23.02.1987
Neðri deild: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3336 í B-deild Alþingistíðinda. (3019)

119. mál, umferðarlög

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð út af athugasemdum hv. 5. þm. Austurl. þar sem hann ræddi um torfæruhjólin. Nú vitum við að náttúruverndarlög og önnur lög hafa verið brotin í sambandi við akstur utan vega. Þar eiga jepparnir stærstan hlut að máli. Það er satt að segja grátlegt að horfa upp á landið eins og búið er að fara með það af þeirra völdum. Ég er þeirrar skoðunar að þessi hjól, þessi léttu hjól með breiðum dekkjum, þau bæti þetta ástand, þau verði til bóta en ekki til skaða. Þetta eru það létt hjól og þau eru setin af einum manni. Hann getur kannske hlaðið einhverjum farangri á þetta sem yrði þá væntanlega ekki þungur, en þetta mundi ábyggilega bæta ef það væri hægt að stöðva hin ósköpin sem jepparnir eru í sambandi við þessi mál. Ég endurtek að það er grátlegt að sjá hvernig búið er að fara með landið af þeirra völdum. Það er eins og það sé árátta, það er ekki einasta hjá unglingum, það eru fullorðnir menn sem æða upp á hvern þann hól sem þeir halda að þeir geti komist. Við sjáum þessi sár á jörðinni, við sjáum sárin eftir þessa meðferð þegar þeir þurfa að hrökklast aftur á bak vegna þess að krafturinn var ekki nógur í þessum tækjum.

Ég er ekki hræddur við þessi hjól að því leyti að þau skemmi meira, ég held að þau fari betur með landið, en ég vil þó takmarka þau helst við það að þau yrðu einungis nýtt utan þéttbýlis. Það er erfitt að segja að það eigi að banna að kaupa þau í þéttbýli, ég þori ekki að koma með þá tillögu, en að þau verði ekki notuð nema sem björgunartæki og önnur tæki til ýmissa þæginda fyrir bændur og þá sem eiga erindi um torfæruleiðir landsins sem eru afar margar. Ég man ekki hvaða hv. þm. það var, ég held að það hafi verið hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, sem minntist á rafveiturnar í þessu sambandi, þar hafa fullorðnir menn verið á ferð og sárin eru mörg eftir þá.

Ég ætla aðeins að láta það koma fram að ég er ekki á móti þessum tækjum ef hægt væri að stöðva hin ósköpin þar sem jepparnir eru. Auðvitað þarf að koma lögum yfir þessi tæki, bæði tryggingaskylda þau eða skrásetja þau eftir lögum, það er náttúrlega útilokað annað.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri en af svona hálfgerðum hrekk vil ég þó benda hér á 32. gr. Þar segir í b-lið:

„Þegar ekið er á móti öðru ökutæki, þannig að valdið geti ökumanni þess glýju," - og svo segir neðar:

„Ljós má eigi nota þannig að valdið geti öðrum vegfarendum glýju.“ Þetta orð „glýja“ er ekki eftir minni málvitund rétt. Glýja hélt ég að væri allt annað en þetta.