19.02.1987
Neðri deild: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3260 í B-deild Alþingistíðinda. (2947)

18. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. kosningalaganefndar (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það hafa setið fróðir menn yfir þessu frv. og skoðað það mjög gagnrýnum augum síðan þskj. kom fram og það hafa komið fram ábendingar um að á stöku stað í brtt. frá kosningalaganefnd megi orðalag vera skýrara og tilvísanir gleggri. Okkur þykir sjálfsagt að reyna að bæta úr þeim ágalla. Einkum þótti óljóst hvenær 1. áfanga úthlutunar jöfnunarsæta lyki eða það fundust dæmi þess að menn misskildu það og til að taka af öll tvímæli er rétt að taka fram að í honum ber að úthluta jöfnunarsætum á grundvelli atkvæðatalna sem nema 4/5 af kjördæmistölu eins og þær stærðir eru á undan hverri úthlutun. Þessum áfanga lýkur jafnskjótt og ekki finnast fleiri slíkar atkvæðatölur, enda hafi ákvæði d-liðar 2. mgr. 113. gr. um endurreikning kjördæmistölu áður verið beitt ef við á.

Þá hefur nefndin að athuguðu máli komist að þeirri niðurstöðu að viðlagaákvæði í 114. gr. sé óþarflega róttækt og leggur hún til nýtt ákvæði sem ekki felur í sér afturkall úthlutunar þurfi til þess ákvæðis að grípa. Þannig er lokið úthlutun, skv. tillögunni, í þeim kjördæmum, sem ekki tókst að fylla, án tillits til landsúrslita.

Ekki þykir ástæða til að vera með tilvísanir í hinum almennu úthlutunarákvæðum um það.

Vert er að geta þess að nefndinni eru ekki kunn nein raunveruleg eða tilbúin dæmi um að viðlagaákvæðum þessum hefði þurft að beita.

Þess vegna leggjum við fram á þskj. 648 brtt. í fimm liðum sem eru eins og ég sagði áðan til að skýra þann texta sem í kosningalögunum á að standa og taka af tvímæli og komast hjá misskilningi og þrætum. Hér er ekki um efnisbreytingar að ræða. Hér er einungis um að ræða skýrara orðalag.