24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3376 í B-deild Alþingistíðinda. (3049)

366. mál, neyslu- og manneldisstefna

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég er meðflm. að þessu ágæta máli sem fjallar um mótun opinberrar neyslu- og manneldisstefnu. Í þessari þáltill. er tiltekið sérstaklega ákvæði um leiðbeiningar og fræðslu um hollt mataræði og vil ég víkja nánar að heilbrigðisfræðslu. Sú vitneskja er að verða almennari að orsakir margra þeirra sjúkdóma sem okkur eru einna skæðastir megi rekja til lifnaðarhátta, umhverfis og næringar svo eitthvað sé nefnt. Meðal fátækra þjóða ríkja smit- og hörgulsjúkdómar en meðal ríkra þjóða er heilbrigðisvandinn oft afleiðing velmegunar eins og umhverfismengun, kyrrseta, ofnotkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna ásamt slæmum matarvenjum sem einmitt er tekið á í þessu máli. Þessir þættir ásamt öðrum leiða svo til ýmissa þeirra sjúkdóma sem heilbrigðisþjónustan þarf nú að kljást við og hér eru einmitt nefndir þeir sjúkdómar sem eru tíðastir orsakavaldar að dauða manna hérlendis í dag, t.d. eins og æðakölkun, kransæðastífla og krabbamein.

Hægt er að koma í veg fyrir þessa sjúkdóma og besta vörnin gegn þeim er einmitt fræðsla sem virkjar einstaklinga til að finna til ábyrgðar gagnvart eigin heilbrigði og löngunar til að viðhalda henni. Till. þessi miðar að því að efla fræðslu um ákveðinn þátt sem varðar matarvenjur og næringu.

Almennri heilbrigðisfræðslu hefur verið í ýmsu ábótavant hér á landi. Heilsufræði hefur verið kennd í skólum en þó mjög misvel. Á þessu mun þó vonandi verða ráðin bót vegna þess að á árunum 1984-1985 tók Ísland þátt í norrænu verkefni í heilbrigðisfræðslu í grunnskólum. Markmið þess er að þróa heilbrigðisfræðslu í þátttökulöndunum og að móta sameiginlega stefnu landanna í málefnum heilbrigðisfræðslu og heilsuuppeldis. Sem sagt: Að venja börnin frá fyrstu tíð við hollustusamlegar lífsvenjur. Verkefnið byggist á skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá árinu 1948 um heilbrigði. Samkvæmt henni er heilbrigði skilgreind sem fullkomin líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan, en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma eða veiklun. Slík heilbrigði er talin til grundvallarmannréttinda.

Viðhaldsfræðsla almennings um heilbrigðismál hefur verið handahófskennd. Stofnanir eða embættismenn á vegum hins opinbera, áhugasamir einstaklingar, félög og samtök heilbrigðra og sjúkra hafa að vísu gefið út ágætis fræðsluefni og jafnvel fylgt því eftir með kennslu eða áróðri. Vert er í þessu sambandi að lofa hið mikla og góða starf sem þegar hefur verið unnið í þessum efnum. Hins vegar hefur samræmda og skipulega fræðslu vantað og hún hefur ekki verið á ábyrgð neins ákveðins aðila heldur margra ólíkra og þá aðeins sem hluti af miklu stærra verksviði. Í þessari tillögu er tiltekið að hafin verði fræðsla, og reyndar fleiri aðgerðir, til þess að efla hollustuhætti í matarvenjum.

En fræðslan ein sér nægir þó ekki til að tryggja það að einstaklingarnir taki ábyrgð á eigin heilsugæslu. Þeim verður jafnframt að vera það kleift efnahagslega og félagslega að velja sér lifnaðarhætti í samræmi við þá heilbrigðisfræðslu sem stunduð er. Og hér er einmitt til þess tekið að stjórnvöld stýri neyslu með verðlagningu og þá í hollustusamlega átt. Þau hafa þarna miklu hlutverki að gegna í þessum efnum. Þau verða að vera vel meðvituð um hagsmuni heilbrigðisfræðslu þegar þau móta stefnu og taka ákvarðanir og gæta þess jafnframt að allir þættir stjórnsýslunnar séu samvirkir til að ná markmiðum heilbrigðisfræðslunnar og að því miðar þessi tillaga einmitt.

Ég tel að hún hreyfi hinu ágætasta máli og vona að hún fái greiða leið í gegnum þingið. Hún er í anda þeirrar samþykktar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem hæstv. heilbrmrh. hefur skrifað undir og fjallar um áætlun sem hefur að markmiði: Heilbrigði fyrir alla á árinu 2000. Þess vegna er þessi tillaga í takt við tímann og ég skora á alla hv. þm. að kynna sér efni hennar og veita henni brautargengi í gegnum þingið.