18.02.1987
Neðri deild: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3233 í B-deild Alþingistíðinda. (2921)

18. mál, kosningar til Alþingis

Kjartan Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Fyrst fáein orð í tilefni af ræðu hv. þm. Karvels Pálmasonar. Hann gerði m.a. að umtalsefni flutning eða flótta hæstv. forsrh. af Vestfjörðum og á suðvesturhorn landsins í framboðsmálum og spurði jafnframt: Vita menn ekki hvað er að gerast á Vestfjörðum? Það verður væntanlega framhald á því. Ég veit ekki nema nýir tímar séu í uppsiglingu á Vestfjörðum eftir að hæstv. forsrh. hefur flutt sig. Við vitum náttúrlega hvað hefur gerst þar á þeim tíma sem hann hefur verið þm. fyrir það kjördæmi. Það hefur orðið veruleg fólksfækkun. Mér reiknast svo til að á þeim 16 árum sem hæstv. forsrh. hefur verið þm. fyrir þetta kjördæmi hafi fækkað um 1600 manns miðað við eðlilega fólksfjölgun, þ.e. meðalfólksfjölgun í landinu. Það eru 100 manns á ári, það eru svona eins og fjögur Flateyrarþorp sem vantar upp á eða hafa samkvæmt þessu lagst í eyði á þessum 16 árum. En nú ætlar hæstv. forsrh. að skipta um kjördæmi og það er ekki víst að sú tilhneiging sem hefur verið í kjördæminu meðan hann var þar þm. haldi endilega áfram eftir að hann er farinn.

Annað atriði sem hv. þm. orðaði áðan var það að hann talaði um að réttur dreifbýlisins hefði verið skertur. Ekki skal ég draga úr því að dreifbýlið eigi við ýmsa erfiðleika að etja og njóti ekki þjónustu með sama hætti og þeir sem í þéttbýlinu búa. En að því er einmitt það lagafrv. varðar sem hér liggur fyrir, þá held ég að það væri alveg eins hægt og ekki síður að orða þetta svo að þéttbýlið hafi ekki með þessu frv. náð rétti sínum að því er þau mannréttindi varðar sem kosningarrétturinn er því að hann verður æðimisjafn eftir sem áður.

Eins og hv. deild er kunnugt er ekki laust við það að ég hafi komið nálægt þessari lagasmíð. Þegar núgildandi lög voru til umræðu tók ég það mjög skýrt fram að ég teldi að þó að menn legðu það á sig að samþykkja þau eins og þau lágu fyrir, þá væru þau alls ekki nógu góð og bæri nauðsyn til þess að fara í ítarlega endurskoðun á þeim.

Ég vil þá segja það hér fyrst að ég tel að enn sé það svo eftir þær breytingar sem hér er lagt til að gera að ekki sé þetta nógu gott. Ef maður lítur um öxl verður náttúrlega fyrst fyrir að það skyldi nú gerast einn ganginn enn að menn væru á seinustu stundu með úrbætur sínar, svo seint fyrir að framboð hefðu þegar að miklu eða a.m.k. mjög verulegu leyti, líklegast að langmestu leyti verið ákveðin áður en menn komust í verkin og luku þeim af og það hefur væntanlega gert mönnum mun erfiðara fyrir. En það þýðiir auðvitað líka að ekki hefur tíminn nýst nægilega vel. Mikill hefði munurinn verið ef menn hefðu getað fjallað um þetta fyrir einu eða tveimur árum síðan í betra næði og við eðlilegri aðstæður.

Ég verð líka að segja að mér finnst það ekki hafa tekist með þessu samkomulagi og því starfi sem unnið hefur verið að koma sér niður á einföldun sem nægileg sé, menn hafi sem sagt ekki lagt nægilega vel á sig að leita einfaldari leiða.

Í annan stað vil ég segja að þegar ég lít um öxl finnst mér það hafa einkennt umræðu um þessi mál, bæði í nefndum, á þingi og þingmanna á meðal, að menn hafi ekki verið að leita að einfaldri grundvallarreglu, „prinsippi“, rökrænni grundvallarreglu. E.t.v. hafa menn reiknað óþarflega mikið eða réttara sagt látið reikna óþarflega mikið eiginlega án þess að reikna, ef ég má orða það svo, án þess að reikna sjálfir.

Mér heyrist að hv. frsm. nefndarinnar, Páll Pétursson, sé ekki alls kostar ánægður með þessa niðurstöðu. Víst hefur þess gætt að menn kenndu hver öðrum um og kannske er ég þá líka kominn í það hlutverkið sjálfur. Menn kenna jafnvel reiknimeisturunum um eða reiknimeistaranum sem er vitaskuld óþarfi og ekki rétt. Ég held að sú einkunn sem hv. þm. Páll Pétursson gaf þessu frv. með þeim brtt. sem hér eru fluttar sé óþarflega góð. Hann taldi að þetta væri bæði einfaldara og skiljanlegra en áður. Ég get fallist á að sum atriði eru einfaldari og sum atriði eru skiljanlegri, en önnur hafa, held ég, orðið a.m.k. mörgum heldur flóknari en þau voru áður þó að fyrir þeim megi finna ýmiss konar ástæður.

Það verður að segjast að hv. þm. Páll Pétursson viðurkenndi að það ákvæði sem er í þessum kosningalögum um kjördæmislausa þingmanninn, ef ég má orða það svo, eða „flakkarann“ eins og hann hefur verið nefndur, sem lendir svo einhvers staðar, að það mundi horfa til bóta og vera strax einföldun ef það væri afnumið og ég tek eindregið undir það og það hefur legið fyrir allan tímann.

Í þessari umræðu finnst mér rétt að minna á að ég hef hér flutt frv. um öðruvísi reglur, sem ég held að séu mun einfaldari en það sem hér er lagt til, geri ekki kröfu til margvíslegra undantekningarákvæða, séu af því tagi sem menn hafa vanist, séu af því tagi sem menn geta auðveldlega reiknað sjálfir og eigi auðvelt með að tileinka sér. Auðvitað eru þær reglur ekki fullkomnar frekar en aðrar en þær hafa þann meginkost að mínum dómi að þær eru svo einfaldar að hver einasti maður, 12 ára og eldri a.m.k., á að geta tileinkað sér þær, séð hvernig útreikningurinn fer fram og haft tiltölulega lítið fyrir útreikningnum því að það er eitt einkennið á þessu eins og það liggur nú fyrir að jafnvel þó að menn skilji, þá þurfa þeir að hafa þó nokkuð fyrir í reikniverki til þess að komast að niðurstöðu um úthlutun þingsæta.

Eins og ég sagði áður hef ég tekið þátt í starfi varðandi þessi mál um nokkra hríð, að vísu með löngu hléi á s.l. árum, en ég tók nokkurn þátt í starfi þessarar nefndar sem varamaður Guðmundar Einarssonar, kynnti þar þessar hugmyndir og hjálpaði að öðru leyti til að ég held við að skoða það sem aðrir vildu skoða í þessu sambandi. En þær hugmyndir, sem ég var með um einföldun, fengu ekki undirtektir í nefndinni. Mér fannst hins vegar nauðsynlegt að þær kæmu fram og þess vegna hef ég flutt það frv. til laga sem ég vitna til varðandi einföldun á þessum reglum. Nú hefur nefndin ekki afgreitt þetta frá sér en hins vegar verður að skilja afstöðu hennar svo, þegar hún afgreiðir aðrar brtt. og nál. án þess að taka þetta frv. til afgreiðslu sem ég hef flutt, að hún styðji það vitaskuld ekki.

Það hafði þá kosti að leitað var að einfaldri grundvallarreglu sem átti að geta gengið upp varðandi úthlutun jöfnunarsæta og í annan stað að vera tiltölulega einföld, vera sanngjörn og vera skiljanleg. Og reyndar hafði hún þann eiginleika að niðurstaða úr kosningum miðað við núgildandi lög hefði ekki verið í neinum verulegum greinum frábrugðin þannig að menn þurftu ekkert að hrökkva í kút um það að þingsætum yrði úthlutað í verulegum greinum öðruvísi en í gildandi lögum eða öðruvísi en ég geri ráð fyrir að niðurstaðan verði ef samþykktar verða þær brtt. sem hér er mælt fyrir.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég sé ekki tilganginn í því að endurflytja sem brtt. við þessa brtt. þær hugmyndir sem komu fram í því frv. til laga sem ég flutti. Það mundi ekki þjóna neinum tilgangi trúi ég. Ég held að þm. hafi greinilega gert upp hug sinn um að það sem þeir komist og vilji á þessu stigi sé þá í meginatriðum eins og brtt. eru frá kosningalaganefnd.

Ég ætla hins vegar að spá því að einkunnin sem þessi kosningalög fá, hver svo sem ábyrgðina ber án þess að ég víki mér undan því að eiga þar einhverja ábyrgð líka, kannske þó nokkra, verulega, að einkunnin muni verða að þetta sé ófullkomið kerfi sem við ætlum að taka upp, það sé ekki einfalt heldur frekar flókið, kannske mjög flókið, það fylgi því veruleg reiknivinna að ætla sér að úthluta þingsætum. Og að lokum ætla ég að spá því að það muni ekki standa lengi þetta kerfi sem hér er lagt til að kosið verði eftir næst.

Ég tel reyndar mjög brýnt að kjördæmamálið í heild sinni verði fljótlega tekið upp að nýju. Það varðar þá bæði stjórnarskrárákvæðin og kosningalögin með tilliti til þess að ná meiri sanngirni og réttlæti í úthlutun þingsætanna og á vægi atkvæða í landinu.