23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3288 í B-deild Alþingistíðinda. (2991)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Kvennalistinn á ekki fulltrúa í sjútvn. þessarar hv. deildar og er því ekki aðili að því nál. sem lagt hefur verið fram í þessu máli. Ég vil því láta það koma hér fram að við Kvennalistakonur erum sammála megininntaki þessa frv. og teljum það vel þess virði að gera þá tilraun með uppboðsmarkað fyrir sjávarafla sem hér er lagt til að gera.

Ég er einnig sammála þeirri brtt. sem sjútvn. hefur lagt til á þskj. 638 um að lengja gildistíma laganna þar sem ljóst er að upprunalegur gildistími er heldur stuttur til þess að nægileg reynsla fáist á þessa tilraun. Hins vegar hef ég athugasemd að gera við 1. gr. frv. og í því efni langar mig að beina spurningu til formanns sjútvn.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar skuli aðeins vera veitt til eins árs í senn. Þetta er harla stuttur tími og spurning hvort þetta ákvæði þyrfti að vera heldur rýmra vegna þess að uppboðsmarkaður er nokkuð stórt fyrirtæki, stofnkostnaður er töluverður og e.t.v. þarf slíkt fyrirtæki lengri tíma en eitt ár til að sanna tilverurétt sinn. Þá er þess m.a. að gæta að víða erlendis þar sem tíðkast að hafa uppboðsmarkað fyrir sjávarafla er jafnframt lögboðið að allur fiskur skuli settur á slíkan markað. Slíkt er ekki lögboðið hér þannig að hér á landi er því óvissuþáttur í þessu efni sem ekki er fyrir hendi annars staðar, sá óvissuþáttur hversu mikill fiskur fæst í þetta fyrirkomulag. Þess vegna vil ég spyrja formann sjútvn. hvort það hafi verið rætt í nefndinni að lengja heldur leyfistímann, að lengja hann úr einu ári t.d. í eitt og hálft eða tvö ár sem jafngildir þá nokkurn veginn þeim tíma sem lög þessi eiga að gilda.

Þetta vildi ég láta koma hér fram, virðulegi forseti, og geri að öðru leyti ekki athugasemdir við þetta frv.

Umræðu frestað.