23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3281 í B-deild Alþingistíðinda. (2982)

209. mál, sjómannadagur

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Það er meira en mál að sjómannadagurinn sé festur í sessi með þeirri bindingu sem hér er fjallað um. Það hefur verið vikið nokkuð að þeim frávikningarmöguleikum frá reglunni sem tillagan ber með sér og haft á orði að það sé verið að fara sáttaleið á milli útvegsbænda og sjómanna. Mitt mat er að það sé ekkert síður vilji sjómanna almennt að hafa ákveðinn sveigjanleika í þessu efni vegna þess að sjómenn gera sér fulla grein fyrir því að þeir eru veiðimenn og það þarf ákveðinn sveigjanleika í veiðimennsku. Þess vegna þykir mér að þetta sé sett haganlega fram. Þetta er markvisst en með þó ákveðnum möguleika ef svo ber undir eftir því hvernig aflafengur er og tíð á veiðitímabilinu. Ég fagna því að þetta mál er á lokastigi og vona að það komist sem fyrst í höfn.