24.02.1987
Sameinað þing: 54. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3341 í B-deild Alþingistíðinda. (3029)

309. mál, fangelsismál

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Í fjórða lagi er spurt: „Hve mörg vistunarrými eru alls í fangelsum landsins?" Alls eru 108 fangapláss í landinu, þar af 13 fyrir gæsluvarðhald. Því eru 95 pláss til afplánunar á dómum.

Í fimmta lagi er spurt hvort þörf sé á fleiri vistunarrýmum og ef svo er, hversu mörgum og hversu fljótt. Á síðasta ári voru fangelsi landsins nær full allt árið og miðað við þann dómafjölda sem nú er til fullnustu í ráðuneytinu virðist fyrirsjáanlegt að svipað ástand verði þetta ár. Mjög brýnt er að byggja fangelsi í Reykjavík er leysi Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og Síðumúlafangelsið af hólmi, en þau eru mjög vanbúin til síns brúks miðað við þær lágmarkskröfur sem eðlilegt er að gera til slíkra stofnana. Minna má á að árið 1978 var steypt plata undir fangelsi upp við Tunguháls, en síðan hafa ekki fengist fjárveitingar til að halda áfram við þá byggingu.

Aðstæðum á Litla-Hrauni, sem er stærsta fangelsið með 52 fangapláss, er að mörgu leyti ábótavant. Væri æskilegt að endurskipuleggja það m.a. á þann veg að fangaklefar í elsta hluta hússins væru lagðir niður og sá hluti hússins tekinn undir þjónustuálmu. Auk þess er óæskilegt að ekki sé hægt að aðgreina fanga meira en nú er og fangar sem t.d. eru í fyrstu afplánun þyrftu ekki að afplána með öðrum afbrotamönnum og einnig skapa aðstöðu til að sinna félagslegum þörfum fanga betur. Sem niðurstöðu má segja að fangaplássum á næstu tveim til þrem árum þyrfti að fjölga um tíu til tuttugu, auk þess sem byggja þarf fangelsi sem leysi Hegningarhúsið og fangelsið við Síðumúla af hólmi.

Dómsmrn. hefur ítrekað óskað eftir því að fá fjárveitingar til þess að gera endurbætur á fangelsunum með nýbyggingum og viðhaldi. Því miður hefur það ekki fengist fyrr en á fjárlögum þessa árs var veitt nokkur upphæð til viðhalds og endurbóta á þeim og er vonast til þess að á þessu ári verði hægt á þann hátt að raðast í allra brýnustu framkvæmdirnar, en það leysir ekki þann vanda sem Hegningarhúsið á Skólavörðustíg og Síðumúlafangelsið er.

Hv. fyrirspyrjandi vék að því að það þyrfti að ljúka fullnustu dóma strax eftir að þeir hafa verið kveðnir upp. Dómsmrn. sendir út kvaðningar um slíkt strax og það hefur fengið dómana til sín þannig að það stendur ekki á því. Hins vegar er það svo að viðkomandi aðilar óska oft eftir því að fá frest á fullnustu vegna margvíslegra aðstæðna hjá þeim og er reynt að verða við því innan ákveðinna takmarka ef færð eru rök fyrir slíku þó ég hafi í slíkum tilvikum lagt áherslu á það við viðkomandi aðila að það sé best fyrir þá að ljúka afplánuninni sem fyrst. Þar er ekki við dómsvaldið eða framkvæmdarvaldið að sakast heldur er það þá að beiðni viðkomandi aðila.