23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3289 í B-deild Alþingistíðinda. (2993)

360. mál, skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Frv. það sem er lagt fyrir þessa hv. deild er um breytingu á lögum nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, ásamt síðari breytingum. Það er flutt í tengslum við frv. til tollalaga sem ríkisstjórnin lagði fram fyrir síðustu áramót. Eitt af þeim markmiðum sem stefnt er að með tollalagafrv. er að einfalda og greiða fyrir tollmeðferð á innfluttum sem útfluttum vörum til hagsbóta jafnt fyrir tollyfirvöld og innflytjendur sem og endanlega notendur innfluttra vara. Liður í heildarendurskipulagningu tollmeðferðar á vörum er upptaka almenns greiðslufrests á aðflutningsgjöldum samfara heimild til beins flutnings á vörum frá farmflytjendum til innflytjenda. Gert er ráð fyrir að afhending beint frá farmflytjanda fari fram gegn framvísun farmskírteinis og að lokinni lágmarksskráningu vörusendingar hjá farmflytjanda, en afhending aðflutningsskýrslu, vörureiknings og annarra tollskjala fari fram innan ákveðins frests talið frá skráningu vörusendingar.

Skv. 3. gr. laga nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, er óheimilt að tollafgreiða vörur nema staðfesting gjaldeyrisbanka liggi fyrir um að greiðsla hafi verið innt af hendi eða greiðsla tryggð t.d. með lántöku. Ákvæði þetta fær ekki samrýmst þeirri kerfisbreytingu sem hér að framan er vikið að því tollyfirvöldum er talið óheimilt að taka við greiðslu aðflutningsgjalds án þess að fyrir liggi að innflytjandi hafi áður greitt viðkomandi kröfu í banka eða tryggt greiðslu hennar. Í þessu frv. er því lagt til að ákvæði þar að lútandi í 2. og 3. málsl. 1. málsgr. 3. gr. laganna falli brott.

Í ljósi þeirrar stefnu íslenskra stjórnvalda að auka frelsi í viðskiptum og jafnframt í ljósi þeirrar þróunar er átt hefur sér stað á þessu sviði er eðlilegt framhald að reglur varðandi tollmeðferð verði einfaldaðar og er sú lagabreyting sem hér er mælt fyrir mikilvægur liður í þeirri einföldun. Þrátt fyrir þær breytingar sem hér eru lagðar til með því að fella brott 2. og 3. málslið 3. málsgr. 3. gr. laga nr. 63/1979 er gert ráð fyrir eftirliti gjaldeyrisyfirvalda eins og fram kemur í athugasemdum með frv. Virðulegi forseti. Ég tel ekki þörf á að fylgja þessu frv. úr hlaði með öllu fleiri orðum, en legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn