23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3284 í B-deild Alþingistíðinda. (2986)

18. mál, kosningar til Alþingis

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Frv. til breytinga á kosningalögum er nú loksins komið til okkar í þessari hv. deild og er ekki seinna vænna þar sem senn á að kjósa eftir þessum lögum, frestir að bresta á og í óefni komið hvað tímaskort varðar. Ég held að ljóst sé að við í þessari hv. deild verðum að greiða fyrir því eins og kostur er að hraða meðferð þessa máls. Ég held að þær breytingar sem gerðar voru á frv. í Nd. séu allflestar til bóta, en þó er það ekki alveg einhlítt.

Það er t.d. nokkuð ljóst að þau nýju endurreikningsákvæði sem komin eru inn í frv. eftir meðferð málsins í Nd. gera það endanlega alveg útilokað fyrir hinn venjulega mann að reyna að reikna út hver úrslit hafa orðið í hverju kjördæmi fyrir sig. Nógu erfitt var það nú áður. En ég held að þessi nýja útreikningsregla, sem felur í sér að stöðugt þarf að reikna upp tölurnar í viðkomandi kjördæmi, geri útslagið með að það er vonlaust fyrir hinn venjulega mann að botna nokkuð í þessari úthlutunaraðferð. Þetta er þeim mun lakara vegna þess að mér skilst að þessu hafi verið breytt í Nd. kannske meira af fagurfræðilegum ástæðum og til að koma í veg fyrir að menn væru kosnir með neikvæðan hluta að baki sér, eins og það heitir á fagmannamáli, en að það séu ekki bein efnisleg rök fyrir því að þessi breyting var gerð og því held ég að hún hljóti að teljast mjög hæpin.

Ég vildi hins vegar nota sérstaklega tækifærið til að vekja athyli á að það hefur ekkert verið hreyft við ákvæði 115. gr. og ég hef satt að segja ekki orðið var við að fjölmiðlar hafi rekið augun í það ákvæði. En staðreyndin er sú að eins og kosningalög liggja nú fyrir, í lögum frá 1984, er orðið alveg útilokað að kjósendur striki nokkurn mann út af lista eða geri þær breytingar sem hingað til hafa verið kallaðar útstrikanir og var það þó nógu erfitt, líka þetta atriði rétt eins og hitt, fyrir kjósendur að ná fram vilja sínum með útstrikunum samkvæmt gamla kerfinu.

Árið 1959 voru útstrikanir gerðar þrefalt erfiðari en áður var með sérstöku ákvæði sem var stungið inn í lögin á þeim tíma og þær hafa því lítið tíðkast síðan, útstrikanir, vegna þess að þær þurfa að vera svo þrælskipulagðar og það þarf að byggja upp svo skipulega herferð í þessa átt til að hún beri nokkurn tíma árangur. Menn treysta sér einfaldlega litt til að standa í því. Um það hefur verið rætt að þessu þyrfti að breyta, það þyrfti að gera útstrikanir aftur mögulegar, en með breytingunni sem var gerð 1984 var endanlega komið í veg fyrir þetta vegna þess að nú gengur ekki útstrikun upp, hún hefur ekki áhrif, nema meira en helmingur kjósenda viðkomandi flokks hafi strikað viðkomandi mann út. Það er því orðið hálfu erfiðara en nokkurn tíma áður var að láta útstrikanir hafa nokkurt gildi.

Ég vek á þessu athygli vegna þess að ég er ekki viss um að mörgum sé þetta ljóst og ég sé að Nd. hefur ekkert hreyft við þessu. Ég tel því að nefndin sem fær frv. til athugunar hljóti að verða að taka þetta til nánari yfirvegunar.