10.10.1986
Sameinað þing: 1. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Minning látinna manna

Aldursforseti (Stefán Valgeirsson):

Ég býð hv. alþingismenn og starfsfólk Alþingis velkomið til starfa.

Þá verður minnst látins fyrrverandi alþingismanns.

Jón G. Sólnes, fyrrverandi alþingismaður og bankaútibússtjóri á Akureyri, andaðist á heimili sínu sunndaginn 8. júní 75 ára gamall.

Jón G. Sólnes var fæddur á Ísafirði 30. september 1910. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Vigfús sjómaður þar Þorkelsson vinnumanns í Lambadal ytra í Dýrafirði Árnasonar og Hólmfríður Jónsdóttir bónda í Arnartungu í Staðarsveit síðar pósts á Ísafirði Þorkelssonar. Kjörforeldrar Jóns voru hjónin Edvard Solnes formaður á Ísafirði og Siglufirði, síðar útgerðarmaður á Akureyri og Lilja Daníelsdóttir bónda í Tjarnargarðshorni í Svarfaðardal Jónssonar.

Jón G. Sólnes lauk gagnfræðaprófi á Akureyri vorið 1926. Að prófi loknu hóf hann störf í útibúi Landsbanka Íslands á Akureyri og var þar lengst af bókari til 1961 er hann var ráðinn útibússtjóri. Því starfi gegndi hann fram á árið 1976 er hann lét af því starfi að eigin ósk eftir rúmlega 50 ára starfsferil í bankaútibúinu. Hluta af árinu 1937 starfaði hann í banka í London og sótti þar námskeið í bankafræðum.

Jón G. Sólnes átti sæti í bæjarstjórn Akureyrar samfleytt rúma þrjá áratugi, frá 1946 til 1978, og síðar eitt kjörtímabil, 1982-1986. Hann var forseti bæjarstjórnar 1962-1966 og 1970-1974 og átti lengi sæti í bæjarráði. Hann var formaður stjórnar Brunabótafélags Íslands 1955-1979, í stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands 1966-1971 og í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins 1974-1978. Árið 1974 var hann skipaður í Kröflunefnd og var formaður hennar. Við alþingiskosningar 1971 var hann kjörinn varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra og tók tvisvar sæti á Alþingi á því kjörtímabili. Árið 1974 var hann kosinn þingmaður kjördæmisins og sat á Alþingi fram á haust 1979. Alls átti hann sæti á níu þingum. Hann var einn af fulltrúum Íslands á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1969, 1970 og 1979 og var fulltrúi Íslands í Þingmannasambandi Atlantshafsbandalagsríkja 1974-1979.

Jón G. Sólnes fluttist níu ára gamall með kjörforeldrum sínum til Akureyrar. Ungur að árum tók hann sér stöðu innan Sjálfstæðisflokksins og var einn forgöngumanna að stofnun Félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Af störfum sínum í banka og bæjarstjórn varð hann gjörkunnugur íbúum og atvinnuháttum í kaupstaðnum og nágrenni hans. Hann var einn af áhrifamestu bæjarfulltrúunum alla tíð. Á Alþingi lét hann allmikið að sér kveða eftir að hann tók hér sæti lífsreyndur maður. Hann kom víða við í félagsmálum innan stjórnmálaflokks síns og utan, hélt fast við skoðanir sínar og hugsjónir, var opinskár og hreinskiptinn. Um menn slíkrar gerðar stendur gjarnan styr og slíkt kom einnig í hlut Jóns G. Sólness. Hann var trúr málstað sínum til æviloka og vann með áræðni og atorku fram til síðasta dags.

Ég vil biðja þingheim að minnast Jóns G. Sólness með því að rísa úr sætum. - [Þingmenn risu úr sætum.]