23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3281 í B-deild Alþingistíðinda. (2981)

209. mál, sjómannadagur

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð varðandi það mál sem hér liggur fyrir.

Ég var einn af þeim sem áttu sæti í sjútvn. og fjallaði um þetta frv. þar ásamt félögum mínum. Þetta frv. er eins og fram hefur komið fram borið til að lyfta sjómannadeginum sem hátíðisdegi hjá sjómönnum og þjóðinni allri og festa hann í sessi. Sjómannadagur er og hefur verið hátíðisdagur einkum þeirra sem stunda fiskveiðar hér við land. Þar sem ég þekki til, á Austurlandi, hefur hann verið mikill hátíðisdagur og hafa ekki mikil vandkvæði komið upp í því sambandi.

Því er ekki að leyna að frv. ber merki málamiðlunar. Hér er verið að samræma sjónarmið sjómanna og útvegsmanna og þau rekast á í ýmsum tilvikum þó að á Austurlandi hafi þetta samstarf verið með ágætum, eins og ég gat um áðan, og skip hafi nær undantekningarlaust verið í höfn á sjómannadeginum.

Það er einkum varðandi 5. gr. sem voru skiptar skoðanir. Nefndin lagði nokkra vinnu í að reyna að samræma þau sjónarmið sem komu þar fram. Sjómenn lögðu mikla áherslu á að frv. gæfi ekki neina möguleika á að það yrðu nokkurs konar atkvæðagreiðslur um borð um það hvort ætti að vera í landi eða ekki. Á því tel ég að frv. hafi tekið. Ég tel að frv. hafi útilokað það með þeim breytingum sem á því eru gerðar. Hins vegar er gefinn þarna möguleiki á undanþáguákvæðum í 3. mgr. Allt er þetta til að samræma sjónarmiðin.

En ég vonast til þess að þessi lagasetning verði til að tryggja sjómannadaginn í sessi, veita honum þann sess sem honum ber. Þess vegna hef ég staðið að nál. án fyrirvara og mun samþykkja það eins og það liggur fyrir.