24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3374 í B-deild Alþingistíðinda. (3048)

366. mál, neyslu- og manneldisstefna

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 659 till. til þál. ásamt hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni, Guðrúnu Agnarsdóttur, Guðmundi Einarssyni, Skúla Alexanderssyni, Davíð Aðalsteinssyni, Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, Eggert Haukdal og Kristínu Halldórsdóttur. Tillagan er um mótun opinberrar neyslu- og manneldisstefnu og hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að vinna að mótun opinberrar neyslu- og manneldisstefnu. Meginatriði stefnunnar verði:

1. Hollusta fæðunnar, þar sem lögð verði til grundvallar manneldismarkmið manneldisráðs.

2. Leiðbeiningar og fræðsla um hollt mataræði, samsetningu fæðunnar, meðferð matvæla og matreiðslu.

3. Hvatning til neyslu hollrar og næringarríkrar fæðu.

4. Gæðakröfur matvöru með tilliti til litar- og bragðefna.

5. Betra mataræði á stofnunum.

6. Efling næringarrannsókna.

7. Að lögð verði áhersla á nýtingu innlendrar framleiðslu.

8. Að stjórnvöld stýri neyslunni með verðlagningu.“

Það er löngu orðið tímabært að mörkuð verði opinber neyslustefna hér á landi eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar, t.d. Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Markmið opinberrar stefnumörkunar á þessu sviði eru að hvetja til neyslu hollrar og næringarríkrar matvöru, að tryggja nægilegt framboð á henni og efla leiðbeiningar og ráðgjöf um hollustumataræði, meðferð matvæla, samsetningu fæðunnar og matargerð.

Það hefur komið greinilega í ljós að nægilegt framboð matvæla í landinu er ekki eitt sér trygging fyrir heilsusamlegu mataræði. Verðlag skiptir hér miklu máli. Stjórnvöld geta t.d. stýrt eftirspurn og þar með neyslu hollustuvöru með lágu verðlagi samhliða markvissum áróðri. Setja þarf ákveðin markmið um samsetningu neyslunnar, hvernig draga megi úr óæskilegum þáttum í fæðunni, svo sem fitu og sykri. Gera þarf úttekt á því að hve miklu leyti er hagkvæmt að fullnægja fæðuþörf þjóðarinnar með innlendri framleiðslu og setja markmið í því efni.

Samkvæmt könnun manneldisráðs 1979-1980 var sykurneysla landsmanna tvöfalt meiri en æskilegt er og ein sú mesta sem spurnir fara af í víðri veröld. Samkvæmt tölum um innflutning og framleiðslu sælgætis í hitteðfyrra, árið 1985, má reikna með að sælgætisneysla Íslendinga sé nærri 11/2 kg á mann í hverjum mánuði. Ein alvarlegasta afleiðing hinnar óhóflegu sykurneyslu eru miklar tannskemmdir, en þær eru meiri meðal Íslendinga en flestra annarra þjóða. Einnig má nefna hættu á skorti á vítamínum, steinefnum og fæðutrefjum.

Breyttir þjóðfélagshættir hafa haft það í för með sér að máltíðirnar hafa að miklu leyti flust út af heimilunum. Láglaunastefnan, sem hér hefur viðgengist, þar sem ekki er unnt að framfleyta meðalfjölskyldu á dagvinnulaunum, hefur haft þær afleiðingar að báðir foreldrar vinna langan vinnudag til að endar nái saman. Oft neyta þeir matar á vinnustað eða a.m.k. utan veggja heimilisins. Aðeins morgunverður, sem oft er af skornum skammti og næringarsnauður, er snæddur heima, svo og kvöldverður þegar heim er komið að loknum vinnudegi. Börn á dagvistaraldri matast á dagheimilum eða hjá dagmæðrum. En hvað með börn og unglinga á skólaaldri? Hvað er þeim boðið upp á? Hér tíðkast hvorki samfelldur skóladagur né skólamáltíðir sem þykja sjálfsagðar hjá flestum þeim þjóðum sem siðaðar vilja kallast.

Þetta ófremdarástand hefur átt stóran þátt í því að í þessum stóra hópi þjóðfélagsþegna virðist „sjoppufæði“ og skyndibitasnarl hafa komið í staðinn fyrir hollan hádegisverð og aðra matmálstíma að degi til. Börn og unglingar eiga mörg hver ekki í önnur hús að venda en sjoppurnar, enda fyrirfinnst varla sá skóli, a.m.k. í þéttbýli, sem ekki hefur sjoppu við húshornið. „Sjoppufæðið“ er að sjálfsögðu yfirleitt óhollt og að uppistöðu fita og sykur. Afleiðingar þessa útigangsmataræðis eru smám saman að koma í ljós, m.a. í tannskemmdum, sleni, þolleysi og ýmiss konar heilsuleysi.

Það vekur líka athygli í könnun manneldisráðs hve lítið er af D-vítamíni í daglegu fæði landsmanna. Besta ráðið við D-vítamínskorti er lýsisneysla, en lýsisgjafir í skólum hér á landi eru nú liðin tíð.

Undanfarin ár hefur skilningur almennings aukist mjög á hollustu og heilbrigðu líferni. Allir þurfa að huga að þessum málum, en mikilvægast er þó að vekja til vitundar um neysluvenjur og heilsufar skólabarna. Ástandið í þeim efnum er óviðunandi og þar verður að snúa við blaðinu með myndarlegum hætti, ef ekki á að fara enn verr en þegar er orðið.

Því miður hefur lítið farið fyrir aðgerðum stjórnvalda á þessu sviði hingað til. Núverandi ríkisstjórn hefur þó sýnt nokkra viðleitni, m.a. með því að hefja niðurgreiðslur á mjólk til skólabarna, með lækkun tolla á innfluttu grænmeti og breytingum á reglum um kjötmat sem miða að því að draga úr fitu á dilkakjöti. Þá ber einnig að nefna átak gegn tannskemmdum á vegum heilbrrn. En betur má ef duga skal. Okkur vantar heildar neyslu- og manneldisstefnu. Að framgangi hennar verður síðan að vinna með ýmsu móti, jafnt með fræðslu sem félagslegu átaki. Þar er samfelldur skóladagur og hollar skólamáltíðir efst á blaði.

Það er óumdeilanleg staðreynd að verðlag á matvörum hefur áhrif á neysluna. Í sambandi við óhemjumikið sykurát Íslendinga má benda á að sykur er mjög ódýr hér á landi. Kílóið kostar tæpan þriðjung af því sem það kostar í Finnlandi og Danmörku, og í Noregi og Svíþjóð er sykur tvöfalt dýrari en hér. Álögð gjöld á sykur árið 1987 eru engin, enginn tollur, ekkert vörugjald, enginn söluskattur né nokkur önnur gjöld. Væri ekki skynsamlegra að hækka sykurverðið og nota mismuninn til heilsugæslu, t.d. til tannverndar eða niðurgreiðslu á skólamáltíðum?

Í þeim grannríkjum okkar, þar sem opinber neyslustefna hefur verið mörkuð, er líka lögð áhersla á gott og næringarríkt mataræði á stofnunum, í skólum, á sjúkrahúsum, á elliheimilum og ekki síst á dagvistarstofnunum. Það er afar mikilvægt að byrja snemma að ástunda hollar matarvenjur, því að lengi býr að fyrstu gerð.

Herra forseti. Ég hef rakið hér nokkra þætti sem nauðsynlegt er að hafa í huga við mótun opinberrar stefnu í neyslu- og manneldismálum. Í framkvæmd yrði slík stefna ekki einungis til hagsbóta fyrir börn og unglinga, því að hagsmunir æskunnar eru auðvitað samtvinnaðir hagsmunum fjölskyldunnar og heimilisins og reyndar þjóðfélagsins í heild. Með mótun öflugrar stefnu í þessum málum yrði stigið framfaraspor til almenningsheilla.

Að lokum legg ég til, herra forseti, að till. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. félmn.