23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3309 í B-deild Alþingistíðinda. (3000)

359. mál, stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Ég sá þetta frv. fyrst áðan í fullbúinni gerð, en maður var svo sem búinn að sjá og lesa helstu þætti þess áður. Raunar hefði ég ekki þurft þess. Ég er, eins og Geir Hallgrímsson og fleiri góðir sjálfstæðismenn, andvígur þessari leið. Mér segir svo hugur um að það séu ekki öll kurl komin til grafar í þessu máli. Mér segir svo hugur um að þetta mál sé alls ekki búið þó að hæstv. ríkisstjórn takist að hnoða þessu í gegn á síðustu dögum þingsins.

Í rauninni þarf maður ekki önnur rök en brjóstvit í þessum efnum til að láta segja sér að þessi leið er ófær eins og seðlabankanefndin sagði. Það er eins og einhver ósýnileg hönd hafi teflt þessu máli í tímaþröng þar sem afleikir voru fyrirsjáanlegir.

Það er sjaldgæft að á þessu tveimur og hálfu ári sem ég hef hér verið hafi ég þurft að taka undir rök stjórnarandstöðu svo til orð fyrir orð, en svo hefur mér farið nú. Hv. þm. Jón Kristjánsson talaði fyrir hönd Framsfl. áðan. Hann hafði að vísu þann fyrirvara að einstakir þm. Framsfl. hefðu ekki einn hug í öllum greinum, en hann talaði þannig að fyrir hönd Framsfl. mundi hann samþykkja frv. Ég vil fá að ráðgast fyrst við mína samvisku um hvað ég geri í þessu máli. Ég er ekki reiðubúinn að veita því brautargengi gegnum þingið eins og er. Ég segi það hér og nú.

Hæstv. ráðh. hefur látið þess getið í fjölmiðlum að báðir þingflokkarnir hafi samþykkt málið. Um mína afstöðu í mínum þingflokki hefur held ég enginn velkst í vafa síðan þetta mál kom á dagskrá fyrir ári eða svo.

Ég sagði að ég þyrfti að ráðgast um þetta mál við mína samvisku eins og þm. ber. Ég vildi líka gjarnan fá að ráðgast um það betur við mína umbjóðendur, við mín flokkssystkin sem nú halda landsfund bráðum. Ég segi það aftur að ég er ekki reiðubúinn að ljá þessu máli brautargengi nú.