24.02.1987
Sameinað þing: 54. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3345 í B-deild Alþingistíðinda. (3035)

349. mál, dýralæknisembætti

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. er nú bara með útúrsnúninga. Ég nefndi kosningar aldrei á nafn í mínu máli og ég veit ekki hvað í ósköpunum gaf honum tilefni til að ætla það að ég ætlaðist til þess að Dýralæknafélag Íslands færi að kjósa um menn í þessum efnum. Ég tel koma til greina að breyta dýralæknalögunum, t.d. í samræmi við heilbrigðislög og önnur slík þar sem fagaðilar hafa lögbundinn umsagnarrétt eða jafnvel tillögurétt til þess ráðherra eða þess yfirvalds sem veitir tilteknar stöður. Og ég teldi það mjög æskilegt.

Ég veit það, hæstv. ráðh., að dýralæknaembætti eru ekki bara fyrir dýralækna. Þeir fara til mannalæknis eins og aðrar mannlegar verur sem veikjast. Það eru auðvitað dýrin og landbúnaðurinn sem á að njóta dýralæknaþjónustunnar. Það er alveg rétt, hæstv. ráðh. Við skulum hafa dýralæknaþjónustuna í huga þegar við ræðum þessi mál vegna þess að ég óttast að ef þessi starfsaldursregla verði með öllu sniðgengin og ekkert annað gert í staðinn leiði það til þess að ákveðin erfið og tekjurýr héruð sitji uppi dýralæknislaus og þess vegna er þessi fsp. fram borin þó að hæstv. landbrh. virðist ekki hafa áttað sig á því enn þá.