriða sem ákveðið var að leggja til að yrðu færð til betri vegar eða felld úr gildi með vísun til fenginnar reynslu. Ef litið er til áðurgreindra meginmarkmiða með lagasetningunni 1981 má segja að í aðalatriðum hafi tekist að koma á heilsteyptu og samræmdu heilbrigðis- og mengunareftirliti í landinu öllu. Þannig hefur næstum tekist á aðeins fjórum árum að koma á í landinu öllu heilbrigðiseftirliti sem er í höndum sérkunnáttumanna að verulegu leyti. En þar sem þetta hefur ekki alveg tekist enn eru áform uppi um úrbætur innan skamms. Með skírskotun til jákvæðrar þróunar þessara mála í landinu eru nánast engar brtt. gerðar varðandi þennan þátt laganna. Þær breytingar sem fram koma varðandi hann snerta fyrst og fremst stöðu svæðisnefnda um heilbrigðiseftirlit, þ.e. afskipti þeirra af fjármálum og samskipti sveitarfélaga sem standa saman að heilbrigðiseftirliti á hinum þrettán eftirlitssvæðum þannig að síður komi til erfiðleika við afgreiðslu fjárhagsáætlana.

Varðandi annað meginmarkmiðið, sem er starfsemi Hollustuverndar ríkisins, er nefndin þeirrar skoðunar að ekki hafi tekist sem skyldi til um það.

Það er álit nefndarmanna að stofnunin eigi enn langt í land með að sinna þeim veigamiklu verkefnum sem henni eru falin lögum samkvæmt. Þó fjárskortur hafi ráðið þar miklu komi enn fremur til húsnæðisleysi og skortur á efnarannsóknum matvæla og annarra neyslu- og nauðsynjavara, auk þess sem stjórnun stofnunarinnar sé ekki nægilega sterk. Varðandi húsnæði og aðstöðu til efnarannsókna matvæla og annarra neyslu- og nauðsynjavara er rétt að benda á að gert er ráð fyrir að Hollustuvernd ríkisins fái rými í húsnæði því sem ríkið keypti af Vörumarkaðnum í Ármúla í Reykjavík. Ætti sá vandi því að leysast innan tíðar. Nefndin leggur hins vegar til að stjórn stofnunarinnar verði gerð skilvirkari og að málum verði þannig komið fyrir að möguleikar gefist til betri og markvissari stjórnunar en hingað til. Nefndin telur nauðsyn virkrar stjórnunar brýna þar sem um sé að ræða stofnun sem eigi litla möguleika til tekjuöflunar vegna eðlis starfseminnar sem er að annast aðstoð við heilbrigðiseftirlitið í landinu og þjónustu við almenning yfirleitt.

Til að reyna að ráða bót á þessu leggur nefndin til að í stað forstjóra komi framkvæmdastjóri með rekstrarmenntun og rekstrarreynslu sem starfi með sérstakri þriggja manna starfsstjórn sem ráðherra velur úr sjö manna stjórn stofnunarinnar, en í þeim hópi eru hinir faglegu sérfræðingar. Enn fremur leggur nefndin til að starfssviðum stofnunarinnar verði fjölgað um eitt, þ.e. eiturefnasvið, en um nauðsyn þess þarf varla að fjölyrða. Um þriðja þáttinn, þ.e. stofnun sérstakrar mengunarvarnadeildar og ákvæði laganna um mengunarvarnir, telur nefndin of skamman tíma hafa liðið til þess að hægt sé að dæma þar um reynsluna með fullri vissu, en bendir á að á undanförnum fjórum árum hefur þó ýmsu verið áorkað. Nefndin leggur því engar efnislegar breytingar til varðandi þann þátt.

Ég hef hér að framan í stuttu máli gert grein fyrir þeim meginbreytingum sem felast í frv. því sem hér liggur frammi. Með frv. fylgir mjög ítarleg grg. þar sem m.a. er greint frá starfsháttum nefndarinnar, reynslu af framkvæmd gildandi laga í héruðum landsins, starfsemi Hollustuverndar ríkisins eftir starfssviðum og helstu nýmælum frv., auk ítarlegra athugasemda við einstakar greinar.

Ég læt nægja að vísa til þessara atriða, en legg þó megináherslu á að efla þá starfsemi Hollustuverndar ríkisins m.a. með því að gera stofnuninni kleift að annast eftirlit með innflutningi matvæla og annarra neyslu- og nauðsynjavara og koma fyrir innan stofnunarinnar á næstu tíu árum rannsóknastarfsemi sem lýtur að efnarannsóknum vegna Heilbrigðiseftirlitsins, t.d. vegna þeirra atriða sem ég hef áður greint, matvæla og annarra neysluvara, en um þessi atriði er fjallað í ákvæðum til brb. í frv.

Ég tel að ekki verði lengur undan þeirri ábyrgð vikist að koma á fót slíkri starfsemi hér á landi, þ.e. að þegar verði hafist handa við þá uppbyggingu, enda gefast betri möguleikar til þess bráðlega þegar stofnunin flyst í nýtt húsnæði.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta frv., en legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. heilbr.- og trn. með beiðni um eins skjóta fyrirgreiðslu og unnt er þannig að unnt sé að taka afstöðu til afgreiðslu þess á þessu þingi í samræmi við það sem segir í ákvæðum til bráðabirgða í gildandi lögum, en með einhverjum hætti þurfum við að standa við það ákvæði. Ég vil í því tilefni, ef það mætti verða til að greiða fyrir starfi nefndarinnar, vísa til þess að undirbúningsnefnd málsins hefur haft samráð og leitað umsagnar geysimargra aðila sem málið snertir, en þeir eru upp taldir í grg.