24.02.1987
Sameinað þing: 54. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3346 í B-deild Alþingistíðinda. (3036)

355. mál, símaþjónusta

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég er hérna með fsp. til samgrh. um símaþjónustu. Það hefur mikið verið um það talað og skrifað í blöðum að breytingar hafi átt sér stað á því gjaldi sem tekið væri af símanotendum, bæði daggjaldi og helgidaga. Ég vildi þess vegna gjarnan fá að heyra um það hvaða breytingar hefðu orðið á því. Eins hefur líka verið rætt um erfiðleika, eins og við þekkjum, að stundum hafi verið erfitt að ná á milli ýmissa staða. Það eru viss svæði sem hefur verið mjög erfitt að ná til, sérstaklega á álagstímum. Það hefur verið rætt um að bæta úr þessum þáttum og það er nauðsynlegt að fá að heyra líka um það.

Svo er það sem felst kannske líka í þessum spurningum en það er hvaða áætlanir eru gerðar um lagfæringar á símakerfinu sem er ákaflega þýðingarmikið öryggistæki eins og allir vita. Spurningarnar hljóða svona:

„1. Hvaða breytingar hafa orðið á afnotagjaldi síma á síðustu fjórum árum?

2. Hvaða breytingar hafa verið gerðar á skrefatalningu: á dagtaxta, á nætur- og helgidagataxta?

3. Hvað hefur verið gert til úrbóta á þeim svæðum þar sem síminn verður óvirkur vegna of mikils álags?

4. Hver er áætlun um lagfæringu svo að síminn geti verið það öryggistæki sem honum hefur verið ætlað?"