24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3362 í B-deild Alþingistíðinda. (3040)

365. mál, vegáætlun 1987-1990

Helgi Seljan:

Herra forseti. Hér er komið að einu af þeim málum sem við köllum stóru málin á Alþingi og við bíðum ævinlega eftir með nokkurri eftirvæntingu hvernig til muni takast um og skiptir okkur afarmiklu máli.

Þessi till., sem hæstv. ráðh. hefur nú mælt fyrir til þál. um vegáætlun til næstu fjögurra ára, var lögð fram í gær og aðeins nokkur atriði sem hægt er að tæpa á nú. Ég get þó ekki látið hjá líða að þakka hæstv. ráðh. fyrir mjög glögga og greinargóða ræðu þar sem komið var víða við og tekið á helstu þáttum samgöngumála í víðustu merkingu þess orðs. Þessi ræða sýndi hvort tveggja, góða yfirsýn hæstv. ráðh., sem enginn efar að er mikil og góð í þessum efnum, og glöggt og skýrt upplýsingastreymi frá Vegagerð ríkisins, enda vitað að þar eru óvenjuhæfir starfskraftar sem ævinlega eru reiðubúnir að veita þm. hinar bestu upplýsingar sem hægt er. Ég fullyrði að þó ég sé ekki ætíð sammála þeim ágætu mönnum sem ráða á þeim bæ virði ég hvort tveggja, ágæta upplýsingagjöf þeirra almennt og hrein og bein samskipti og heiðarleg í hvívetna sem er meira en hægt er að segja um margar aðrar opinberar stofnanir.

Þessi ræða hæstv. ráðh. var glögg og greinargóð eins og ég sagði áðan, enda má segja að hæstv. ráðh. hafi farið vítt um vegi, næstum um allt vegakerfi landsins, án þess að hafa í nokkru verið úti að aka í neikvæðri merkingu þeirra orða og er ekki nema gott um það að segja að Alþingi sé flutt jafnglögg og greinargóð úttekt á samgöngumálum, stöðu þeirra, þróun undanfarið og því sem hægt er að reikna með fram undan.

Hæstv. samgrh. lætur nú skammt stórra högga á milli hér í Alþingi og ég skil vel að hann vilji í lokin á þessu kjörtímabili láta allar sínar langanir og þrár rætast, ef svo mætti að orði kveða, eftir sveltistefnu liðinna ára. Hafnaáætlunin sem liggur nú á borðum manna er glöggt dæmi um það sem ráðherra hefði án efa viljað gera á undanförnum árum, en er þveröfugt við það sem hefur verið í raun. Lántaka til Egilsstaðaflugvallar, sem þm. seinni kjörtímabila eiga auðvitað að standa undir, er líka gott dæmi um þetta og ber að fagna því og nú vegáætlun þó þar sé um óútfyllta hluti að ræða að nokkru, eins og reyndar í hinu einnig.

Ég er alveg sannfærður um að hæstv. ráðh. hefur oft verið ofurliði borinn þegar hann hefur verið að reyna að klóra í bakkann varðandi framlög til samgöngumála. Ég fullyrði það. Ég veit áhuga hans í sambandi við þetta og ég held að dæmið sem hann tók áðan um það að taka hluta af bensínverðinu, sem lækkaði mjög verulega, langt niður fyrir rauða strikið sem samið var um á sínum tíma, sé kannske ærið merki um dapurlegt hlutskipti þessa hæstv. ráðh. í ríkisstjórninni, þar sem hann lýsti því að hann hefði verið ofurliði borinn með þá skynsamlegu tillögu í ríkisstjórninni og þá trúlega af hæstv. fjmrh., formanni síns flokks, og hæstv. forsrh. einnig, formanni hins stjórnarflokksins, ásamt öðrum liðsmönnum sem þar hafa gengið svo skammsýna götu sem menn gengu í því efni.

Ég get lýst því yfir að ég er hæstv. ráðh. hjartanlega sammála í þessu efni, enda var sú tillaga um að nýta þetta til framkvæmda í vegamálum þegar reifuð í umræðum á Alþingi af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni á síðasta þingi og bent á þar og flutt um það till. að þetta yrði nýtt beinlínis, það forskot sem þarna kom, eins og hæstv. ráðh. gerði svo síðar tillögu um í ríkisstjórninni en var ofurliði borinn eins og hann lýsti dapurlega og með mikilli hryggð í röddinni áðan. Ég held nefnilega að hæstv. ráðh. sé býsna vel meinandi og vel vitandi um nauðsyn og þarfir í þessum efnum, en hann hefur bara ekki fengið að ráða ferðinni. Það er vitanlega mjög dapurlegt hlutskipti fyrir fagráðherra sem hefur áhuga á málum, eins og hæstv. samgrh. hefur margoft sýnt að hann hefur, og ég tala nú ekki um þegar jafnskapheitur maður og allir vita að hæstv. samgrh. er verður að una því hlutskipti að beygja sig í duftið hvað eftir annað, jafnvel þegar hann er með allra skynsamlegustu tillögur sem hafa sést og heyrst úr þessari ríkisstjórn um alla hennar daga.

Það fer svo ekkert á milli mála að maður óskar honum til hamingju með að fá nokkra útrás fyrir þetta núna á lokadögum þingsins, með hafnaáætlun, með tillögu um Egilsstaðaflugvöll og með vegáætlun núna, fá nokkra útrás fyrir það sem samráðherrar hans hafa hindrað hann í gott að gera allt kjörtímabilið. Ég get út af fyrir sig vel unnt honum þess, en annað er svo hvað við verður gert í alvörunni og hverjir niðurskurðarpostular koma til valda og bregða kutanum á bjartsýna loftkastala hæstv. ráðh. Ég segi loftkastala miðað við rauntölur þess tíma sem gildir því það eru auðvitað þær tölur sem gilda og við tökum mark á. Hinar eru tölur sem eru meira og minna út í loftið og þar af leiðandi loftkastalar en full þörf er á að byggja úr varanlegra efni en lofti.

Hér og nú þá skal ekki tíunduð þýðing vega, samgangna sem bestra og samgangna í heild, eins og hæstv. ráðh. kom inn á í lokaorðum sínum. Þar er hægt að taka undir hvert orð. Samgangna milli landshluta, innan landshluta, milli byggðarlaga. Hér er auðvitað um að ræða þá þætti sem skipta sköpum um öll samskipti á hvers konar þjónustusviðum og skipta sums staðar sköpum um framtíð byggðar í raun. Alla landsmenn snertir þessi þáttur. Hæstv. ráðh. hefur gert hér ítarleg skil á því hversu suðvesturhornið þurfi mjög á þessu að halda þannig að fólk á þessu horni þyrfti ekki síður að huga að mikilvægum verkefnum sem hann lagði mjög mikla áherslu á hér og ég ætla ekki að draga úr, en það ætti þá að tryggja að öll þjóðin stæði að baki átaki sem bestu í vegagerð og þeirri skattlagningu sem til þyrfti að koma svo að þessi vegagerð yrði sæmandi og það átak yrði gert sem langtímaáætlunin gerði ráð fyrir á sínum tíma og ég skal nú koma nokkuð að.

Það var fullur einhugur hér á Alþingi um markmiðin sem sett voru fram í langtímaáætlun í vegagerð. Það markmið sem þar var sett var í senn mjög skynsamlegt og eðlilegt. Ákveðinn hundraðshluti af þjóðarframleiðslu er nefnilega sanngjörn viðmiðun í þessum efnum. Því betur sem árar í þjóðarbúskap okkar, því meira getum við gert og betur í okkar samgöngumálum, í okkar vegaframkvæmdum og svo aftur öfugt. Hér er um rétta og eðlilega viðmiðun að ræða. Því er það þeim mun ergilegra, að maður taki nú ekki sterkara til orða en það, að þegar meira hefur verið til skipta varðandi þjóðarframleiðsluna, þegar góðærið hefur farið svo langt fram úr björtustu vonum manna sem raun ber vitni, skuli samgöngumálin ekki hafa notið meira góðs af því með tilliti til þeirrar þýðingar sem þau hafa en raun ber vitni.

Hæstv. ráðh. sagði: Það hefur verið staðið að miklu leyti við flest þau verkefni sem langtímaáætlun gerði ráð fyrir, en fjármagnið til hennar hefur verið mjög skert. Markið sem menn settu sér í þessum efnum með 2,4% af þjóðarframleiðslunni var að vísu hátt, en það var full þörf á því og enginn efar það. Þessi vegáætlun er líka því marki brennd. Þegar þessu raunverulega ári sleppir, árinu 1987 er vitanlega gert ráð fyrir því að þessu 2,4% marki af þjóðarframleiðslunni verði náð þó að þarna standi önnur framlög óráðstafað varðandi skilgreiningu á því sem ég kem að aftur síðar.

Ég er þó viss um að vegna þess að slíkur einhugur var um þetta markmið, að við skyldum verja 2,4% af okkar þjóðarframleiðslu til þessa þáttar, hefur hæstv. ráðh. haft einhverja fótfestu í því máli ef maður miðar t.d. við hafnamálin sem hafa fengið hina hraklegustu útreið. Ég er sannfærður um að einmitt þetta hefur valdið því að niðurskurðarhnífnum hefur ekki verið beitt jafngrimmilega í sambandi við vegamálin og hefur það þó verið gert í nægilega ríkum mæli. Ég nefndi áðan að enn einu sinni sjáum við rauntölur þess árs sem við erum að fjalla um, þ.e. 1987, sem er ekki nema hluti af því sem átti að vera. En næst skal efna allt. 1988, 1989 og 1990 skal efna allt saman sem markmið var sett um. Bara eitt ár enn, bara einn dans enn með lágu prósentunni. Síðan á allt að réttast af. Mikil er sú trú sem hæstv. núv. ríkisstjórn hefur á næstu hæstv. ríkisstjórn að hún skuli ætla henni að stökkva úr 1,5% upp í 2,4% af þjóðarframleiðslu strax á næsta ári. 1,5% skal það vera í ár, 0,9% er þá skerðingin miðað við það mark sem sett hefur verið.

Því miður er það auðvitað rétt að árið 1987, sem við sjáum á fyrstu síðu þessarar till., er ár raunveruleikans. Það er það ár sem við höfum. Hitt eru ár óskanna þar sem þrá ráðherrans fær ærna útrás. Ég skal játa það. Og ég ann honum þess hlutskiptis sannarlega að fá vissa útrás í því að setja þessar tölur á blað. Ég ætla líka að vona það, eins og hann tók fram áðan, hvort sem hann verður stjórnarandstæðingur eða stjórnarsinni, að hann fái nógu marga liðsmenn hér á Alþingi til að ganga þvert á þá niðurskurðarstefnu sem hann hefur orðið að búa við að því er hann sagði sjálfur frá áðan í þeirri hæstv. ríkisstjórn sem hann er nú bráðum trúlega að hætta í - eða sem vonandi er að leggja upp laupana ef maður mætti orða það svo kurteislega.

Nokkrar tölur hér að lútandi er rétt að skoða. Í því ljósi er rétt að skoða að þessi framlög skyldu fara vaxandi á þeim árum sem ég tek hér sem dæmi, framlögin skyldu fara mjög vaxandi og ná þessu 2,4% markmiði. Ef við tökum nýframkvæmdir á sambærilegu verðlagi frá 1983 eru þær 1983 926 millj. kr., 1984 1065 og síðan fer að síga aftur niður á við. Hér er um nýframkvæmdir að ræða. 1985 fer þetta niður í 1054 millj. kr., 1986 1010 millj. kr. og í ár, á þessu lokaári, ári raunveruleikans, niður í 913. Allt er þetta á eina bók, því miður. En það er rétt, sem hæstv. ráðh. kom inn á, að það hafa ýmis atvik valdið því að það hefur ekki farið eins illa og þessar tölur gefa tilefni til.

Ég ætla að koma að útboðsþættinum sérstaklega á eftir sem hæstv. ráðh. tíundaði hér áðan. Vitanlega hefur olíuverðslækkunin haft gífurleg áhrif hér varðandi bundna slitlagið og ýmsar aðrar ytri aðstæður bætt mjög úr og eins að menn hafa farið út í ódýrari og skynsamlegri lausnir um leið, eins og hæstv. ráðh. benti á, og drýgt þar af leiðandi framkvæmdir og teygt verulega úr þeim.

En það er kannske rétt að snúa sér að því, vegna þess að það er í raun og veru aðaleinkenni þessarar till. til þál. um vegáætlun, að virða fyrir okkur önnur framlög ríkissjóðs en markaðar tekjur, þ.e. það sem á að gera árið 1988 og áfram, þá tölu sem á að verða svo unaðslega há þá. Ég nefni sem dæmi um þetta hver voru framlög ríkissjóðs utan við markaðar tekjur. Árið 1981 var um 973 millj. að ræða, árið 1983 780 millj. kr., árið 1985 705 millj. kr., í fyrra lækkaði þetta niður í 578 millj. kr. Allt er þetta á sambærilegu verðlagi. Nú, og það þarf ekkert sambærilegt verðlag þar, er talan núll. Hún er staðfest hér á fremstu síðu. Núll skulu önnur framlög vera í ár, en þau skulu verða býsna há á næstu árum. Það er þetta núll sem á að vísa okkur veg til bjartari tíðar á næstu árum. Það er þetta núll sem á að skína okkur sem sól, enda reyndar kringlótt eins og sólin og á þess vegna trúlega að gefa álíka birtu fram á veginn til okkar.

En ég segi: Því miður. Það læðist að manni sá grunur að af því að hæstv. ráðh. er í framboði í vor með sínum flokkssystkinum og það á að kjósa í vor eins og allir vita sé ekki amalegt að geta veifað vegi hér og þar út á eitthvert óráðstafað núll sem reyndar er í raun og veru. Ég sé alveg fyrir mér að hægt verður að hampa höfnum hér og þar á næstu árum sem hafa verið sveltar allt þetta kjörtímabil. Auðvitað læðist að manni að meiningin með þessu sé kannske þessi. Ég ætla ekki hæstv. ráðh. svo lágar hvatir að setja þetta fram í þessum tilgangi heldur sé hans meining sú að reyna að hefja þessa málaflokka til nokkurs vegs. En hæstv. samráðherrar hans úr báðum flokkum, sem einnig eru því miður allt of margir í framboði áfram, munu örugglega nota sér þetta og hampa þessum tölum, hæstv. ráðh., þeir sömu ráðherrar sem hafa verið að skera niður fyrir honum allan tímann. Það verður ekki amalegt fyrir þá að nota sér þessar tölur, t.d. hæstv. framsóknarráðherra sem hafa verið allra manna drýgstir í því að bera ráðherrann ofurliði í þessum málaflokki alveg sérstaklega, það vitum við. (StG: Er það nú víst?) Það er víst og meira en víst, hv. þm. Stefán Guðmundsson, og er von að þú segir það bakdyramegin en komir ekki inn í sal til að spyrja um svo augljósa hluti. (StG: Það er nú ekki öll nótt úti enn.) Nei, það er ekki öll nótt úti enn. Kannske framsóknarráðherrarnir geti líka farið að hampa einhverju svipuðu og veifa þessu hér og þessu þar. Mér sýnist að ef svo heldur áfram með sjálfstæðisráðherrana- ég sé að hæstv. heilbr.- og trmrh. er kominn í kosningabuxurnar bærilega og ætlar að fara að veifa fæðingarorlofi framan í konur landsins-verði framsóknarráðherrarnir að taka til hendi og fara að veifa einhverju svipuðu, því að það er hreint með ólíkindum hvað sjálfstæðisráðherrarnir hafa náð þarna drjúgu forskoti á framsóknarráðherrana. (StG: Það þarf tvo til í þeim efnum.) Það þarf tvo til, segir hv. þm. Ekki þegar um óútfyllta tékka er að ræða. (StG: Til að fá fæðingarorlofið.) Til að fá fæðingarorlofið, já. Ég hélt að hann meinti sérstakt afkvæmi þessara tveggja flokka. Já, ég væri alveg tilbúinn að veita þeim hv. flokkum, ef þeir eignuðust afkvæmi saman, Sjálfstfl. og Framsfl., ákveðið orlof og það meira en sex mánaða orlof frá stjórn landsins. Ég er alveg sammála hv. þm. í því að það væri full ástæða til þess að veita þeim ærið orlof og jafnvel greiða þeim vel fyrir ef það tækist að ná þeim í það orlof frá stjórn landsins.

En hér mætti rekja utan enda. Ég nefndi t.d. að Ó-vegir skyldu fá sérstakt fjármagn. Því var lofað. Um það var samið. Inn á það gengum við t.d. þm. Austfirðinga vegna þess að við vorum á því að hér væri um þörf og góð verkefni að ræða og töldum sjálfsagt að verða við því að þau væru sett í nokkurn forgang. Við töldum það sjálfsagt. En hvað varð? Ó-vegirnir lentu inni í skiptingunni og skertu hlut annarra kjördæma en þeirra sem Ó-vegirnir voru í. Ætlunin var aldrei þessi og menn létu blekkjast í þessu efni.

Inn í þetta mætti svo taka hluti sem er kannske ástæða til að ræða meira við síðari umræðu þessa máls. Það er hin háa upphæð viðhaldsfjár. Ég segi ekki að hún sé svo há miðað við þörfina, en hún er hátt hlutfall af nýbyggingarfénu. Nýbyggingarféð er þannig að við skiptum því hér á Alþingi og þm. hvers kjördæmis taka þátt í skiptingu þess. Viðhaldsféð er hins vegar alfarið á ábyrgð Vegagerðarinnar. Ég tel það eðlilegt og sjálfsagt og tel að það eigi að halda áfram vegna þess að faglegir aðilar vita best og þekkja best hvar skórinn kreppir varðandi hið almenna viðhald. En hér er um svo háar upphæðir að ræða að ég held að það þurfi að fást við afgreiðslu hverrar vegáætlunar ákveðnar útlinur um í hvað helst verður veitt því viðhaldsfé sem kemur í hvert kjördæmi. Ég skal taka undir að nýting Vegagerðar ríkisins á þessum fjármunum hefur verið mjög skynsamleg. Það hefur oft verið bætt við verk sem hafa verið í nýbyggingum, hefur verið veitt fjármagn til nýbygginga, bætt við það úr viðhaldsfénu, og þannig hefur nýtingin orðið góð og við fengið miklu betra og meira út úr þessu en annars hefði verið. En ég held að það sé nauðsynlegt fyrir þm., þegar þeir eru að skipta alveg niður í botn má segja nýbyggingarfénu, að hafa helstu útlínur varðandi skiptingu viðhaldsfjárins, þau stærstu verkefni, og geta hagað nokkuð skiptingu nýbyggingarfjárins eftir því hvar Vegagerðin ætlar að ráðstafa meginhluta þess viðhaldsfjár sem hún er með á hverjum tíma. Það er býsna stór hlutur, líklega yfir 60% af nýbyggingarfjárupphæðinni á hverjum tíma.

Tvö atriði kem ég ævinlega inn á og skal ekki láta bregðast í lok minnar þingsetu að koma inn á varðandi afgreiðslu vegáætlunar. Annað snertir hina miklu og auknu áherslu á bundið slitlag. Ekki skal amast við því út af fyrir sig ef svo þröngur stakkur væri ekki sniðinn heildarframlögum. Ég held nefnilega að víð eigum að viðurkenna það öll og hljótum að gera að hér er um arðbærar framkvæmdir að ræða að sjálfsögðu, en þegar svo þröngur stakkur er sniðinn sem raun ber vitni getum við ekki leyft okkur að auka þennan þátt á kostnað annarra. Það hefur að vísu verið farið út í það, eins og hæstv. ráðh. kom inn á áðan, að leggja einbreitt slitlag sums staðar þar sem það hefur verið talið kleift. Ég mæli mjög með því. Það er ódýr lausn og getur verið skynsamleg, en auðvitað á hún sín takmörk einnig.

Ef við værum með 2,4% af þjóðarframleiðslunni inni í þessu dæmi í staðinn fyrir 1,5% eða 1200-1300 millj. kr. meira fjármagn en nú er skyldi ég ekki vera með múður út af þessari áherslu á bundna slitlagið, ef við værum með þessa peninga til viðbótar. En ég held að við verðum að skoða það, og það er óhjákvæmilegt a.m.k. fyrir okkur sem búum á torfæruleiðum landsbyggðarinnar og búum við þá vegi sem þar eru, að staldra nokkuð við þegar verið er að leggja enn aukna áherslu á bundnu slitlögin, því að þegar uppbygging bíður svo víða sem raun ber vitni, þegar heilu vegarkaflarnir eru nánast ruðningar, þegar slysagildrur blasa við okkur svo víða sem raun ber vitni og þegar einstök höft virka sem hrein háðsmerki á milli kafla með bundnu slitlagi, teppalagðir í bak og fyrir en með ófærukafla á milli, þá hlýt ég að hugsa minn gang, hversu gott sem mér þykir að aka á þessum teppalögðu brautum og hversu mikil sem arðsemin kann að verða reiknuð ein og sér út frá þröngum mælikvarða þess tiltekna kafla sem taka á fyrir án tillits til þeirra kringumstæðna sem valda því að þessi kafli er kannske ekki ökufær tímunum saman af þeirri einföldu ástæðu að ákveðið haft eða ákveðin gildra er þar rétt hjá. Þetta hljótum við að athuga í ljósi þess ástands og þess heildarástands sem er á vegum í hverju kjördæmi. á þessu stigi skal ekki farið út í kjördæmasamanburð. Við fáum þetta til meðferðar og þetta með óráðstafaða féð kemur óneitanlega inn í dæmið. Um það hef ég þegar rætt.

Hitt atriðið sem ég kemst ekki hjá að nefna snertir útboðin og skal ekki endurtekið allt sem hér hefur verið sagt þar um. Ekkert af því sem ég hef fullyrt þar hefur verið afsannað. Hæstv. ráðh. tíundaði áðan tölur um ágæti útboðanna. Ég hef ekki tök á að rengja þær út af fyrir sig, en þó komu þar fram ákveðnar viðbótartölur, ákveðnar viðbótarprósentur sem hækkuðu hinar upphaflegu tilboðstölur, sem svo mjög er gumað af, um nær 20%. Skyldu nú öll kurl vera komin til grafar þegar þessi 18-20% eru komin ofan á þær tölur sem venjulega eru gefnar upp og alltaf er verið að guma af? Það skyldi nú vera. Ég verð líka að segja það í ljósi þeirrar sögu sem ég hef af örlögum margra verktaka að óskaplega þykir mér hæpið að tala um gróða. Ég hreinlega get það ekki þegar ég horfi á gjaldþrot heimaaðila sem eru að basla við þessi verkefni. Gróði hvers?

Hver er að græða á þessu? Það hryggir mig hreinlega að heyra ráðherra tala sífellt um sérstakan gróða af þessu því að hann veit nákvæmlega eins og ég um þau mörgu tilfelli þar sem mistök, ýmiss konar vandræði og hrein gjaldþrot hafa blasað við þeim verktökum sem hafa tekið þessi verk að sér, hafa lokið þeim fyrir Vegagerðina þannig að hún gæti skilað þeim á þennan veg og sagt: Við græddum þetta og þetta mikið á þeim, en þeir standa svo gjaldþrota eftir. Og ég spyr bara: Hver græðir á þessum hlutum?

Ég ætti kannske ekki að vera að taka verktaka almennt, sem eru eflaust atvinnurekendur í þá veru skilið, alveg sérstaklega í forsvar og taka þá eitthvað fram fyrir samfélagið í þessum efnum því að það er samfélagið líklega sem græðir á útboðunum eftir því sem hæstv. ráðh. upplýsti áðan. En ég get ekki annað satt að segja vegna þess hversu margir verða hér fyrir. Það eru ekki neinir einstaklingar sem eru í einhverju gróðabralli heldur verða fjöldamargir aðilar fyrir barðinu á þeim gjaldþrotum sem hafa orðið í sambandi við hin einstöku verk á undanförnum árum. Ég held að við verðum að setja hérna reglur. Útboð eiga að sjálfsögðu rétt á sér, það hef ég alltaf sagt, í vissum sértækum verkefnum. Við verðum að setja reglur, ákveðnar takmarkanir þar sem það á við, samninga um minni verk þar sem skynsemin fær að ráða báðum til góðs, verksala og verkkaupa. Hér þarf og á að gá til allra átta.

Við síðari umræðu gefst kostur á ítarlegri umræðu um þessi mál. Þá kemur kjördæmaskiptingin í ljós. Þá hefur hún skýrst og eins raunveruleg niðurstaða langtímaáætlunar og skipting öll orðin ljósari og skal ég því ekki fara nánar út í þessi mál hér og nú. En ég vek athygli á því enn hvers konar till. til þál. um vegáætlun menn ætla að samþykkja núna fyrir árin 1987-1990. Við ætlum að samþykkja rauntöluna eða raunveruleikann 1987, 2150, og svo ætlum við að gefa út óútfyllta ávísun á 1988-1990 þar sem við ætlum að fara um 60% yfir það mark sem við treystum okkur til á þessu ári.