18.02.1987
Neðri deild: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3241 í B-deild Alþingistíðinda. (2928)

294. mál, umboðsmaður Alþingis

Frsm. allshn. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 617 frá allshn. um frv. til laga um umboðsmann Alþingis á þskj. 523. Allshn. hefur fjallað um þetta frv. og jafnframt hefur hún fjallað um annað frv. um sama efni sem til nefndarinnar hafði áður verið vísað. Það er 28. mál deildarinnar, á þskj. 28, frv. til laga um umboðsmann Alþingis. Flm. þess frv. eru Gunnar G. Schram, Pétur Sigurðsson, Ellert B. Schram og Friðrik Sophusson. Það frv. sem hér liggur fyrir er frv. til laga um umboðsmann Alþingis, stjfrv. á þskj. 523.

Nefndin ræddi bæði þessi frumvörp á fundum sínum og það er rétt að geta þess að síðara frv., stjfrv., er í flestum meginatriðum samhljóða þmfrv. á þskj. 28.

Eftir að hafa rætt bæði frv. var niðurstaða nefndarinnar sú að leggja til að frv. á þskj. 523 verði samþykkt en með ýmsum breytingum sem m.a. eru ákvæði sem tekin eru upp úr hinu fyrra frv. sem fyrir nefndinni lá um sama efni. Þær breytingar ýmsar leggur nefndin til að gerðar verði á hinu seinna frv. Að því leyti má segja að efni þessara frv. þar sem það greindi á sé að verulegu leyti gert það sama.

Það er kannske rétt, áður en ég geri grein fyrir þessum brtt. sem ekki eru margar eða flóknar, að gera aðeins grein fyrir meginatriði þessa máls. Hér er mjög merkilegt mál á ferðinni að dómi nefndarinnar.

Í báðum þessum frv. er lagt til að stofnað verði embætti umboðsmanns Alþingis sem hafi það að sínu meginhlutverki að styðja menn til þess að ná rétti sínum í skiptum við stjórnvöld, koma í veg fyrir að menn séu beittir rangindum af hálfu opinberra aðila og stuðla á þann hátt að betri stjórnsýslu í landinu. Þetta atriði sem ég nefndi, réttaröryggi borgaranna í viðskiptum þeirra við stjórnvöld landsins, er raunverulega kjarni þessa frv. og kveikjan að því að það er flutt, bæði þmfrv. sem ég nefndi hér og síðan það stjfrv. sem í kjölfarið hefur verið upp tekið.

Með því að setja á stofn embætti umboðsmanns Alþingis skapar þingið einstaklingum, borgurunum, tækifæri til þess að leita réttar síns með skjótum og áhrifaríkum hætti í málum sem ekki heyra beinlínis undir dómstólana. Koma nú í hugann ýmis mál sem hér hafa verið á dagskrá Alþingis undanfarið.

Með þessu er tvímælalaust komið til móts við vaxandi óskir almennings um aukið aðhald að stjórnvöldum. Umboðsmaður Alþingis, ef samþykktur verður, er embættismaður sem tekur við kvörtunum á hendur opinberum stjórnvöldum og sýslunarmönnum frá fólki sem þykir misgert við sig á einhvern hátt. Umboðsmaðurinn rannsakar þessar kvartanir og kærur og ef þær teljast á rökum reistar gerir hann tillögur um á hvern hátt menn skuli fá leiðréttingu mála sinna. Hvílir þá sú skylda á stjórnvöldum að taka mál upp að nýju til afgreiðslu, úrskurðar, í ljósi niðurstöðu rannsóknar umboðsmannsins. Á þennan hátt er tvímælalaust stuðlað að auknu réttaröryggi í þjóðfélaginu, mannréttindi þegnanna betur tryggð en nú er og stjórnsýslan jafnframt gerð réttlátari og vonandi virkari. Með því er í raun grundvöllur lýðræðislegra stjórnarhátta treystur og betur búið að rétti einstaklingsins í þjóðfélaginu.

Ég skal ekki hafa fleiri orð, herra forseti, um tilgang og meginefni þessa merka máls sem hér er á dagskrá, en vil aðeins geta í mjög stórum dráttum þeirra brtt. sem allshn. leggur til að gerðar verði á stjfrv. í ljósi þmfrv. og annarra atriða, en þær eru prentaðar á þskj. 618.

Lagt er til að í stað þess að umboðsmaður sé kosinn að loknum hverjum kosningum, þannig að kjörtími hans verði raunverulega sá sami og starfstími ríkisstjórnar, þá verði hann kjörinn í Sþ. til fjögurra ára.

Í öðru lagi: Til þess að víkja honum úr starfi þurfi ekki einfaldan meiri hluta, þ.e. venjulegan þingmeirihluta, heldur þurfi aukinn meiri hluta. Alþingi geti ekki vikið honum úr starfi nema 2/3 hlutar þm. samþykki að víkja honum úr embætti. Með þessum báðum breytingum er staða umboðsmannsins gerð styrkari. Hún er tryggð þannig að það þarf nokkuð mikið til að koma til að honum verði vikið úr embætti. Það yrði ekki aðeins naumur ríkisstjórnarmeirihluti sem að slíkri aðgerð gæti staðið, heldur þarf meira til að koma. Umboðsmaðurinn er gerður óháðari ríkisstjórn með fyrri breytingunni, að hann sé ekki kjörinn ætíð um leið og nýtt þing er kjörið og láti af störfum þegar næstu kosningar fara fram.

Í þriðja lagi er bætt við í 2. gr. frv. að hlutverk umboðsmannsins sé að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslunni og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Þetta orðalag „að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins“ var ekki í greininni. En eins og fram kom í orðum mínum áðan, þá er það raunverulega kjarni starfs umboðsmannsins og því eðlilegt að það sé upp tekið í 2. gr. en það er ekki í frv. sem fyrir liggur.

Síðan er gerð breyting á 13. gr. Það varðar réttarstöðu eða starfsstöðu, starfskjör umboðsmannsins. Þar var aðeins tekið fram að hann skuli njóta sömu launakjara og hæstaréttardómarar. Það er ekki getið um eftirlaun hans þannig að réttarstaða hans er gerð tryggari með því að í brtt. segir að umboðsmaður skuli njóta sömu launa og annarra lögkjara og hæstaréttardómari eftir því sem við verður komið. Vitnar það m.a. til eftirlauna og annars slíks. Hér er um sambærilegt ákvæði að ræða og er í lögum um embætti saksóknara ríkisins.

Loks þótti nefndinni síðari mgr. 13. gr., um að umboðsmanni væri óheimilt að taka að sér stöðu eða starf hjá opinberum aðilum eða einkaaðilum ef það tengist með einhverjum hætti starfi hans sem umboðsmanns þannig að hætta sé á að hann fái ekki litið hlutlaust á málavöxtu í máli sem til hans kann að berast, sem hér væri verið að gera að því skóna að umboðsmaður væri með fangið fullt af aukastörfum hjá einkaaðilum eða opinberum aðilum. Það þótti ekki við hæfi. Þess vegna er þessi setning einfaldlega felld niður, en í staðinn kemur: Umboðsmanni er óheimilt að hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkafyrirtækja.