28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

81. mál, skipan í héraðslæknisembætti á Vestfjörðum

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Jafnstutt athugasemd og hæstv. ráðherra, er það ekki? (Forseti: Hæstv. ráðherra talaði ekki undir því fororði að hann væri að gera örstutta athugasemd. Hæstv. ráðherra talaði sem ráðherra.) Að sjálfsögðu talar hæstv. ráðherra sem ráðherra.

Það er augljóst að hæstv. heilbrmrh. hefur ekkert sett sig inn í það sem er að gerast úti í hinum dreifðu byggðum að því er varðar læknisþjónustu. Það var auðheyrt á hans mæli áðan. Ég tel mig þekkja nokkuð betur til í þeim efnum og ég er út af fyrir sig ekki hissa þó að ýmsir af landsbyggðinni gagnrýni harkalega vinnubrögð núv. hæstv. heilbrmrh. að því er varðar þessi mál. Þar virðist þröngsýnin einvörðungu ríkja. Hæstv. ráðherra kvartaði undan því að hann hefði ekki hafnað starfi viðkomandi héraðslæknis. Hæstv. ráðherra hafnaði því formlega að viðkomandi einstaklingur héldi áfram starfi sem héraðslæknir tiltekinn tíma. Ég sé ekki að það sé hægt að hafa annað sjónarmið uppi varðandi svona vinnubrögð en að starfi mannsins sé hafnað. Ég er ekki hissa á því og verð ekki hissa á því ef það heldur áfram, eins og hefur gerst undir stjórn hæstv. núv. heilbrmrh., að meira og minna molni úr þjónustunni við landsbyggðina. Vonandi verður ekki svo. En ég hygg að hæstv. ráðherra hafi heyrt það víðar en frá mér að ýmsir sem gegna starfsemi varðandi heilbrigðisstéttirnar úti um landið eru sáróánægðir með það hvernig haldið er á málum af hálfu hæstv. heilbrmrh. Það er skilningsleysi, það er þekkingarleysi sem þar ræður ferðinni og hæstv. ráðherra ætti, og ég ræð honum heilt, að kynna sér betur þörfina fyrir ábyrga aðila til starfa í heilsugæslukerfinu og heilbrigðisþjónustunni úti á landsbyggðinni. Þar er þörfin fyrir fólk sem vill vinna, hefur hæfileikana og hefur sýnt að það er starfi sínu vaxið. Ég efast um að víða finnist eins vel uppbyggt kerfi eins og fyrrv. héraðslæknir á Vestfjörðum byggði upp að því er varðar Vestfirði. Og slíkum mönnum á að reyna að halda á þeim svæðum sem mest þurfa á þeim að halda.