28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

81. mál, skipan í héraðslæknisembætti á Vestfjörðum

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og mér heyrist að hæstv. núv. menntmrh. sé ánægður með þau. En það er auðvitað hans mál.

Ég vil vitna til þess sem hæstv. ráðherra sagði. Hún sagði: skipaður að lögum. Og ég vitna til þess sem segir í greinargerð viðkomandi læknis og þar segir, með leyfi forseta:

„Í 6. gr. heilbrigðisþjónustulaganna nr. 59/1983 segir svo:

„Ráðherra skipar einn af starfandi heilsugæslulæknum héraðsins sem héraðslækni til fjögurra ára í senn.“ Ljóst er af þessari lagagrein að hefði ég verið settur heilsugæslulæknir í Bolungarvík til næsta vors eins og ég bauðst til hefði ég að sjálfsögðu verið starfandi heilsugæslulæknir í héraðinu og því bær að sinna störfum héraðslæknis. Hins vegar hefði orðið að leita afbrigðis varðandi tímalengd setningar og var mjög eindregið mælt með því af landlæknisembættinu að undanþágu yrði leitað.“ Þannig að það voru engin lög sem komu í veg fyrir það að farin yrði hin eðlilega leið og sjálfsagða með fyrrverandi héraðslækni.

Hér er að mínu viti gengið á svig við eðlileg vinnubrögð. Og ég ítreka að viðkomandi læknir, án þess að ég vilji vera að draga inn nöfn eins eða annars, telur að sér hafi verið ýtt úr starfi. Í hans greinargerð dregur hann saman sín viðskipti við hæstv. heilbrmrh., með leyfi forseta:

„1. Heilbrmrh. vanmetur þörf Bolvíkinga og annarra landsmanna fyrir samfellda læknisumsjá, þ.e. setu heilsugæslulæknis til lengri tíma.“

Þetta er númer eitt, þetta er rétt.

„2. Heilbrmrh. gerir sér ekki grein fyrir því hve erfitt er að fá fasta lækna að einyrkjastöðvum, þ.e. H1-stöðvum, í dreifbýli. Hún hafnar því tilboði sem leyst hefði vanda Bolvíkinga á næsta vetri.

3. Heilbrmrh. sviptir verðandi héraðslækni möguleikanum á að starfa við hlið hins fráfarandi næsta haust og vetur svo sem orðið hefði samkvæmt samkomulagi við þann sem var skipaður á eftir. Sýnir þetta hversu hátt hæstv. ráðherra metur hlutverk fyrrv. héraðslæknis.

4. Heilbrmrh. metur lítils viðleitni undirritaðs í starfi heilsugæslulæknis í Bolungarvík í sjö ár og í starfi héraðslæknis Vestfjarða s.l. fimm ár.“

Ég held að þessi orð, höfð eftir jafngrandvörum manni og hér á hlut að máli, segi nánast allt um það hvað hefur gerst í þessu máli. Og kannske hefur það verið fyrst og fremst það sem réði. Mig minnir að hæstv. ráðherra hafi sagt: Þetta er fyrsta konan sem gegnir slíku embætti án þess að ég sé á nokkurn hátt að kasta rýrð á viðkomandi lækni. Ég hygg að með því að draga þetta fram í umræðu ætti þetta að geta orðið að kenningu þeim sem á eftir koma þannig að vinnubrögð af þessu tagi innan heilbrigðiskerfisins, ég tala nú ekki um þeirra sem ráða ferðinni þar, ættu að vera liðin tíð.